08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (4468)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hæstv. forseti! Um leið og ég legg frv. fyrir hv. deild, þarf ég að fara aftur í tímann og skýra frá tildrögum stjórnarskiptanna á síðasta þingi.

Þegar fráfarandi stj. hafði sagt af sér, var þess óskað af Framsfl., að ég reyndi að mynda flokksstjórn með stuðningi eða hlutleysi annara flokka. Í viðtölum við Sjálfstfl. kom það í ljós, að hann var tilleiðanlegur að styðja hreina framsóknarstjórn, ef Framsfl. vildi setja tryggingar fyrir afgreiðslu kjördæmamálsins á þingi 1933 á þann hátt, sem um semdist milli flokkanna, áður en stjórnin yrði mynduð. Þetta varð ekki að ráði. Framsfl. fékkst ekki til að setja neina slíka tryggingu eða halda áfram samningum um málið eins og þá var komið. Næsta stigið var stjórnarmyndun um það fyrst og fremst að bjarga nauðsynlegum fjármálum þá á þinginu og beina huganum aðallega að yfirstandandi vandræðum, og eftir nokkra umleitun tókst að mynda stjórn með tveimur mönnum úr Framsfl. og einum af sjálfstæðismanna hálfu. Um þetta sagði ég í ræðu, er ég hélt þá við stjórnarmyndunina:

„Núv. stj. er fyrst og fremst mynduð ýmist með stuðningi eða hlutleysi mikils meiri hl. þingmanna, til að greiða sem bezt úr þeim örðualeikum, sem umkringja oss á alla vegu. Horfurnar eru svartar. Minnkandi toll- og skatttekjur ríkissjóðs og margháttaðir erfiðleikar atvinnuveganna til lands og sjávar blasa við þjóðinni, lækkandi verðlag á útflutningsafurðum og hækkandi tollar í þeim löndum, sem vér skiptum við. Hin nýja stj. telur sér skylt að gæta alls þess sparnaðar, sem við verður komið án vansæmdar, og hafa vakandi auga á afstöðu atvinnuveganna um viðskipti við önnur ríki og gera í því efni allar þær ráðstafanir, sem í hennar valdi eru, til að hlynna að atvinnuvegunum“.

Þetta var höfuðtilgangur stjórnarmyndunarinnar. Um stjskr.málið náðist þá ekkert samkomulag milli þingfl.

Mér hefir það að vísu lengi verið ljóst, að til vandræða hefir horft um skipun Alþingis og kjördæma. Ég var raunar ráðinn í því áður að leggja mitt lið — þó að það skipti ekki miklu — til þess, að úr þessu vandamáli þjóðarinnar yrði leyst með samkomulagi milli flokkanna, og þá helzt allra. Um það leyti sem stjórnarmyndun tókst átti ég tal við fulltrúa Sjálfstæðisfl. í stjórninni um stjórnarskrármálið, og við urðum ásáttir um að leggja fyrir næsta þing frv. til stjórnskipunarlaga, sem færi sem næst þeim till., sem í viðtölum flokkanna á síðasta þingi virtust líklegastar til að geta orðið til samkomulags.

Um þetta atriði sagði ég í ræðu þeirri, er ég gat um:

„Persónulega hefði ég helzt kosið, að samningar hefðu náðst um afgreiðslu stjórnarskrár og fjármála án stjórnarskipta. En því var ekki að fagna. Það öngþveiti, sem málefni þjóðarinnar hafa komizt í á þessu þingi, liggur ekki eingöngu í þeirri áherzlu, sem þingflokkarnir hafa lagt á mál sín, heldur og í sjálfri stjórnarskipun landsins. Sambland kjördæmakjörs og landskjörs með þeim hætti, sem nú er, og skipun deilda þingsins getur leitt til hins sama öngþveitis hvenær sem er, og heldur útlit fyrir, að sú hætta aukist en að úr henni dragi. Ég lít svo á, að skylt sé að gera þær breytingar á kosningatilhögun og skipun þingdeilda, að sem mest trygging verði fyrir því, að Alþingi verði á hverjum tíma starfhæft, enda verður það ekki hrakið með rökum, að jafna beri kosningarrétt þegnanna frá því, sem nú er. Ég tel mér því skylt sem stjórnarforseti að leggja fyrir næsta þing frv. til laga um breyting á stjórnarskipunarlögum ríkisins, sem feli í sér sanngjarna lausn þessara mála“.

