21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

3. mál, landsreikninga 1931

Frsm. (Hannes Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég hefði ekki fært aðra ástæðu fyrir því, að bókhald ríkissjóðs hefði batnað, en þá, að þar væri nú tvöföld bókfærsla. En það eru auðvitað út af fyrir sig miklar umbætur frá því, sem áður var. Og eftir því sem betur gengur, þá leiðir það til meiri fullkomnunar á bókhaldinu. Áður fylgdu bókhaldinu flestir gallar hinnar einföldu bókfærslu. Og eftir að bókhaldið varð tvöfalt, þá geta að vísu í útfærslu þess komið fram smávegis gallar fyrst í stað, en úr þeim göllum er auðvelt að bæta. Annars ætla ég ekki að rekja það nú, hvað þessi breyt. er mikilsverð, eða telja upp alla þá kosti, sem henni fylgja. Það liggur svo í augum uppi fyrir öllum þeim mönnum, sem hafa vit á þessum efnum, og ég held ég megi fullyrða, að hv. 3. þm. Reykv. skilji þetta mæta vel sjálfur.

Ég skal t. d. benda honum á, að með þessari tvöföldu bókfærslu er fengið beint samband á milli hins árlega rekstrarreiknings ríkissjóðs og hinsvegar eignaskýrslu ríkisins. Og það er stórkostlegur kostur, að hægt er að taka hinn raunverulega rekstrarreikning ríkisins sérstaklega út úr, og þar af leiðandi er svo auðvelt að bera þá reikninga saman frá ári til árs. Þannig mætti lengi rekja kosti þessa nýja bókfærsluforms fram yfir eldra bókhaldið; þeir kostir eru svo margir, og ég vil ekki tefja tímann á að telja þá upp hér. Hinsvegar get ég endurtekið það, að ekki er nema sjálfsagt að laga og leiðrétta þá smágalla á bókhaldsforminu, sem koma í ljós við reynsluna, til þess að gera bókhaldið svo fullkomið sem unnt er. Að því eiga yfirskoðunarmenn að vinna, og gera hispurslaust aths. við það, sem miður fer. En jafnframt er yfirskoðunarmönnum skylt að viðurkenna það, sem gert er til bóta, en snúa því ekki öllu í villu. Það gætir of mikils pólitísks strekkings hjá hv. 3. þm. Reykv. í þessu efni ; hann vill ekki viðurkenna, að það hafi verið gott verk, sem gert var í stjórnartíð andstæðinga hans á þessu sviði. (MJ: Þetta er skakkt með farið). Hv. þm. sagði, að þetta hefði verið lofað um of og meira en verðleikar stóðu til. Þó að svo kunni að vera, þá afsakar það á engan hátt, að hann sem yfirskoðunarmaður skuli ekki vilja viðurkenna þær umbætur, sem gerðar hafa verið, og vinna að frekari endurbótum á bókhaldinu. (MJ: Það er eftir að laga það).

Þá vildi ég gera aths. út af því, sem hv. þm. Dal. sagði í ræðu sinni. Hann virtist vilja gera mig að meðritstjóra við Morgunbl. Þeirri góðfýsi hans í minn garð vísa ég algerlega á bug. Þessar aths. við LR., sem hann hefir sérstaklega gert að umtalsefni, eru gerðar af okkur yfirskoðunarmönnum öllum, af því að okkur þótti ástæða til þess og töldum, að það, sem í aths. fólst, ætti að vera til viðvörunar framvegis. Það er ekki vanrækslusök okkar yfirskoðunarmanna, þó að þessi skýrsla, sem hv. þm. talaði um frá hinni umboðslegu endurskoðun í fjmrn., væri ekki komin í okkar hendur, þegar aths. voru gerðar. Og gæti ég trúað, að hann hafi sjálfur átt sök á því. Ég veit að vísu ekki, hvenær reikningar útvarpsins hafa verið fullgerðir; en ef þeir hafa ekki verið afgr. til endurskoðunar í fjmrn. í tæka tíð, þá er sökin fyrir það, að þetta plagg var ekki komið í okkar hendur, eins mikil hjá honum sjálfum.

