03.06.1933
Neðri deild: 94. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (4419)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir frá upphafi verið hinn ferlegasti óskapnaður. Með samþykkt þess er gengið inn á þá braut, að gert er upp á milli þjóðfélagsborgaranna með áhrifavald um það, sem þeim er dýrmætast, en það eru atvinnumálin. Það snertir auðvitað fyrst og fremst þá, sem búa við sjávarsíðuna og hafa lífsuppeldi sitt úr sjónum, en það snertir einnig þá smábændur, sem ásamt búskap sínum stunda sjó. Þessum mönnum er áreiðanlega gerður óleikur með því að steypa yfir þá heilum flota aðvífandi fiskimanna, ekki bara íslenzkra, heldur einnig færeyskra og danskra, og það með þessum veiðarfærum, dragnótinni. Og nú með þessu frv., ef að 1. verður, er tekið allt vald frá mönnum hér við sjávarsíðu Suðurlandsins til að verjast þessum ófögnuði.

Nú hefir tekizt svo slysalega til, að hv. Ed. hefir samþ. þetta frv. Þó hefir þeirri d. verið ljósari hættan af þessari löggjöf en þessari hv. d., því að þar kom fram till. um það, að einskorða leyfi til þessara veiða við þá báta, sem skrásettir eru við Faxaflóa og Breiðafjörð, þ. e. a. s., að á þessum stöðvum megi bátar annarsstaðar að ekki stunda dragnótaveiðar í landhelginni. Auðvitað slær þessi till. ekki fullkominn varnagla við miklum dragnótaveiðum í landhelginni, því að fara má í kringum hana á margan hátt. Það má t. d. taka báta á leigu og skrásetja þá hér við Faxaflóa, og hverskonar leppmennska gæti þrifizt í því efni. En líkur væru til, að þetta ákvæði útilokaði alveg Dani og Færeyinga af þessum svæðum. Ég skal ekki segja, nema þeir tækju hér báta á leigu og kæmust svoleiðis undir ákvæði l., en þeir gætu þó ekki vaðið beint og hindrunarlaust inn í landhelgina, en yrðu að fara hliðargötur. En það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að gera slíka tilraun til þess að útiloka utansveitarmenn og útlendinga af miðunum. Það yrði þá aðeins svæðið í kringum Vestmannaeyjar, sem yrði fórnað í hendur Færeyinga og Dana og opnað á gátt fyrir eyðileggingunni. En íbúar Vestmannaeyja gætu skoðað það sem einkamál milli þeirra og hv. þm. Vestm., sem svo ötullega hefir barizt fyrir slíku óláni og óhagræði eyjaskeggja. — En það eru fleiri, sem bíða tjón af þessum ráðstöfunum. Öll þjóðin verður að gjalda glópsku þeirra, sem nú láta nota sig til þessa óhappaverks. En það er þó ekki hægt að segja, að þeir hafi gengið að því blindandi. Svo mikið hefir verið reynt að opna augu þeirra fyrir skaðsemi málsins, að slíkar afsakanir duga ekki.

Eftir framkomu hv. Nd. í þessu dragnótamáli get ég nú vonazt til þess, að hún felli þetta frv. Hún hefir ekki verið lengi að hafa skoðanaskipti í því áður, og með þessum skoðanaskiptum gæti hún bætt fyrir sinn fyrri hringlanda í málinu, að gæti þurrkað út þann vansæmdarblett, sem þingið er búið að setja á sig í þessu máli.