27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (4427)

97. mál, veitingaskattur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki getað orðið hv. meðnm. mínum samferða um afgreiðslu þessa frv. Ég skal að vísu játa, að það tekur sig nógu vel út á pappírnum eða í orði kveðnu, að þessi veitingaskattur sé tekinn af því fólki, sem sleppur léttara við önnur opinber gjöld, einhleypu fólki með sæmilegar tekjur. En satt að segja held ég, að möskvarnir í skattalöggjöfinni séu orðnir svo smáriðnir, að þegnarnir hafi ekki mikla möguleika til að sleppa í gegnum þá. Þó skal ég játa, að þetta lítur ekki illa út. En þegar ég fór svo að kynna mér frv. nánar, varð mér það ljósara en áður, hversu feikilegum erfiðleikum það er bundið að framfylgja þessari löggjöf, sérstaklega í fámennum og strjálbýlum héruðum. Ég vil aðeins benda á sem dæmi þessu til sönnunar, að höfundur frv., sem hefir komið efni þess fyrir í 17 greinum, — ég tel ekki þá 18., ákvæðið um hvenær lögin gangi í gildi —, honum hefir reynzt nauðsynlegt að láta 7 greinar frv. fjalla eingöngu um mismunandi refsiákvæði út af ýmiskonar brotum, sem framin kynnu að verða gegn lögunum. Þetta út af fyrir sig bendir ákaflega ljóst á þá erfiðleika, sem þeir hljóta að eiga við að stríða, er eiga að framfylgja lögunum. — Í þeim 10 greinum frv., sem hljóða um skattinn sjálfan, en eigi refsiákvæðin, er ýmislegt, sem sýnir, hversu erfiðleikarnir eru geysimiklir. Ég vil t. d. benda á ákvæði 2. gr. Hver á að hafa auga með því, að þeim sé fylgt? Þá þarf að athuga, að allir þeir, sem selja fæði, mjólk og skyr, bregði eigi út af fyrirmælum greinarinnar. Það verður að gera greinarmun á því, hvort ein máltíð er fullkomin eða eigi, og gæta þess, hvort hún er seld meira eða minna en kr. 1,25, og ennfremur verður að gæta þess, hvort mjólk og skyr er selt með meira eða minna álagi en 25% frá söluverði á staðnum. Það mun verða allerfitt að fylgjast með því á afskekktum sveitaheimilum, hvort álagningin á þessari sölu nemur meiru en 25%, geri ég ráð fyrir. — Í frv. úir og grúir af svona ákvæðum, sem illmögulegt er að framfylgja. Og ég er hræddur um, að þegar á að framkvæma þessi lög, þá reynist þau annar áfengislagaóskapnaður.

Þær tekjur, sem um gæti verið að ræða af þessu frv. fram yfir það, sem fer í kostnað við eftirlitið, yrðu, eftir því sem stendur í grg. frv., af fjórum stærstu veitingahúsunum í Rvík. Eru leiddar líkur að því, að veitingaskattur af þessum 4 veitingahúsum muni nema freklega 80 þús. kr. En það er mín skoðun, að þegar þessi fjögur veitingahús eru frá talin, þá muni kostnaðurinn við eftirlitið um framkvæmd laganna vega upp á móti þeim tekjum, sem fást af þessum skatti annarsstaðar á landinn. Og þess vegna hefi ég ekki séð mér fært að fylgja þessu máli. Ég get varla álitið rétt að leggja á þennan skatt sérstaklega vegna gesta þessara fjögurra veitingahúsa, sem náð hafa svo miklum viðskiptum, að það borgar sig fyrir ríkissjóð að innheimta skatt af þeim. Ég get því ekki tekið aðra afstöðu en þá að leggja á móti þessu frv. Það verður leiðinlegur eltingarleikur að innheimta sektir fyrir brot á lögunum samkv. ákvæðum þessara 7 lagagr. í frv., er ég áður nefndi, og tekjurnar af þessum skatti hinsvegar svo óverulegar, að benda má á margar aðrar leiðir, sem auðveldari reynast til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.