08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2740 í B-deild Alþingistíðinda. (4477)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það hefir komið fyrir ekki svo sjaldan nú upp á síðkastið, að hv. jafnaðarmenn hér í d. hafa borið fram ýmsar fyrirspurnir til hinna flokkanna, sérstaklega Sjálfstfl., um það, hvað þeir ætli fyrir sér í framtíðinni í þessu og þessu máli. Ég veit ekki, hvaða rétt þeir hafa til að vilja hnýsast þannig í innanflokksmál og einkamál andstöðuflokka sinna. Mér dettur ekki í hug að svara neinu um það, hvaða ákvarðanir minn flokkur muni taka í framtíðinni eða hvað hann ætlar fyrir sér í einstökum atriðum.

En til þess að gjalda í sömu mynt, ætla ég að spyrja hv. jafnaðarmenn, hvaða afstöðu þeirra flokkur ætlar að taka til þess frv., sem hér liggur fyrir. Hv. 2. þm. Reykv. sagði ekkert um það, þó hann virtist tala hér sem frsm. síns flokks. Hann viðurkenndi, að frv. væri til einhverra bóta, en mér skildist á honum, að viðhorf jafnaðarmanna til þess mundi fara eftir því, hvað fram kæmi við gang málsins í þinginu. Þetta er ekki skýrt svar af þeirra hálfu, og meðan þeir sjálfir gera ekki nánari grein fyrir afstöðu sinni, er bezt fyrir þá að vera ekki sífellt að spyrjast fyrir um innanflokksmál hinna flokkanna.

Hæstv. forsrh. er búinn að skýra frá, hvernig þetta frv. er til komið, að það er samkomulagsgrundvöllur, sem við í stj. leggjum fyrir Alþingi. Við óskum auðvitað eftir, að það nái samþykki; um slíkt þarf ekki að spyrja. Hinsvegar getum við vitanlega ekki heimtað, að frv. verði samþ. breytingalaust. Ég er viss um, að eins og frv. liggur fyrir er það til mikilla bóta frá því fyrirkomulagi, sem nú gildir. En það leiðir af sjálfu sér, þar sem frv. er byggt á samkomulagi milli ráðherranna, að enginn okkar hefir getað heimtað það fyllsta, sem hann hefði viljað. Ef starfa á saman, verða allir að sveigja nokkuð til samkomulags, og það hefir verið gert hér.