24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (4523)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er ómögulegt annað að segja en að meðferð þessa máls í þinginu hafi verið með alleinkennilegum hætti, því að nú á að bíta höfuðið af skömminni með afgreiðslu þess á þessum fundi með því að slengja inn brtt. um leið og verið er að setja fundinn aftur, og hv. þdm. er þannig ekkert tækifæri gefið til þess að athuga, hvað þeir eru að gera. Ég hygg, að þeir, sem hafa gengið frá þessum brtt., hafi ekki verið sér þess meðvitandi, hvað þeir voru að semja. Í þessum brtt. er gert ráð fyrir því, að a. m. k. annaðhvert sæti tíu efstu manna á landslista þeim, sem hér er um að ræða, sé skipað frambjóðendum flokksins í kjördæmum utan Reykjavíkur. Nú er mér ekki vel ljóst, hvernig þessir menn hafa hugsað sér, að þessir menn tækju sæti sem varamenn. Ef svo færi, að þessir menn, sem á listanum eru, næðu kosningu, hver kæmi þá næst til greina við ákvörðun um það, hver af listanum eigi að taka sæti? Eða á umboð þeirra í kjördæminu að falla niður um leið og þeir koma sem uppbótarmenn á landslista flokksins? Ég verð að segja, að mér urðu það mikil vonbrigði, þegar ekki náðist samkomulag um skipun á þessum sætum eftir því, sem fólst í stjskrbreyt. Þá var því haldið fram af einstökum mönnum, að það væri óeðlileg ráðstöfun, vegna þess að smáu kjördæmin gætu komið að mönnum í uppbótarsæti. En hvaða trygging er fyrir því, að þetta geti ekki orðið með þessu fyrirkomulagi? Engin, alls engin. Uppbótarsætin gætu komið úr öllum minnstu kjördæmunum í landinu. Hinu fyrirkomulaginu fylgdi þó sú trygging, að menn þurftu að hafa talsvert mikið fylgi í þessum kjördæmum, en nú þarf ekki að hafa nema 10 manna fylgi í minnstu kjördæmunum samkv. till., sem hér liggja fyrir. Svona hafa þeir hugsað þetta rækilega, sem frá þessu hafa gengið á einum hálftíma, og svo á þingið að gleypa við þessu eins og það kemur frá þeim, eins huggulegt og skemmtilegt og það nú er! Þessi „grautargerð“ hjá þessum hv. þm. er svo viðbjóðsleg, að ég trúi því varla, að við gleypum við þessu þegjandi og umhugsunarlaust. Af því að málið hefir verið tekið svo oft á dagskrá án þess að gengið hafi verið til atkv. í því, finnst mér ekkert á móti því, þegar þessar brtt. koma svona fram á seinustu stundu, að málið verði nú tekið út af dagskrá og þeir fái enn að athuga það, hvað þeir voru að gera, og hv. þdm. sé gefið tækifæri til að færa þetta til betri vegar á einhverjum svipuðum grundvelli og þeir leggja til. Ég ætla ekki að tala um þessa hækkun á þm. Það út af fyrir sig er svo lítilfjörlegt, að maður getur næstum því sagt, að það sé broslegt að vera að deila um, hvort þm. eigi að vera 48 eða 49. Hitt er annað mál, að það er ráðstöfunin á uppbótarsætunum, sem skiptir miklu máli, og það veit ég, að um þau er sá ágreiningur, sem hér er. Þessi brtt. er tekin alveg án þess að þeir hafi nokkurn hlut gert sér grein fyrir, hvaða áhrif sú till. hefði, ef hún næði fram að ganga. Þar sem hv. þm. Str. sagði, að allir flokkar hefðu komið sér saman um þessa niðurstöðu, þá veit ég ekki, hvað hann meinar; a. m. k. býst ég við, að mönnum hafi skilizt það, að það eru ekki allir, sem eru ánægðir með þetta. Ég hygg, að innan Framsfl. a. m. k. séu talsvert háværar raddir, sem ekki vilja fallast á svona hundavaðshátt eins og felst í brtt. n. Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti verði við ósk minni um það, að hespa ekki þetta mál af í einum hvelli, þar sem ég þykist hafa fullkomna réttlætiskröfu til þess að bera það fram, úr því að þessar brtt. eru ekki fyrr fram komnar en fundur er settur á ný. Ég vil vænta þess, að hv. n. sýni þá sanngirni í þessu máli, að hún vilji ljá þessari ósk minni fylgi.