08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (4480)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi svarað fyrirspurn hv. jafnaðarmanna áður, og hirði eigi um að endurtaka svarið.

Ég var vitanlega feginn þeim möguleikum, sem fram virtust koma í ræðu hv. þm. Seyðf. um, að hann gæti fylgt þessu frv. Það er, eins og tekið hefir verið fram, samið af ráðherrunum og lagt fram sem grundvöllur fyrir samningum milli flokkanna. Vona ég, að hv. þm. Seyðf. tryggi því nægilegt fylgi innan síns flokks. Frv. var ekki rætt innan neins flokks áður en það kom fram, og verður afgreiðsla þess háð milliflokkasamningum í þinginu, hver sem niðurstaðan verður. Hv. þm. Seyðf. man eflaust eftir ummælum flokksbróður síns, hv. 2. landsk., í þinglokin í fyrra. Kvað hann þá svo ástatt, að engin trygging væri fyrir framgangi stjórnarskrármálsins á næsta þingi. Hv. þm. þarf því ekki að undrast það svo mjög, þó ekki sé tryggð afgreiðslan nú þegar í þingbyrjun. (HG: Þessu var mótmælt mjög ákveðið).