Þetta eru þær yfirlýsingar, sem á undan eru gengnar. Nú er frv. fram komið og hér með lagt fyrir þessa hv. deild. Frv. er tilraun stjórnarinnar til samkomulags. En það er ekkert séð fyrir um úrslitin.

Undir lok síðasta þings hafði ég ástæðu til að ætla, að slík tilraun sem þessi yrði ekki árangurslaus. En það má vera, að nú séu einhverjar þær stoðir hrundar, sem ég þá byggði traust mitt á. Það kemur í ljós í meðferð málsins á þessu þingi, hvort við sama stendur nú eins og þá.

Eins vil ég geta í þessu sambandi, bæði vegna gangs þessara mála á síðasta þingi og einnig á þessu nýbyrjaða þingi, og það er það, að ég hefi sízt trú á, að nokkuð vinnist á með hótunum. Ég á við það, ef hver aðili setur slík skilyrði sem þessi: Ef þú vilt ekki fallast á kröfur mínar, þá skal ég valda þeim truflunum og tjóni fyrir þjóðfélagið, sem ég er maður til í þjóðfélaginu. Ef allt, sem máli skiptir á þessum hörmungatímum, er stöðvað af annarlegum ástæðum, þá bitna afleiðingarnar ekki á einum þingflokki, heldur á allri þjóðinni, kjósendum allra flokka. Þingið á að leysa vandræðin, en ekki auka þau. Hér verður ekki býsnað til batnaðar. Það eina, sem getur skapað samkomulag, er það, að réttlætistilfinningin dragi hugi manna í eina átt.

Ég get á þessu stigi enga yfirlýsingu gefið um afstöðu Framsfl. til þessa frv., sem stjórnin leggur fram. Frv. var samið og fullbúið áður en það var sýnt nokkrum flokki til umsagnar. En ég veit þó að ströng skilyrði, að því viðlögðu að valda stöðvun nauðsynjamála, munu ekki orka á hug nokkurs framsóknarþm. Trúa mín er þó sú, að ástandið, það sem nú er ríkjandi í þjóðfélaginu, heimti tvennskonar jöfnun af því þingi, sem nú situr. Annað er jöfnun um atkvæðisrétt og áhrif í þjóðfélaginu, en hitt er jöfnun á aðstöðu í lífinu. Þörfin á hvorutveggja þessari jöfnun er svo rík, að það mun undan láta áður en langt um líður. Kjördæmamálið og kreppumálin sækja á með miklum þunga. Tregðan um það að láta af sérréttindum, í hvaða mynd sem eru, er að vísu sterk, hvort sem það eru sérréttindi um auð eða völd. En kröfurnar um það jafnrétti þegnanna, sem auðið er að ná — fullkomnu jafnrétti verður aldrei náð —, bæði kröfurnar um áhrif á þing og stjórn og kröfurnar um jafnari efnalega aðstöðu, eru voldugar og munu sigra að lokum, þó að baráttan verði löng og sé hvergi lokið. Það er þetta, sem er uppistaðan í allri stjórnmálabaráttu, og verður þó að sætta sig við, að allt verði ekki í einni svipan.

