27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (4426)

97. mál, veitingaskattur

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Meiri hl. fjhn. hefir komið sér saman um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem aðallega eru orðabreyt., og eru þær að mestu leyti gerðar í samráði við hæstv. fjmrh. og eftir ósk hans. Það var nokkuð talað um þetta frv. við 1. umr., og þarf ég ekki miklu við það að bæta. Allir vita, að aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv. er sú, að ríkissjóður hefir mikla tekjuþörf í því árferði, sem nú er. Og þó að þessi skattur hafi ekki verið lögleiddur áður, þá mun það vera mál manna almennt, að meiri hlutinn af því fólki, sem mest sækir veitingastaði, sé einhleypt fólk, sem ekki hugsar um að spara fé sitt, en eyðir því jafnskjótt og það aflast, til þess að veita sér skemmtanir og lífsþægindi, og sem ekki er mjög hlaðið á öðrum sköttum. Margt af þessu fólki hefir og nokkur fjárráð, og virðist því ekki ósanngjarnt, að það leggi nokkuð af mörkum til opinberra þarfa. Skattur þessi verður því fyrst og fremst eyðsluskattur. Ég býst við, að því verði haldið fram af þeim, sem eru á móti málinu, að það séu ýmsir agnúar á framkvæmd þessara skattalaga og að þau hafi sumstaðar verið afnumin, þar sem búið var að koma þeim á. En venjulegast hafa þjóðirnar gripið til þessarar skattaálagningar, þegar hinir venjulegu tekjustofnar ríkjanna hafa rýrnað og þjóðfélögin þar af leiðandi lent í fjárþröng. Hæstv. fjmrh. hefir óskað eftir, að skatturinn yrði 15% fremur en 10%, og þótti meiri hl. n. rétt að leggja það undir atkv. hv. þd. — Í öðru lagi þóttu viðurlögin nokkuð há í 11. og 12. gr. frv., og að því lúta brtt. n. að milda þau nokkuð. Ef hv. þd. álítur þetta réttmætan tekjustofn, þá verður það ekki gert að deiluefni frá okkar hálfu í meiri hl. n., þó að hv. þdm. vilji gera smávægilegar breyt. á frv.