16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (4499)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl., (Bergur Jónsson):

Ég hefi lítið tilefni fengið til andsvara í ræðum hv. þdm. Í fyrri ræðu sinni gerði hv. frsm. 2. minni hl. svo að segja engar aths. við það, sem ég hafði sagt. En nú í síðari ræðu sinni gaf hann mér aftur nokkurt tilefni. Ég gaf í framsöguræðu minni dálítið yfirlit um afstöðu okkar Framsfl.manna í kjördæmamálinu til annara flokka. Nú vill hv. 3. þm. Reykv. neita því, að ég hafi farið þar rétt með. Sérstaklega vill hann mótmæla því, að Sjálfstfl. hafi nokkurntíma lýst sig fylgjandi því, að landinu væri skipt í fá en stór kjördæmi, þar sem hlutfallskosningar færu fram. Ég get ekki skilið, hvers vegna þessi hv. þm. og Sjálfstfl.menn yfirleitt vilja ekki kannast við þetta og eru alltaf að neita þessari staðreynd. Greinilegast kemur þetta fram á þinginu 1931. Og Sjálfstfl. hefir alltaf haldið því fram, að það næði ekki nokkurri átt að hafa bann við því í stjskr., að hlutfallskosningar megi fara fram í kjördæmum utan Reykjavíkur; en í stjskr. er það gert. Enda er þar aðeins gert ráð fyrir einmennings- og tvímenningskjördæmum í landinu utan Rvíkur. Nú er það vitanlegt, að það er endileysa að ákveða hlutfallskosningar í þeim kjördæmum. En úr því að sjálfst.menn eru alltaf að kvarta undan því ákvæði stjskr., sem bannar hlutfallskosningar í einmennings- og tvímenningskjördæmum, þá sannar það bezt, að þeir vilja fá landinu skipt í nokkur stór kjördæmi. Það vill nú svo vel til, að ég hefi hér fyrir mér í þingtíðindunum ummæli eftir þessum hv. þm. (MJ) sjálfum, þar sem hann heldur því fram fyrir nokkrum árum, að það sé engin ástæða til að hafa hlutfallskosningar í kjördæmum, þar sem kjósa á færri en 3 þingm. Það væri m. a. s. ranglátt og næði alls ekki tilgangi sínum. Og þetta er alveg rétt hjá hv. þm.

Gegn mótmælum hv. 3. þm. Reykv. við því, að Sjálfstfl. væri fylgjandi fáum, stórum kjördæmum með hlutfallskosningum, má ennfremur benda á það, sem kom fram í yfirlýsingu fulltrúa Sjálfst.fl. í mþn. í kjördæmamálinu 1931—1932, þar sem þeir létu þess getið, að þeir myndu aðhyllast sem varatill. þá uppástungu jafnaðarmanna, að landinu, utan Reykjavíkur, yrði skipt í nokkur stór kjördæmi, þar sem hlutfallskosningar væru viðhafðar.

Að lokum má minna á það, sem gerðist á þinginu 1931 og allur landslýður veit um, þegar Sjálfstfl. og Alþfl. gerðu með sér samning og bandalag um að koma þessu kosningaskipulagi í framkvæmd. Sú ákvörðun þeirra leiddi til þingrofsins, eins og kunnugt er. Framsfl. var því eindregið mótfallinn, að hin sérstöku kjördæmi yrðu lögð niður. En hinsvegar hefir hann aldrei mótmælt því, að ýmislegt væri athugavert við kjördæmaskipunina í einstökum atriðum, heldur tjáð sig hlynntan leiðréttingum á þeim.