Núv. kjördæmaskipun og þingskipun er ekki eftir neinni einni meginreglu, sem unnt sé að standa á og víkja hvergi frá. Þingkjör og þingskipting er nú með þeim hætti, að það hefir enginn flokkur ástæðu til að vera ánægður með það, sem er. Kosningaskipulagið er nú sambland af kjördæmakosningum og hlutfallskosningum. Hvorugt fyrirkomulagið er hreint, heldur blandað saman með undarlegum hætti, og var ekki þrauthugsað í byrjun. Hlutfallskosningar eru í Reykjavík. En það, sem skiptir þó mestu máli um þann vanda, sem við erum rataðir í, eru hlutfallskosningar í landskjöri, þar sem landið er eitt kjördæmi. Út af fyrir sig þurfti landskjörið ekki að valda svo miklum vandkvæðum, ef ekki bættist þar við, að hinir landskjörnu þm. eiga allir sæti í Ed. og skipa 6 af þingsætam deildarinnar. Það eru hlutfallskosningar landsins alls sem eins kjördæmis, sem ráða úrslitum um gang mála í Ed. Núv. ástand er því það, að hlutfallskosningar eru eins áhrifarikar um úrslit mála og sterkari um alla neitun en kjördæmakosningarnar. Núv. ástand er einnig það, að kjördæmin eru svo misjöfn að stærð, að það eru allt frá 500 upp í 2200 kjósendur í einmenningskjördæmum. En í Reykjavík koma 3 þús. kjósendur á hvern þm. Ástandið er það, að Framsfl., sem hefir 36%o kjósenda í landinu, hefir meiri hl. sameinaðs þings, án þess þó að það komi honum að fullu liði, eins og atburðir síðustu tíma hafa sýnt. Framsfl. mætti gilda það einu, þótt hann hefði nokkuð færri þingsæti. Hans áhrifavald mundi ekki verða minna fyrir það, máske meira, ef hann hefði minni hl. þm. eins og kjósenda. Meiri hl. sá, sem hann hefir nú, dugir til þess eins að hrófla upp stj., en ekki til framgangs neinna mála, nema með liðsstyrk annara flokka.

Það er því ekki úr háum söðli að detta og óhugsandi, að nokkur flokkur geti til langframa haldið dauðahaldi í það skipulag, sem ekki gefur betri aðstöðu. Til þess að fá meiri hl. í báðum deildum þyrfti Framsfl. að ná a. m. k. 28 þingsætum samtals. En þó að þm. yrði jafnvel fjölgað upp í 50, eins og gert er ráð fyrir að þm. geti orðið flestir í stjórnarfrv., þá þyrfti enginn flokkur nema 26 þingsæti til þess að fá öruggan meiri hl. í báðum d.

Þessi ójöfnuður um kjördæmaskipun hefir að vísu lengi átt sér stað og verið lagfært með smábótum öðruhverju. En þó gætti þess ekki eins meðan utanríkismálin skiptu þjóðinni í tvo meginflokka. Þá jafnaðist þetta nokkuð á annan hátt, svo að aldrei varð mikil háreysti um þetta mál. En hitt mátti vita, að þegar samningar voru gerðir við Dani 1918 og utanríkismálin ekki skiptu þjóðinni lengur í flokka, þá mundi færast í aukana sá ójöfnuður, sem í sjálfu skipulaginu felst. Þegar nú er svo komið, að flokkaskiptingin er mest með tilliti til atvinnuvega og hagsmuna í sambandi við atvinnu manna og lífskjör, þá er bersýnilegt, að ekki getur til lengdar staðið óbreytt núv. kjördæma- og þingskipun.

Ég skal játa, að þetta frv. er ekki samið á þann veg, sem verið hefði, ef einhverjir stjórnspekingar hefðu sezt niður til þess að gera till. um hið fullkomna skipulag og ekki þurft að taka landfræðileg, söguleg eða stjórnmálaleg tillit. Það skal ég játa, að í frv. er ekki gengið eftir einni þráðbeinni götu. Frv. er samkomulagstilraun, og í því liggur það, að reynt er að taka hin nauðsynlegustu tillit, sem bæði viðureign síðustu ára og þróun kjördæmaskipunarinnar hér á landi krafðist. Ég fullyrði ekki, að þetta hafi tekizt í öllum greinum. Það má víkja við og breyta einstökum atriðum, eftir því sem um kann að semjast í þinginu. En ég fullyrði þó, að frv. fer í rétta átt, þá átt, sem „demokratisk“ þróun hefir jafnan gengið bæði hér á landi og annarsstaðar. Það er mikil bót að þeirri skipun, sem stungið er upp á, miðað við það sem nú er.

