24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (4533)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 1. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vil taka undir það, að þessum umr. verði haldið áfram. Landskjörstillagan, sem hér liggur fyrir með lítilsháttar breytingum, hefir verið til umr. í stjskrn., og form. stjskrn., sem nú telur sig meðmæltan því að fresta umr., hefir talið sig samþykkan þeirri till. eins og hún kom frá okkur. Sú breyting, sem nú er komin á hana, er frá framsóknarmönnum sjálfum og er til þess að tryggja það, að helmingur þeirra, sem settir eru á landslista, verði menn, sem bjóða sig fram í kjördæmum utan Reykjavíkur, svo að fyrir sinn flokk ætti þm. ekki að vera að beita sér fyrir því, að þessu verði enn breytt frá því, sem nú er. En það er vitað um hv. þm. V.-Húnv., að hann er yfirleitt á móti þessu frv. eins og það liggur fyrir, með núv. breytingum, og ástæðan til þess, að hann fer fram á frestun, er engin önnur en sú, að reyna að draga málið, í von um að geta eytt því.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, að hann mundi geta fylgt till. okkar jafnaðarmanna um að fjölga þingmannatölunni upp í 50 með einföldum lögum, vil ég aðeins segja það, að úr því að ekki er hægt að fá samkomulag um þá till., þá munum við fylgja þessari, að þingmannatalan sé 49.

Ég vil geta þess, að ef frv. verður tekið nú út af dagskrá eftir beiðni eins eða tveggja þm., þá áskil ég okkur Alþfl.þm. rétt til að krefjast þess, að hvaða mál, sem eftir er, verði tekið út af dagskrá, því að það er vitanlegt, að mörg málin verða afgr. á móti okkar vilja, eftir samkomulagi hinna flokkanna.