08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (4469)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Héðinn Valdimarsson:

Mér skildist svo á ræðu hæstv. forsrh., að stjórnin væri samhuga í þessu máli; og ef tekið er tillit til ræðu formanns Sjálfstfl. um stjórnarmyndunina í fyrra, verður að álíta, að stj. beri sameiginlega ábyrgð á þessu frv. og að ráðherrarnir komi þar ekki fram hver fyrir sinn flokk. Væri æskilegt að fá fullvissu um það. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., og reyndar allrar stjórnarinnar, hvort hún hefir undirbúið málið þannig, að tryggt sé, að meiri hl. þingsins fylgi frv. í aðalatriðum, þannig að það nái fram að ganga á þessu þingi. Það virtist koma greinilega í ljós í ræðu hæstv. forsrh. í þinglok í fyrra, og einnig nú í framsöguræðu hans, að hann leggur mikla áherzlu á þetta mál, og má því fullkomlega vænta þess, að hann hafi nú borið það undir sinn flokk, eftir að frv. kom fram, þó að það væri eigi áður gert, þannig að hann hlýtur nú að hafa fullkomna vissu um afstöðu síns flokks gagnvart þessu frv.

Í öðru lagi vildi ég varpa þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort stjórnin muni segja af sér, ef frv. þetta nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Eða m. ö. o., hvort stjórnin muni meta þetta mál jafnmikils eins og t. d. norsku samningana; en hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að stjórnin mundi segja af sér, ef þeir yrðu ekki samþ. — Eða er það rétt, sem haft er eftir einum þm. úr Framsfl. í Ed. nýlega, við umr. um stjskrfrv. Alþfl., að það hefði aldrei verið meining stj. að gera meira í málinu á þessu þingi heldur en að flytja þetta frv.? Með því væri forsrh. búinn að efna sitt loforð. Hefir hæstv. stj. flutt þetta frv. til málamynda og aðeins til að sýnast? Og ætlar hún ekki að fylgja því fram með oddi og egg á þessu þingi? Það væri mjög æskilegt að fá skýr svör við því.