Það eru einkum þrír möguleikar, sem til greina hafa komið um breytingu á kjördæmaskipun hér á landi. Einn er sá, að landið verði eitt kjördæmi, eins og frv. er borið fram um í hv. efri deild. Framsóknarfl. hefir jafnan staðið á móti þessari skipun, enda hefir hún marga galla. Það er víst, að slík skipun mundi draga úr áhrifum almennings og auka fárra manna vald innan flokka. Fáeinir menn innan aðalflokkanna yrðu einráðir og íhlutun einstaklinga yfirleitt, og þá sérstaklega þeirra, sem í strjálbýli búa, yrði stórum minni en nú er með kjördæmakosningum.

Flokkaskipun á að vísu fullan rétt á sér, eins og viðurkennt er í frv. Enda er raunin sú, nú við landskjörið og þær hlutfallskosningar, sem eiga sér stað, að það er fyllilega viðurkenndur réttur flokkanna. En flokkarnir eiga ekki að þroskast skefjalaust. Það er nauðsynlegt að setja flokksviðureigninni viss takmörk, og ein af þeim takmörkunum er að láta almenning í smákjördæmum ráða mestu um það, hverjir skipa þingflokkana. Þetta fyrirkomulag mundi ekki taka nægilegt tillit til einstakra héraða, hagsmuna þeirra og allrar aðstöðu í þjóðfélaginu. Þekking kjósenda á þm. og viðkynning mundi verða af skornum skammti. Einmenningskjördæmi eru ein höfuðtrygging þess, að jafnan séu valdir til þingstarfa menn, sem hafa aflað sér trausts og þekkingar á því, sem starfi þeirra viðkemur.

Önnur aðferðin, sem haldið hefir verið fram, að hafa fá kjördæmi og stór með hlutfallskosningum, hefir marga hina sömu ókosti og það, að landið sé eitt kjördæmi. Í öðrum löndum er það eðlilegra að hafa fá kjördæmi og stór og hlutfallskosningu. Þar eru víðast hvar hin náttúrlegu héruð svo mannmörg, að sjálfsagt er, að þau kjósi marga þm., og þá vitanlega með hlutfallskosningu. En hér á landi er það svo, að héruðin eru flest bæði af landfræðilegum og sögulegum ástæðum svo mannfá, að ekki er hægt að kjósa nema einn mann í héraði og flest tvo. Þessi héruð eru búin að fá festu í huga þjóðarinnar. Sýsluskiptingin hefir þróazt um þúsund ár — og það skal sterk rök til að raska þeim grundvelli, ef hægt er að finna aðra leið til jöfnunar á kosningarrétti manna en að raska svo fornum grundvelli. Þessi héruð, sýslufélögin og bæjarfélögin, eru sjálfstæðar fjárhagseiningar og menningareiningar, sem orðnar eru samvanar til starfs. Og það verða ekki búin til með lögum önnur héruð, sem betur séu til þess fallin að vera kjördæmi. Skoðun framsóknarmanna hefir jafnan verið sú, að sjálfsagt sé að varðveita einmenningskjördæmin, og tvímenningskjördæmi, þangað til þeim yrði skipt í einmenningskjördæmi. Þau hafa sögulegan og náttúrlegan rétt á sér, og þau eru viss hemill á flokkabaráttu og allar öfgar. Með þeim hætti er héruðunum tryggast að eiga vísa málaflutningsmenn, sem hafa þekkingu á þörfum og högum héraðanna og sérstakar skyldur, framar en landskjörnir og stórkjördæmakjörnir þm. mundu hafa. Þessum kostum má ekki kasta fyrir borð. Það verður að jafna til með einhverju öðru móti.

