24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (4526)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins minna hv. dm. á brtt. mína á þskj. 697. Eins og menn sjá, er farið fram á það, að menn séu ekki sviptir kosningarrétti, þó að þeir af einhverjum óhöppum verði gjaldþrota. Nú er það svo, eins og menn vita, að það er til þess stofnað með kreppulánasjóðsfrv., að ýmsir menn í þessu landi geti fengið afslátt af sínum skuldum. Mér þætti það dálítið óviðkunnanlegt, ef þeir menn, sem borguðu kannske 80—90% af sínum skuldum, en gætu ekki borgað þær allar, ættu að missa kosningarrétt meðan á uppgerð þeirra þrotabúa stendur, en aðrir, sem gætu fengið 30—40% afslátt af sínum skuldum, ættu að halda sínum kosningarrétti. Slíkt ósamræmi held ég, að ekki sé rétt að hafa hvað kosningarrétt snertir, og vil vænta þess, að hv. d. vilji samþ. þessa brtt. Undir mörgum kringumstæðum er það nú líka svo, að menn missa ekki kosningarrétt sinn, þó að þeir verði gjaldþrota, vegna þess, að þeir hafa verið settir á kjörskrá áður en þeir gáfu upp bú sitt til þrotaskipta og ekki hægt að taka þá út af kjörskrá aftur, því að undir mörgum kringumstæðum er búið að ljúka skiptum í þrotabúum þeirra áður en næsta kjörskrá er samin. Þetta á við um öll smærri þrotabú, en um hin stærri þrotabú mundi koma til þess, að menn misstu kosningarréttinn vegna þessa. Eins og menn vita, hafa ýmsir fengið nauðasamninga án þess að borga allar sínar skuldir, og jafnvel minni hlutann af þeim. Þessir menn eru settir skör hærra heldur en hinir, sem kannske borga miklu meira, en vegna eins árs óhapps kannske orðið gjaldþrota.

Eins sjálfsagt og ég tel það, að þessir menn missi ekki kosningarréttinn, þó þeir þurfi að leita annara vegna erfiðs fjárhags, sem stundum er ósjálfráður, en stundum líka sjálfráður, þá verð ég að telja það jafnsjálfsagt, að þeir, sem verða gjaldþrota, margir þeirra, eigi sömu kröfu til þess að hafa kosningarrétt eins og hinir, en auðvitað að því tilskildu, að þeirra gjaldþrot hafi ekki orðið á sviksamlegan hátt.