08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (4473)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Héðinn Valdimarsson:

Það er ekki hægt að segja, að svör hæstv. forsrh. við fyrirspurnum mínum væru skýr eða ákveðin. En helzt skildist mér þó, að stj. mundi ekki gera þetta mál að kabinetspursmáli. Mér skildist einnig, að hæstv. forsrh. mundi ekki ætla að krefjast þess af flokksmönnum sínum, að þeir framfylgi þessu máli; hann virðist ekki ætla að leggja ráðherrastöðu sína eða meðstjórnenda sinna að veði fyrir þetta mál. Og þá er mér enn spurn: Á hvern hátt kemur það í ljós, að hæstv. ráðh. hafi áhuga fyrir málinu, ef hann ætlar ekkert að leggja í sölurnar fyrir það? Hæstv. forsrh. hefir í ræðu sinni komið fram með þá kenningu, að það gæti orðið að mestu gagni fyrir málið, ef það næði ekki samþykki á þessu þingi, en yrði að bíða til næsta þings. Þetta gefur mér fullkomið tilefni til að leggja trúnað á það, sem almennt er talið, að hæstv. ráðh. ætli að láta samsteypustj. lifa á þessu máli ár eftir ár. Hæstv. ráðh. túlkar það við hvert tækifæri, að samsteypustj. sé nauðsynleg til að leysa þetta mál, en að líkindum þurfi hún til þess langan tíma. En þar sem stjórnarskrár- og kjördæmamálið er svo mikið alvörumál alls þorra kjósenda í landinu, þá virðist svo, sem stjórnin og stuðningsmenn hennar í þinginu séu bókstaflega að gera það að blekkingamáli.