Annars var það gott, að þessi áminning kom fram frá hv. þm., því að við yfirskoðunarmenn höfum haldið því fram, að stj. eigi að láta skýrslur frá hinum lögskipuðu endurskoðendum fylgja með reikningunum til yfirskoðunarmanna LR. En þó að slíkar skýrslur fylgi með reikningunum, þá geta þær vitanlega ekki lokað munninum á þeim, því að yfirskoðunarmenn gætu máske með fullum rétti talið, að stj. eða hinir umboðslegu endurskoðendur hefðu ef til vill ekki gert það, sem yfirskoðunarmenn teldu rétt og nauðsynlegt. — Í þessu tilfelli hefðu yfirskoðunarmenn sennilega gert sömu aths., þó að skýrsla hinna umboðslegu endurskoðenda hefði legið fyrir, til þess að fá tækifæri til að gera till. til viðvörunar framvegis.

Annars væri það dálítið hart, ef yfirskoðunarmenn mættu ekki benda á neitt, sem þeim þætti miður fara en skyldi, nema þeir séu settir í hóp hinna svæsnustu andstæðinga þeirra, er hlut eiga að máli. Ég gríp þetta tækifæri til þess að vísa algerlega á bug slíkum svigurmælum frá hv. þm. Dal., hvað mig snertir. Og ég held, að hv. þm. vaxi ekkert af þessari ákúru til okkar yfirskoðunarmanna. Þessu er alveg eins beint til mín og hv. 3. þm. Reykv., því að við vorum alveg sammála um þá aths., sem um er rætt. Þá skildist mér ennfremur á hv. þm. Dal., að við yfirskoðunarmenn hefðum ekki gætt þeirrar skyldu okkar að athuga rekstur hinna sérstöku ríkisstofnana. Síðan ég fór að vinna að yfirskoðun LR. hefir það verið föst venja að athuga nákvæmlega hag og rekstur 2—3 ríkisstofnana árlega. Ef ætti að taka þær allar til nákvæmrar athugunar árlega, þá þyrftu yfirskoðunarmenn fleiri mánuði til þeirra starfa, og 2 mánuðum meira en nú. Ég skal fúslega játa, að þetta starf heyrir til þeirri kritísku endurskoðun og undir yfirskoðunarmenn LR. En ég hygg, að með þeirri breyt., sem nú hefir verið gerð á bókhaldi ríkisins, þá sé ástæða til að athuga, hvort ekki er rétt að fækka yfirskoðunarmönnum úr þremur niður í tvo. Frá hálfu Alþingis ætti að vera fullnægjandi að hafa 2 yfirskoðunarmenn. En svo ætti að fela þeim að athuga nákvæmlega störf og rekstur ríkisstofnana og leggja í það meiri vinnu en nú er gert. Af því að ríkisstofnunum hefir fjölgað svo mjög á síðustu árum, þá er ómögulegt fyrir yfirskoðunarmenn að athuga alla þá reikninga, sökum tímaskorts, eins gaumgæfilega og áður var gert, þegar þessu starfi voru settar reglur og ákveðnir þrír yfirskoðunarmenn. Starfið er nú orðið svo miklu umfangsmeira en áður var, og þarf því að kosta meiru til við það. En til þess að sá kostnaður verði ekki óhæfilega mikill, hefir mér dottið í hug, að yfirskoðunarmenn væru aðeins hafðir tveir; en vitanlega er þá nauðsynlegt, að betur verði vandað til starfsins heldur en nú og yfirskoðunarmönnum ætlaður lengri tími, til þess að þeir leysi það vei af hendi. Hinir umboðslegu endurskoðendur geta auðvitað athugað til fulls og borið saman, hvort tölur séu rétt teknar upp úr reikningabókum og skjölum inn á LR., á sama hátt og þeir athuga reikningsfærslu hvers reikningshaldara. — Tilgangurinn með þessu yrði þá aðallega sá, að hin krítiska endurskoðun færi sérstaklega fram vegna þingsins og yrði gerð af þeim mönnum, sem það kýs til þess. Og ég skal játa, að undanfarið hefir það eigi verið gert svo ýtarlega sem þurfti.