16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (4496)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 2, minni hl. (Magnús Jónsson):

Hæstv. forsrh. sagði, að aðaltilgangur sinn með því að flytja þetta frv. til breyt. á stjskr. hefði verið sá, að koma algerlega í veg fyrir flokkslegt óréttlæti við niðurstöðu kosninga til Alþingis, þannig að stjórnmálaflokkur, sem fengið hefir minni hl. atkv. við almennar kosningar, gæti ekki fengið meiri hl. kosinna þm., og að stjskrfrv. hans væri millivegur eða miðlun, þar sem komið væri á móti þeim kröfum, sem við sjálfst.menn höfum borið fram í málinu, og hinsvegar gengið svo langt frá sinni hlið sem hann vildi veita þeim kröfum framgang. Ég get nú ekki séð, að stjskrfrv. gefi tryggingu fyrir þessu flokkslega réttlæti, þó að ákveðin verði 12 uppbótarþingsæti. Það eru ekki í frv. reistar nægilegar skorður við því, að minni hl. kjósenda geti hlotið meiri hl. þingsæta. Þess ber að gæta, að áður en uppbótarsætin koma til greina er búið að kjósa mikinn meiri hl. þingmanna í sérstökum kjördæmum. Hlutföllin í kjördæmunum þurfa ekki mikið að raskast til þess, að sá möguleiki sé fyrir hendi, að minni hl. kjósenda fái meiri hl. þingsæta, þó að uppbótarsætin verði 12. Megingallanum á hinu úrelta kjördæmaskipulagi er haldið óbreyttum samkv. þessu frv., og það fæst ekki einu sinni mildað úr honum með því að viðhafa hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, sem þó mundi oftast draga nokkuð úr misræminu. Og ekki nóg með það. Nú er enn komin fram brtt. frá meiri hl. stjskrn. um að fækka uppbótarsætum um 2, eða úr 12 niður í 10, og þá minnkar stórum möguleikinn fyrir því að jafna á milli flokka. Þess vegna er ég undrandi yfir því, að hæstv. forsrh., sem flutti frv. og miðaði fingrinum á þessa tölu, 12 uppbótarþingsæti, sem það minnsta, er andstöðuflokkar Framsfl. gætu sætt sig við, skuli nú geta látið sér nægja að leiða þetta mál í höfn samkv. þeirri brtt. meiri hl. n. að fækka þm. úr 50 í frv. niður í 48.

Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, þá er þetta stjfrv. gott sem samningsgrundvöllur, og með því meina ég, að frv. sé leið til þess að miðla málum á milli flokka. En hinsvegar eru á því ýmsir gallar, sem þyrfti að lagfæra í þá átt, sem brtt. okkar benda til, og teldi ég mjög vel farið, ef þær yrðu samþ. Ef breyt. verða gerðar á frv. frá því, sem það nú er, í þá átt að draga úr því litla, sem í því felst til tryggingar réttum hlutföllum á milli kjósendafjölda flokkanna og fulltrúatölu þeirra á Alþingi, þá vil ég játa í ljós fullkominn efa um það, að málið komist í höfn á þessu þingi. Og ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti, en ekki fyrir hönd annara flokksmanna minna, að ég greiði alls ekki atkv. með frv., þegar búið væri að breyta því í þá átt, sem brtt. hv. meiri hl. n. bendir til. Ég kýs þá miklu heldur að halda þófinu áfram eitthvað lengur og fá þetta mál afgr. síðar í skárra formi, heldur en að samþ. nú slíkt vansmíði, sem flestir vita fyrirfram, að er hreint og beint hrófatildur til bráðabirgða; enda mun reynslan sýna það og sanna. — Ég veit ekki, hvað hv. frsm. meiri hl. hefir fyrir sér, þegar hann fullyrðir, að 10 uppbótarsæti séu nóg til þess að jafna hlutföllin á milli flokkanna. Við hvað miðar hv. þm.? Ég veit það ekki; nema hann hafi svo örugga vissu um, að Framsfl., sem nú er sterkastur í þinginu, sé í afturför og muni því fá færri þingsæti við næstu kosningar. En undanfarnar kosningar sýna það ljóslega, að 12 uppbótarþingsæti eru ekki nóg til jöfnunar, og því síður 10. (BJ: Aðeins kosningarnar 1931). Hv. frsm. er máske þeirrar skoðunar og finnst það eðlilegt, að Framsfl. hafi einhvern heilagan rétt til þess að eiga hlutfallslega fleiri fulltrúa á þingi en aðrir flokkar. Hann getur tæplega slegið þessu föstu út frá öðru sjónarmiði. Þá sagði hv. frsm. í hinum sögulega inngangi ræðu sinnar, að Sjálfstfl. hefði í fyrstu viljað skipta landinu niður í fá allstór hlutfallskosningakjördæmi, en horfið aftur frá því síðar og þá ákveðið að halda núv. kjördæmum óbreyttum. En þetta er alls ekki rétt skýrsla hjá hv. frsm. Ég veit ekki til, að fulltrúar Sjálfstfl. í mþn. í kjördæmaanálinu hafi borið fram neinar till. í þá átt. Það var borið út í Tímanum, að Sjálfstfl. vildi þessa tilhögun, og þetta var endurtekið víðsvegar á fundum úti um land. Þá var sagt, að Sjálfstfl. vildi afnema kjördæmin og ætlaði að gera það. En þetta var blátt áfram ósatt; flokkurinn sem slíkur hefir aldrei haft þá skoðun. Og heildarstefna flokksins í þessu efni kom ekki fram fyrr en í nál. fulltrúa hans í kjördæmanefndinni. Hitt er annað mál, að einstakir menn í Sjálfstfl. hafa verið þeirrar skoðunar og talið það heppilegri lausn, að landinu væri skipt í fá og stór kjördæmi. En frá því að nál. kjördæman. kom út hefir ekki verið frá því hvikað í þessu atriði. Annars væri það eðlilegast að taka ekkert fram um þetta í sjálfri stjskr., heldur marka þar aðeins meginreglurnar fyrir kosningunum, eins og t. d. þá, að stjórnmálaflokkarnir fái þingfulltrúa í réttu hlutfalli við atkvæðafjölda kjósenda, sem þeim voru greidd í kosningunum, en tiltaka ekkert um, hvernig þessu takmarki skuli náð.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að fullkomnu réttlæti í þessum efnum yrði bezt náð á þann hátt, að kjördæmin væru öll nákvæmlega jafnfjölmenn og hvert þeirra fengi að kjósa einn þm. (BJ: Ég átti við réttlæti á milli kjósenda). Það hefir frá upphafi verið talað um tvennskonar réttlæti í kosningamálunum: Staðarlegt réttlæti, þannig að kjósendur hefðu jafnan atkvæðisrétt, hvar sem þeir væru á landinu, — og það er rétt hjá hv. þm., að því kann að vera náð með þessu, sem hann benti á. En hinu réttlætinu, jafnvæginu á milli stjórnmálaflokkanna, sem hv. þm. benti á, því verður ekki náð á þennan hátt.

Stjórnmálaflokkur, sem fær mikinn minni hl. af atkv. kjósenda, getur skilað inn í þingið ríflegum meiri hl. þm. Það er því aðeins önnur hliðin á fullkomnum kosningarrétti, sem náð verður með þessu móti, sá þátturinn, sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt miklu minni áherzlu á.

Ég þarf ekki að segja margt út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég get vel unnað hv. þm. þess, að láta svo sem Alþfl. hafi einn barizt fyrir þessu réttlætismáli, eins og öðrum góðum málum. Það er alltaf orðin föst regla hjá þm. Alþfl., ef eitthvert nytjamál er flutt á Alþingi, þá fletta þeir upp í sínum gömlu bókum og rifja upp margra ára gömul stefnuskráratriði síns flokks og segjast svo hafa orðið fyrstir til að hreyfa málinu, enda þótt þeir hafi engan fulltrúa átt á Alþingi fyrr en 1921. Hv. Alþfl.þm. er velkomið að halda því fram, að þeir hafi átt frumkvæðið að öllum nytjamálum, sem fram eru borin á síðari árum. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að Sjálfstfl. hefði lengi verið á móti þessum breyt. á kjördæma- og kosningaskipuninni. Þetta er bara algerlega ósatt. En hitt er annað mál, að flokkurinn vildi ekki fara að káfa í málið fyrr en hann var þess albúinn að skilja ekki við það, fyrr en sigur væri fenginn. Lítill stjórnmálaflokkur gat miklu frekar glamrað um málið fram og aftur og flaggað því fyrir kjósendum. Hann hafði svo litlu fyrir að fara. En fyrir stóran stjórnmálaflokk, sem á kjósendur í öllum stéttum og öllum héruðum og á mikið í húfi, er allt öðru máli að gegna. Þess vegna var rétt af honum að hreyfa ekki málinu fyrr en hann hafði sterkar líkur fyrir að koma því í framkvæmd. (HV: Hvers vegna flutti Sjálfstfl. ekki þetta mál, þegar hann var í meiri hl. og fór með stj. landsins?). Af því að máli þessu er aldrei hægt að ljúka nema ganga til kosninga um það.