Framsfl. hefir alltaf mótmælt því, að rétturinn til þess að hafa sérstakan þm. væri tekinn af hinum einstöku kjördæmum. Það er sú eina afstaða, sem Frams.fl. í heild hefir haft frá byrjun í þessu máli. En Sjálfstfl. hefir áreiðanlega verið til með að ganga inn á þá leið að skipta landinu í fá og stór kjördæmi. Í þessu sambandi langar mig til að minna á, að á stjórnmálafundi, sem haldinn var í fyrra vestur á Patreksfirði, lét ég þess getið, að samningar hefðu verið um þetta mál 1931 á milli Sjálfstfl. og Alþfl. Fulltrúi Sjálfstfl. mótmælti því á fundinum, en þar var einnig staddur maður úr sambandsstjórn Alþfl., og hann lýsti því yfir, að ég hefði skýrt rétt frá þessu. Þarna var hann hreinskilnari. Annars skil ég ekkert í því, hvers vegna Sjálfstfl. þarf að skammast sín fyrir að játa þetta. Ég sé ekki, að hann þurfi að fyrirverða sig fyrir það, fyrst það er sögulega rétt.

Þá minntist hv. 3. þm. Reykv. á, að ég hefði verið að tala um útúrsnúning „Morgunbl.“ á nál. meiri hl. stjskrn. Ég gat þess í því sambandi, að jafnrétti kjósenda til kosninga í landinu næðist ekki með öðru móti en því, að kjördæmin væru hnífjöfn; og það er rétt hjá hv. þm., að ég átti við það, sem hann kallar staðarlegt réttlæti, en það er ef til vill þýðingarmest. Ég held, að þegar verið er að ákveða kjördæmaskipunina, þá eigi engu síður að taka tillit til réttar og aðstöðu einstakra kjósenda, mannanna, sem koma að kjörborðunum til að kjósa, heldur en stjórnmálaflokkanna. Flokkarnir eru fremur óstöðugt fyrirbrigði; þeir eru ýmist að vaxa eða sundrast aftur. Allstórir stjórnmálaflokkar geta ef til vill splundrazt á einu kjörtímabili. Er það ábyggilegt, að réttlætið í þessum kosningamálum sé fólgið í því einu að miða fulltrúaval þjóðarinnar við þessa hverfulu flokka? Er það víst, að hið svo kallaða flokkslega réttlæti sé það eina, sem á að taka til greina í þessum efnum? Er hv. 3. þm. Reykv. viss um það? Hvernig horfir fyrir lýðræðinu í Þýzkalandi? Þjóðverjar bjuggu við kosningalög, sem voru algerlega sniðin í samræmi við þetta flokkslega jafnrétti. Nú má telja, að þingræðinu sé þar lokið. Aftur á móti er allt með kyrrum kjörum í Englandi. Þar er þingmannavalið bundið við sérstök kjördæmi að fornu fari, og meira miðað við aðstöðu einstakra kjósenda og héraða en heildaratkvæðatölu stjórnmálaflokkanna við kosningar. Sá grundvöllur virðist vera miklu traustari; hann hefir staðið öldum saman og gerir það enn þann dag í dag. Ég held, að flokkshyggjan, sem hv. 1. þm. N.-M. nefndi svo, geti leitt til ógæfu og ófarnaðar, ef hún er tekin þannig, að kjördæmaskipun og þingmannaval sé miðað við dæguraðstöðu stjórnmálaflokkanna. Það er rétt sagt hjá hv. 3. þm. Reykv., að það er mjög áríðandi fyrir þingið, að þetta kjördæmaskipunarmál fái lausn; en ég álít, að það sé engu síður áríðandi fyrir þingræðið hér á landi, að sú kjördæmaskipun, sem væri komið á, sé ekki eingöngu einskorðuð við aðstöðu flokkanna í landinu. Ég álít, að þegar hún sé ákveðin, þá verði að taka eins mikið og meira tillit til hinna einstöku kjósenda heldur en flokkanna, sem í landinu eru. Hv. þm. vildi halda fast við till. sína um að koma á hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum. Hv. þm. viðurkenndi, að ástæðan til þess, að þeir bæru fram brtt. í þessa átt, hann og flokksmaður hans í n., væri sú, að þeir vildu fá meiri uppbætur til flokkanna en áður hefir verið; en þegar hv. þm. viðurkennir, að þetta fyrirkomulag geti komið mjög ranglátlega niður á kjósendunum, vildi ég benda hv. þm. á, að þó að hann fengi talsverðar uppbætur á þennan hátt til flokkanna, þá fengi hann þær á kostnað þess kjördæmis, sem í hlut á. Ég sé mér því ekki fært að fylgja þeirri leið.