21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

3. mál, landsreikninga 1931

Jónas Þorbergsson:

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að halda hér mjög langa ræðu út af ræðu hv. 3. þm. Reykv., þó að vitanlega mætti margt um hana segja. Hæstv. forsrh. hefir svarað í einstökum atriðum viðkomandi ýmsum þeim hlutum, sem yfirskoðunarmenn hafa séð ástæðu til að taka til athugunar í sínum aths. Og ég ætla þess vegna ekki að fara mjög langt út í þau einstöku atriði.

Það er hvorki mér né hv. þd. nein nýjung, að hreyft sé aths. og aðfinnslum í garð útvarpsins. Þetta er og ekki með öllu óeðlilegt, þegar á það er litið, að þessi stofnun er ung og er að skapast og hefir nú þegar allmikil útgjöld í för með sér, en grípur hinsvegar meira inn í daglegt líf manna, tilfinningar og sálarlíf og er háðari gagnrýni almennings en nokkur ríkisstofnun önnur.

Því er það líka alveg eðlilegt, að útvarpið sé mönnum ríkt í huga, hvenær sem rætt er um málefni þjóðarinnar frá fjárhagslegu sjónarmiði. En þó að mér detti ekki í hug að halda því fram, að útvarpið hér sé fullkomið, fremur en önnur mannanna verk, verð ég samt að segja það, að flestar aðfinnslurnar hafa til þessa verið tvennskonar marki brenndar. Þær hafa flestar verið byggðar ýmist á of lítilli þekkingu á örðugleikum og starfi stofnunarinnar eða skorti á velvild og sérstakri löngun til þess að hnekkja sumum þeim mönnum, sem hafa fengið það hlutverk að byggja upp þessa ungu stofnun, skipulag hennar og störf. Þar sem þessar orsakir aðfinnslunnar eru annarlegs eðlis, sé ég ekki ástæðu til að gera þær að umtalsefni í þessu sambandi. Ég býst einnig við því, eins og hv. 3. þm. Reykv., að tilefni gefist til að ræða um störf og kostnað við útvarpið í sambandi við fjárl. síðar á þinginu, og get ég því geymt mér að ræða þau efni þangað til, enda eiga þau þar heima. En hv. 3. þm. Reykv. vil ég þó svara nokkrum orðum. Aðfinnslur hans báru þess ljósastan vott, að þær voru í senn byggðar á vanþekkingu og þeirri tegund af velvild þessa hv. þm. í garð forstöðumanns útvarpsins, sem alkunn er orðin. Það er sannast sagt broslegt að heyra þennan roskna og reynda mann, sem talinn er greindur (a. m. k. nægilega gáfaður til að kenna prestaefnum landsins), halda því fram, að forstöðumaður sé ónauðsynlegur við þessa stofnun, af því að hann vinni ekki öll störfin við hana einn. Ég hefi engan heyrt halda því fram, að póstmálastjóri væri ónauðsynlegur embættismaður, og selur hann þó hvorki frímerki né afgreiðir bréf, né fer í póstferðir út um byggðir landsins. Landssímastjóri mun heldur ekki afgreiða skeyti né gefa mönnum símasamband sjálfur eða færa bækur stofnunarinnar, og hefi ég þó aldrei heyrt því hreyft, að hann væri ónauðsynlegur embættismaður. Annars er óþarfi að ræða jafnaugljósa og illkvittnislega fjarstæðu eins og þessa, enda er það alviðurkennt af löggjafarvaldinu og stjórn landsins, að allar opinberar stofnanir þurfi eftirlits- og yfirmann.

Það er fullkomlega eðlilegt, að hv. 3. þm. Reykv. tali af fáfræði um þessi efni, þar sem kunnugt er, að hann hefir hvorki átt kost á né gert sér far um að kynna sér þau. En út af þessu mikla óánægjuskvaldri hv. þm. og samherja hans yfir útvarpinu og stjórn þess skal ég benda honum á, að útvarpsnotin og vinsældir útvarpsins vaxa dagvöxtum. Ég get ennfremur bent honum á til samanburðar og til athugunar áður en hann kemur næst fram með árásir sínar, að árið 1931 kostaði hver útvarpsstund hér á landi 174 kr., en í Danmörku um 770 kr. Þetta sýnir út af fyrir sig, hve vel okkur hefir þegar tekizt að sníða okkur stakk eftir vexti um útvarpskostnaðinn. Engar aths. hafa þó komið um það utan úr löndum, að útvarpið okkar þyki ómerkilegt né því sé illa fyrir komið. Hinsvegar höfum við fengið hrós fyrir, að stöðin sé góð og hljóðhrein, þulurinn ágætur, eins og kunnugt er, og dagskráin eftir atvikum fjölbreytileg. Annars mun ég geyma það til fjárlagaumr. að gera nánari grein fyrir hinni takmarkalausu vanþekkingu hv. 3. þm. Reykv. á útvarpsmálum. Vanþekkinguna er hægt að fyrirgefa honum, en hitt síður, hvaða hvatir liggja á bak við hinar illkvittnislegu árásir hans.

