08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (4472)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það má vel vera, að það leiði til stjórnarskipta, ef þetta mál fær ekki afgreiðslu á þessu þingi. Um það skal ég engu spá að svo stöddu. Á síðasta þingi varð kjördæmamálið til þess, að Sjálfstfl. lagði til mann í stjórnina. Ef sama málið yrði svo hinsvegar til þess nú, að flokkurinn tæki sinn ráðh. aftur úr stj., eftir að hún hefir lagt fram frv. til stjórnskipunarlaga, sem flokkurinn virðist sætta sig við, þá má vissulega segja, að áþekkar orsakir geti haft ólíkar afleiðingar. Ég hefi sagt rétt frá um myndun samsteypustj. og hefi ekki neitað því, að margir þm. muni hafa gert sér vonir um fullnaðarlausn kjördæmamálsins á þessu þingi. Það má vel vera, að réttast sé fyrir þá hv. þm. að svipta stj. þeim stuðningi eða hlutleysi, sem þeir hafa veitt henni til þessa, ef frv. nær ekki fram að ganga. Hitt sagði ég einnig, að allar samkomulagstilraunir á milli flokkanna í þessu máli hefðu strandað á síðasta þingi. En með þessu frv. tel ég stjórnina hafa uppfyllt þær vonir, sem myndun samsteypustj. gaf tilefni til. Ég hafði ekkert umboð frá Framsfl. til þess að bera fram frv. í stjórnarskrármálinu, heldur gerði ég það sem þm. og forsrh., með fullu samkomulagi við meðstjórnendur mína. Okkur er það ljóst, að þetta mál getur orðið örlagaríkt fyrir stj., en vitanlega tökum við því með jafnaðargeði, hverjar sem afleiðingarnar verða.

Hv. 2. þm. Reykv. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort stj. mundi segja af sér, ef þetta frv. hennar næði ekki fram að ganga. Mun ég að svo stöddu engu svara þar um. En það er ósk mín og von, að málið verði útkljáð á þessu þingi. En þó svo vel tækist ekki til, þá gæti hugsazt, að málinu væri bezt borgið í höndum núverandi stj. á næsta þingi hér eftir. Og liti stj. svo á, þá mundi hún vitanlega halda áfram störfum, ef hún nyti til þess trausts meiri hl. þings. Hinni spurningunni, sem hv. 2. þm. Reykv. beindi til mín, um það, hvort stj. hefði tryggt sér framgang þessa máls, hefi ég áður svarað. Um framgang málsins er enn allt í óvissu, en hitt er víst, að stj. mun vinna eftir föngum að lausn málsins.