Hv. 1. þm. N.-M. taldi, að brtt. hans og hv. þm. V.-Sk. væru miðlunartill. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. eigi við það, að brtt. séu miðlun á milli þess skipulags, sem nú er, og stjórnarfrv. Hann velur endapunktana þannig, að miðlunartill. þeirra félaga verða langt fyrir neðan alla sanngirni. Hv. þm. verður að láta sér skiljast það, að stjfrv. sjálft er miðlunartill. Þess vegna er ekki rétt að setja það sem endapunkt í þessu máli öðrumegin, og segja svo, að brtt. hans, sem ganga miklu skemmra en frv., séu miðlunartill. Þá gætu aðrir hv. þm. með eins miklum rétti tekið upp þessar miðlunartill. hv. þm. og kallað það endapunkta í málinu annarsvegar.

Þá talaði hv. 1. þm. N.-M. um flokkshyggju, og átti það víst að vera nýyrði um þá menn, sem hugsa og starfa í flokkum. Og var hann mikið að velta því fyrir sér, hvort þessi flokkshyggja væri skaðleg eða ekki fyrir þjóðfélagið. En ég held, að það sé heppilegast að halda sér við raunveruleikann í þessu efni. Hjá öllum menningarþjóðum víðsvegar um heim er starfað og barizt í stjórnmálaflokkum, og hefir því enga þýðingu að vera hér að tala um það stjórnmálaskipulag sem nokkurskonar villutrú. En það, sem þá skiptir mestu máli, er, að stjórnmálaflokkarnir hafi hlutfallslega jafna atkvæðatölu á þingunum, miðað við kjósendafjölda þeirra.

Mér fannst hv. 1. þm. S.-M. ekki hafa áttað sig á mismuninum á uppbótarsætum til flokkanna og hinsvegar hlutfallskosningum um allt land. Það getur vel verið, að hv. þm. hafi það rétt eftir mér, að hlutfallskosningar séu eðlilegasta fyrirkomulagið þar, sem kjósa á fleiri en einn þm., t. d. í kjördæmum. En hann hefir það ekki eftir mér, að uppbótarþingmenn, sem eiga að jafna aðstöðuna á milli flokkanna, skuli kosnir með hlutfallskosningum um land allt. — Sá stjórnmálaflokkur, sem við kjördæmakosningar fær 10 þingsæti fram yfir það, sem kjósendafjöldi flokksins í heild bendir til, samanhorið við atkv. annara flokka, hann getur einnig fengið þingsæti við landskjör eftir hlutfallskosningum þar á ofan, í stað þess sem hann ætti ekkert að fá samkv. uppbótarsætaskipuninni. Tilgangurinn með uppbótarsætum er að bæta flokkunum upp misræmið eftir kjördæmakosningarnar. Á þessari tvennskonar kosningaskipun er mjög greinilegur mismunur. Till. hv. 1. þm. S.-M. gera því ekkert annað en draga úr því, að fullnægt verði flokkslegu réttlæti til jöfnunar eftir kjördæmakjörið. Þær horfa til enn meiri skemmda á stjfrv. en brtt. hv. meiri hl. n.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni. En út af tilmælum hæstv. forsrh. til okkar í minni hl., um að við tökum aftur til 3. umr. brtt. okkar um skipun uppbótarsæta, get ég látið það í ljós, að hv. meðflm. minn telur sig geta orðið við því, í samræmi við það, sem hv. 1. minni hl. hefir nú gert. Ég get því líka látið mig það einu gilda, og tek þá brtt. hér með aftur til 3. umr., til þess að leitað verði samkomulags um það í n.