Ef hvorug sú leiðin er farin, að gera landið allt að einu kjördæmi eða taka upp stór kjördæmi með hlutfallskosningum, þá eru eftir tveir möguleikar. Annar er sá, að jafna kjördæmin sjálf, og hinn að láta kjördæmin standa óbreytt, en jafna til með uppbótarsætum. Hinn fyrri möguleikinn, að jafna kjördæmin þannig, að þau yrðu áþekk að kjósendafjölda, styðst við ýms sterk rök. En ég hygg, að þótt menn gætu orðið sammála um meginregluna, þá mundi rekast á alla enda og kanta, þegar ganga ætti til samninga um breytingarnar á núverandi kjördæmum, sem hafa allt frá 500 og upp í 2200 kjósendur. Þó er hitt lakara, að nú berjast um völdin í landinu fjórir flokkar, og ekki líkur til, að þeim fækki. Einmenningskjördæmi eru upphaflega miðuð við, að tveir flokkar eigist við. En þegar fleiri flokkar eigast við, vex hættan á misrétti. Í þingræðislöndum á að ríkja meirihl.vald. Það er grundvallarregla alls þingræðis. En vitanlega er einnig nauðsynlegt, að réttur minni hl. sé tryggður með nokkru móti. Þjóðþingin eiga að vera svo skipuð, að þar sitji fulltrúar allra hagsmuna og höfuðstefna. Öll sjónarmið eiga rétt til að tefla fram rökum sínum á þeirri samkomu, sem úrslitum veldur. En þessi réttur minni hlutans, eða smærri flokkanna, verður ekki tryggður með neinu öðru en því, að heimila einhverskonar hlutfallskosningar. Því er sú leið farin í stjfrv. að varðveita núv. kjördæmaskipun svo að kalla óbreytta og jafna til með nokkurskonar landskjöri. Þessa leið hefir stj. valið í sínu frv., og hún hefir að baki sér þær líkur, sem fram komu í viðtölum þingflokka um kjördæmamálið á síðasta þingi. Síðan þetta mál komst í burðarliðinn nú fyrir 2 árum, hefir verið háð hörð viðureign um það, og ekki að árangurslausu. Það er nú skýrara, hvert stefnir um lausn málsins, þó ekki sjáist enn fyrir endann. Hvort stjfrv. verður smiðshöggið í viðureigninni um kjördæmamálið, veit ég ekki; en til þess er ætlazt af stj. hálfu, að það verði grundvöllur samninga, sem til lykta verða leiddir svo fljótt sem auðið er. Ég veit það með vissu, að það dregst aldrei mjög lengi, að einhver viðunandi afgreiðsla fáist. Það liggur í sjálfu núv. skipulagi, að lausnarinnar verður ekki langt að bíða. Með því að varðveita núv. kjördæmaskipun óbreytta, og jafna með uppbótarsætum, eru tryggðir allir kostir núv. kjördæmaskipunar. Það er tryggður réttur og aðstaða héraðanna, hin traustustu takmörk sett fárra-manna-veldinu og flokksæsingum sem kostur er á. Á einstökum kjördæmum er sú ein breyting gerð í frv., að bætt er við tveimur þingsætum í Reykjavík. Nú koma 3 þús. kjósendur á hvern Rvíkurþm., en með 6 þm. er Rvík sett á bekk með þeim einmenningskjördæmum, sem hafa flesta kjósendur. Koma þá 2 þús. kjósendur á hvern af 6 þm.

En höfuðbreytingin frá því, sem er, eru uppbótarsætin eða landskjörið, eins og mætti kalla það, sem heimilar allt að 12 þingsæti til jöfnunar milli flokka.

Þessi till. er í fullu samræmi við þróun kjördæmaskipunarinnar og kosningarréttarins hér á landi. Núv. skipulag á upptök sín á þeim tíma, þegar konungsvaldið tryggði aðstöðu sína með því að eiga 6 þm. í Ed. Þegar því valdi lauk. var tekið upp landskjör, sem gat ekki haft aðra skynsamlega þýðingu en þá, að jafna nokkuð með hlutfallskosningu niðurstöðu kjördæmakosninganna.

Nú er það ekki nema spor, að skipt sé á landskjörinu eins og það nú er og allt að 12 manna landskjöri. Þetta er eðlileg þróun, og miðar alltaf í hinu sömu átt, að jafna áhrifavald kjósendanna í landinu á stjórn og þing. Þessi stefna er sem þungur, ómótstæðilegur straumur, og fellur ætíð í hina sömu átt, í áttina til jafnræðis.

