24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (4531)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. þm. Str., form. Framsfl., lýsti því yfir, að hann teldi það alveg ástæðulaust að tefja málið lengur en 100 daga, og ég get lýst því yfir fyrir hönd Sjálfstfl., að hann óskar ekki eftir, að þetta mál verði tafið meira, og hv. 2. þm. Reykv., umboðsmaður jafnaðarmanna hér í d., hefir einnig látið það sama í ljós. Umboðsmenn Sjálfstfl., Framsfl. og Jafnaðarmannaflokksins eru allir sammála um, að þetta sé þrautrætt og endanlega útkljáð mál. Þá sé ég ekki ástæðu til, þó að einn þm. rísi upp með offorsi og gagnrýni um einstök atriði frv. og krefjist þess, að málið sé tekið út af dagskrá, að fara eftir því, og einkum vegna þess, að hann færði fram sem höfuðástæðu fyrir sínu máli, að þetta kæmi öllum á óvart og væri vitlaust. Sú till., sem ágreiningi veldur í augum hv. þm. V.Húnv., er till. um landslista, og sú hugmynd hefir verið rædd á stjskrn.-fundi og umboðsmenn Framsfl. hafa tjáð sig hlynnta henni, a. m. k. þm. Mýr. (BÁ: Ekki skilyrðislaust). Nei, en hún er ekki ný í hugum manna, og ég er ekki viss um, að neinn bæti sig, þó að hann hugsi um hana í 2 klst. Ég mótmæli því algerlega, að málið sé tekið út af dagskrá, af því að það er ástæðulaust að vera að gera sig hlægilega með þessum eilífa drætti, af því að hv. þm. (HJ) veit það, sem allir vita, að þessar till., eins og þær liggja fyrir frá nefndinni; verða samþ. hér í d.

Ég vil svo um efnishlið málsins segja það, að hv. þm. Barð. hefir lýst því yfir, að hann muni taka upp till. jafnaðarmanna um það, að með einföldum lögum megi fjölga uppbótarþingsætunum úr 10 upp í 12. Þessari till. mótmælti hann kröftuglega í stjskrn. og neitaði að veita henni stuðning, þó að umboðsmenn jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna legðu hart að honum að fylgja till. Þegar hann veit, að við erum búnir að gera samkomulag um þessar sameiginlegu till., kemur hann og býður upp á þetta, og þá er það gert í því skyni að ginna okkur, sem heldur viljum þá till., til þess að svíkja það samkomulag, sem við erum búnir að gera.

Ég lýsi því yfir f. h. Sjálfstfl., að þó að okkur hefði verið það geðfelldara að fá þá till. samþ. en þá, sem við nú höfum gert til samkomulags, þá munum við í einu og öllu halda þá samninga, sem við höfum gert, og greiða atkv. með brtt. stjskrn. eins og þær liggja fyrir, en á móti öllum öðrum till.