Ég mun þá víkja nokkuð að útvarpstækjunum á spítölum landsins, er hv. 3. þm. Reykv. gerði sér svo tíðrætt um. Haustið 1930 bárust heilbrigðisstj. átakanlegar bænarskrár frá sjúklingum í hælum landsins um að fá útvarpstæki. Einkum voru þessar beiðnir frá Vífilsstöðum. Ég ætla, að því verði ekki neitað, að engir hafi meiri þörf né rétt á útvarpi en einmitt sjúklingar, og þá ekki sízt berklasjúklingar, sem margir hverjir eru dæmdir til þess að bíða dauðans í þessum sjúkrahúsum og geta ekki notið lífsins á neinn annan hátt. Heilbrigðisstj. fól útvarpinu að gera kostnaðaráætlun og útreikninga. Verkfræðingur útvarpsins gerði útreikningana, leitaði tilboða og fékk þau. Útvarpið lét síðan eftir tilmælum ráðuneytisins setja upp tækin á spítölunum og fékk jafnframt loforð frá heilbrigðisstj. um endurgreiðslu frá hælunum, þegar hægt væri að koma henni við. Ég skal játa, að varlegra hefði verið að fá beina heimild hjá atvinnumálaráðuneytinu til þessa, enda þótt þetta væri gert með vitund þess. Útvarpstækin voru sett upp á fjórum hælum, Vífilsstöðum, Kristnesi, Kópavogi og Kleppi. Framkvæmdin varð nokkuð dýr, þar sem leiðslur varð að gera um allt húsið á hverjum stað, nema Kleppi, og heyrnartæki voru sett við hvert rúm, svo að sjúklingar þyrftu ekki að hafa óþægindi af útvarpinu; ef þeir væru of veikir til að þola hávaða. Síðan var gerð ráðstöfun til að innheimta þennan kostnað. Hv. 3. þm. Reykv. hefði sér að útlátalausu getað aflað sér kunnugleika um þetta áður en hann fór með aths. sína í LR. Ég get upplýst það hér, að Vífilsstaðir og Kleppur hafa þegar endurgreitt tækin. Um endurgreiðsluna frá Kristneshæli er nokkur ágreiningur, en ég hefi ritað heilbrigðismálaráðh. og beðið hann að leita aukafjárveitingar fyrir upphæðinni á reikning hælisins. Ég hefi ekki fengið svar um, hvort hæstv. ráðh. treystir sér til þessa, en vænti þess þó. Ég skal játa, að aths. hv. 3. þm. Reykv. um þetta atriði voru alveg réttmætar, en honum hefði átt að vera vorkunnarlaust að afla sér allra þeirra upplýsinga, sem kostur var á um málið, áður en hann hóf ádeilurnar.

Af því að hv. 3. þm. Reykv. hefir nú verið svo örlátur á aths. í minn garð, ætla ég að lokum að leyfa mér sem þm. að gera dálitla aths. um hann sem yfirskoðunarmann LR., þar sem athugasemdirnar um útvarpið bera það með sér, að hann er um þær bæði pottur og panna. 24. aths. ber það með sér, að yfirendurskoðunarmennirnir hafa ekki kynnt sér aths. hinnar umboðslegu endurskoðunar né úrskurði ráðuneytisins, áður en þeir gerðu aths. sínar við LR. Þó er skýlaust mælt svo fyrir í lögum um ríkisbókhald frá 8. sept. 1931, að svo skuli gert. En hv. 3. þm. Reykv. hefir talið sér koma betur að ganga framhjá hinni umboðslegu endurskoðun á þessu atriði, í því skyni að gera LR. að þessu leyti að einskonar áframhaldsútgáfu af Morgunblaðinu og ofsóknarmálgagni á hendur pólitískum andstæðingi. Hv. 3. þm. Reykv. var vel kunnugt um úrskurði ráðuneytisins, enda hefir hann sem yfirskoðunarmaður LR. orðið að fallast á þá, eins og LR. ber með sér. Þau atriði, sem hann gerði að árásarefni á mig, eru því alveg útkljáð, eins og hæstv. fjmrh. hefir tekið fram. En vilji menn gera þau frekar að umtalsefni, skal ég verða síðastur manna til að skorast undan að taka þátt í þeim umræðum.