Sú skipun er að vísu gerð, að uppbótarsætin skuli með nokkrum hætti skiptast niður á héruð utan Reykjavíkur. Er það gert til þess að auka áhrif hinna strjálu byggða, sem á ýmsa lund standa höllum fæti gagnvart þéttbýlinu. Það verður ekki um það kvartað, að byggðavaldinu sé gert lágt undir höfði í frv. Ekki verður heldur um það kvartað, að áhrifum bændastéttarinnar á þing og stj. sé af þessu nokkur hætta búin. Áhrif bændastéttarinnar eru tryggð, svo sem bezt má verða, af því að 44 þús. manna vinna að landbúnaði hér á landi, en 15 þús. að fiskveiðum, 7 þús. að iðnaði, önnur 7 þús. að verzlun, og þaðan af færri skipa aðrar stéttir. Það er þessi staðreynd, sem tryggir bezt og réttlátast vald bændanna í landinu. Valdi og áhrifum bændastéttarinnar er sízt hætta búin, ef tekið er upp það skipulag, að strjálbýlið sé með vissum hætti látið njóta þeirra uppbótarsæta, sem upp verða tekin. Það er full ástæða til að benda á þetta, því að öllum má vera annt um stjórnmálaáhrif bænda og þeirra, sem landbúnað stunda. Þar er jafnan kjölfesta hvers þjóðfélags. Öll aðstaða þeirra, sem landbúnað stunda, í lífinu, elja þeirra og atorka, erfið lífsbarátta og jöfn afkoma, þegar ekki ber út af, menning þeirra og dómgreind er hin sterkasta stoð hvers þjóðfélags. Það er gleðiefni, að aðstaða bænda skuli af eðlilegum og réttlátum ástæðum verða fulltryggð í þjóðfélaginu. Vitanlega á hvorki vald þeirra né neinna annara stétta að byggjast á sérréttindum. Öll sérréttindi hafa koll af kolli dottið úr sögunni í baráttunni fyrir auknu jafnræði. Bændastéttin, sagði ég, er kjölfesta hvers þjóðfélags. Hún mun ætíð fylgja jöfnunarstefnu bæði um auð og völd, og tryggja jafnvægi þjóðfélagsins.

Í frv. er og lagfærð deildaskipting þingsins, þannig að samræmi verði jafnan milli deilda. Það er nú svo ástatt, að vonlaust má heita, að samræmi geti orðið milli deilda án skipulagsbreytingar. Í flestum löndum hefði slík barátta sem hér hefir átt sér stað, snúizt upp í baráttu gegn efri deild þingsins. Hér fer á annan veg, einmitt vegna þess, að efri deild er sannari mynd þjóðarviljans heldur en neðri deild. En hversu heitt sem sumir kunna að óska eftir breyt. á deildaskipuninni, svo að störf deildanna eða þingsins þurfi ekki að lenda í öngþveiti, þá er hitt jafnvíst, að sú breyt. fæst ekki fyrr en um leið og gerð er breyt. á kjördæmaskipuninni eitthvað í þá átt, sem hér er um að ræða. Ég hefi gert ráð fyrir, að deildaskipting verði þannig, að sameinað þing kjósi efri deild, og er það fyrirkomulag raunar harla nærri hinu, að hafa einungis eina málstofu. En ég býst við, að deildaskiptingin sitji nokkuð fast í hugum manna, og hefi því lagt til, að aðeins fjárlög og fjáraukalög verði rædd í Sþ. Að því má verða tvöfaldur sparnaður. Þingtími sparast svo um munar. — Einnig sparast á fjárveitingum, því að það verður ekki komið fram eins mörgum vafasömum till. meðal 42 þm. eins og kannske í 14 manna deild. Þeir, sem því gera sér áhyggjur út af nokkurri þingmannafjölgun, ættu fyllilega að geta huggað sig við þessa breyt., sem felur í sér margfaldan sparnað á við kostnað af nokkrum nýjum þm.

Um kosningarrétt til Alþingis eru sömu ákvæði og í eldri frv. og samkomulag virðist hafa náðst um meðal allra flokka, þau ákvæði, að fella niður réttindamissi vegna sveitarskulda og kosningarréttur er færður niður í 21 ár.

Ég hefi ekkert fullyrt um óskeikulleik þessa frv. Frv. er málamiðlun, og það má vitanlega breyta einstökum atriðum, ef um semst. En ég hygg, að í höfuðdráttum séu tekin réttmæt tillit í allar áttir. Ég get þó nefnt eina breyt., sem ég hefði gjarnan viljað taka upp, en hefi þó sleppt til þess að fjölga ekki ágreiningsatriðum, en það er ákvæði um þjóðaratkvæði, sem skylt væri að hafa eftir föstum reglum. Ég fæ ekki betur séð en að slík ákvæði tryggðu hvað bezt, að meiri hl. þjóðarinnar fái að ráða í hinum stærstu málum.

