21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

3. mál, landsreikninga 1931

Frsm. (Hannes Jónsson):

Í framhaldi af því, sem hæstv. forsrh. sagði um reikningshald ríkisins, vil ég taka það fram, út af ummælum hv. 3. þm. Reykv., að það er ekki nokkrum vafa bundið, að sú breyt., sem gerð var á bókhaldi ríkisins, var til stórbóta. Hinu verður heldur ekki neitað, að við þessa stórfelldu breyt. hefir ekki tekizt að koma kerfinu öllu í það lag strax, sem nauðsyn bar til. Einstöku atriðum innan bókhaldsins er þannig háttað, að það er meira farið eftir teórium, en minna eftir praksis en æskilegt væri. Þetta er áreiðanlega hægt að leiðrétta, og ég er viss um, að með aðstoð endurskoðenda ríkisins muni þetta takast. En það hefir verið erfitt að fullnægja bókhaldinu að öllu leyti, enda hefir það ekki tekizt. Frágangurinn er, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, alls ekki í því lagi, að sæmilegt sé fyrir ríkið. En um þá aths., sem yfirskoðunarmenn gerðu viðvíkjandi þessu atriði, þýðir ekki að fjölyrða hér á þingi. Hún verður tekin til greina af þeim, sem bókhaldið hafa með höndum, og meining yfirskoðunarmanna með því að gera þessa aths. var að gefa því meiri áherzlu, að úr þessu yrði bætt. Það er fyrirkomulagsatriði, sem hv. 3. þm. Reykv. benti á viðvíkjandi þeim misfellum, sem orðið hafa á færslu hjá ríkisbókhaldinu, um niðurfall á nokkrum útgjaldaliðum. Þetta stafar af því, að bókararnir hafa ekki að öllu leyti haft tök á því formi, sem þeim var fengið í hendur. Það var ekki eins þægilegt í meðferð og æskilegt hefði verið. Í þessu tilfelli munu villurnar hafa komið fram við það, að það kontrol var ekki rétt notað, sem var í bókhaldinu sjálfu. Annars hafa ekki komið fram villur, sem ekki hafa verið leiðréttar. Ég vil taka þetta fram, til þess að menn fari ekki að standa í þeirri meiningu, að breyt. á bókhaldinu hafi verið til hins verra. Ég fullyrði, að hún sé til bóta, þótt hún sé enn ekki komin í það horf, sem hún þarf að komast. Og það, sem ég hefi nú séð af færslu ríkisbókhaldsins síðan, lízt mér mjög vel á. Ég hygg, að nú sé sneitt hjá þeim skerjum, sem steytt hefir verið á fram að þessu. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að deila út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. ræddi um.