08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2743 í B-deild Alþingistíðinda. (4482)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ástæðan til þess, að ég spurði, hvort hæstv. forsrh. hefði eigi tryggt frv. atkv. a. m. k. 4 þm. innan síns flokks, var vitanlega sú, að ef hann hefir ekki gert það, þá er það loddaraleikur einn að vera að bera frv. fram, því þó hinir flokkarnir gengju inn á að samþ. frv., væri það gagnslaust. Undir þeim kringumstæðum væri gersamlega þýðingarlaust að bera frv. fram.

Um fyrirætlanir okkar Alþýðuflokksmanna í þá átt að koma hæstv. stj. fyrir kattarnef þarf ég ekki að fjölyrða. Það þarf ekki að leita langt til þess að fá vitneskju um það, að við erum á móti hæstv. stj. Okkar afstaða til hæstv. stj. er sæmilega skýr, en þó hv. þm. G.-K. þykist eiga þar einhver ítök, ætti hann ekki að þurfa að hræðast okkur, sem ekki höfum nema fjórum atkv. yfir að ráða í þinginu.