Undirstöðuatriði stjfrv. eru bæði hinar landfræðilegu ástæður og héraðaskipting, söguleg þróun kjördæmaskipunar og kosningarréttar og megindrættirnir úr viðureign hinna síðustu tveggja ára um þetta mál. Þróunin hefir jafnan gengið í jöfnunarátt. Frá því að byrjað var að skipta veldissprota kosninganna upp á milli þegnanna, þá hefir jafnan stefnt í þessa átt, og mun ekki linna fyrr en að fullu eru jöfnuð áhrif þegnanna. Þegnarnir hafa smátt og smátt verið afklæddir öllum mannamun. Réttinn til íhlutunar eiga nú allir jafnt, án tillits til ýmsra eldri takmarkana. Ætterni skiptir nú engu máli, eins og þó var lengi vel. Trúarbrögð ekki heldur. Jafnvel ekki auðurinn, sem öflugastar skorður setti um langt skeið. Kynferðismunur er ekki gerður lengur, þegar um kosningarrétt er að ræða. Allt hefir þetta verið jafnað fyrir langa baráttu frjálslyndra manna. Fastast var staðið á móti því að sleppa öllum eigna- og skattskilyrðum fyrir kosningarrétti, og voru þau ekki felld niður hér á landi fyrr en á þessari öld. Um slíka hluti höfðu Rockdale-vefararnir, frumherjar samvinnumanna, forustuna. Í þeirra félagi, þótt fjárhagslegt félag væri, voru allir gerðir jafnir, löngu áður en slíkt jafnræði sigraði í stjórnmálunum, hvað þá heldur í fjármálunum, eins og t. d. hlutafélögum og öðru slíku skipulagi verzlunar- og atvinnumálanna. Einstaklingarnir eiga að hafa jafna aðstöðu til að ráða og sá munur einn að eiga sér stað, sem manngildið veldur. Það er manngildið og málstaðurinn, sem á að skapa meiri hlutann. Hans hátign þjóðarviljinn er hinn eini trausti grundvöllur undir nútímaþjóðskipulagi.

Um þetta allt er ég í fullu samræmi við yfirlýstan vilja þess flokks, sem ég vinn fyrir, þó að vera kunni, að flokksmenn vilji gera á aðra skipun um einstök atriði. Ég er í fullu samræmi við grundvallarreglu fulltrúa Framsfl. í kjördæmanefndinni, sem vildu gera rétt kjósendanna um áhrif á Alþingi sem jafnastan og tryggja rétt hinna gömlu kjördæma til fulltrúavals. Ég er og í fullu samræmi við allan anda framsóknarinnar á öllum tímum.

Að lokum vek ég athygli á því, að þetta þing hefir óvenjulega möguleika til að valda jöfnun meðal þegnanna, bæði um atkvæðisrétt og eins um lífskjör og aðstöðu, einmitt á þessum krepputímum, þegar heilar stéttir stynja undir okinu. Að vísu verður aldrei komið á fullum jöfnuði. En viðleitni í þá átt að jafna áhrif manna og aðstöðu í lífinu er alveg sérstaklega viðfangsefni þessa þings. Það er ekkert eitt mál til, sem heiti „réttlætismálið“, aðskilið frá öllum öðrum málum. Réttlætið er það fjörefni, sem gefur öllum þeim málum, sem eiga framtíð fyrir sér, sinn kraft. Og sá einn getur talizt berjast hinni góðu baráttu, sem þekkir réttlætið í öllum þess myndum. Möguleikar þessa þings eru miklir. Ef þingið sinnir þeim kröfum, sem nú sækja á, þá getur það orðið eitt hið merkasta þing, sem háð hefir verið um langt skeið. En þetta verður hvorki fyrir hótanir né harða viðureign, heldur því aðeins, að réttlætið dragi hv. þm. til sín með segulafli og hugir þeirra þiðni við þess heilaga eld.