16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2783 í B-deild Alþingistíðinda. (4505)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Ég er þá búinn að fá vitnisburð eins af jafnaðarmönnum um það, að samkomulag var um þetta milli flokkanna vorið 1931. Þetta vill hv. 3. þm. Reykv. afsanna með því, að þessi vilji hafi ekki komið fram í till. sjálfstæðismanna í mþn. 1931. En hann gleymdi því, að þessir fulltrúar létu þess getið einmitt þar, að þeir væru fáanlegir til að ganga inn á till. um stóru kjördæmin, ef þeir gætu ekki fengið aðaltill. sinni framgengt. En þá var líka langt um liðið frá vorinu 1931, og mun þá hafa verið búið að segja upp samningunum. Ég býst líka við, að við kosningarnar 1931 hafi sá andi, sem þá varð svo glögglega vart við hjá kjósendum landsins, sýnt sjálfstæðismönnum, að það var ekki vinsæl stefna að halda fram stóru kjördæmunum með hlutfallskosningu.