24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (4540)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er ákaflega mikið frjálslyndi, sem sýnt er hér í meðferð þessa máls, þegar ekki má einu sinni veita fundarhlé í 2 klst. til þess að athuga þessar brtt., sem n. hefir gert. Ég verð að segja það, að ég er alveg undrandi yfir því, og ég verð líka að segja það, að hvað mikið sem ég talaði á móti þessum brtt., þá er það ekkert til jafns við það, sem n. sjálf gerir með því að leggja til, að aðrir fái ekki að athuga gerðir hennar. Það er alveg auðséð á þessu, að hún þykist þess fullviss, að ef deildarmenn fá tækifæri til að líta í gegnum þennan vef hennar, þá muni þeir verða vegnir og léttvægir fundnir. Og þeim er þetta svo mikið kappsmál, að þeir vilja ekki láta deildina kasta fyrir borð verkum hennar í þessu efni. Það er náttúrlega gott að hafa metnað, en það er ekki gott að láta jafnstórt og merkilegt mál eins og þetta valda þessu. En þeir hugsa mest um sjálfa sig, þessir blessaðir þdm.

Ég verð að byrja á því að mótmæla því algerlega, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, sem rakalausum ósannindum, að ég flytti þessa ósk um að taka málið út af dagskrá fyrir þær sakir, að ég sé málinu óviljaður. Ég býst við, að ég hafi ekki gert neitt minna en hann til þess að finna heppilega lausn á þessu máli. Þetta er því algerlega gripið úr lausu lofti og sleggjudómur, sem honum einum er sæmandi fram að bera, af því að enginn tekur mark á því, sem hann segir.

Í sambandi við þetta tók hv. 2. þm. Reykv. það fram, að ef slík óhæfa ætti fram að fara, þá mundi hann f. h. sinna flokksbræðra krefjast þess, að hvert mál, sem kæmi fyrir í deildinni hér eftir, yrði að sæta sömu meðferð. Ég verð að segja það, að ég mun verða því fylgjandi, að þau mál, sem enn eiga eftir að ræðast á þingi, og öll þau mál, sem verða rædd á þingi meðan ég er þar, sæti þeirri meðferð, að menn fái tækifæri til þess að athuga mikilsvarðandi brtt. við þau, en ekki að þeim sé þrælað fram fyrirvaralaust. Ég álít þetta ekki annað en réttláta kröfu, sem þeir megi gjarnan bera fram, jafnvel þó að þeir nú hafi greitt atkv. á móti því, að sú sama meðferð verði höfð um þetta mál. En það sýnir bezt heilindi þeirra í þessu máli eins og öllum öðrum, að þeir hugsa ekki um afdrif málsins sjálfs, heldur er um einhvern annan misskilinn metnað að ræða frá þeirra hendi.

Hv. þm. Str. sagði, að þetta væri smávægilegt fyrirkomulagsatriði, sem ekki væri ástæða til að athuga nokkurn skapaðan hlut nú. Þessi þriðja brtt. er ekki annað en nokkur þáttur af því, sem varð til þess að hann rauf þingið 1931. Hún er nú þetta smáræði, og ef hann nú vill éta ofan í sig allt, sem hann sagði þá, þá get ég sagt það, að honum megi gjarnan verða það að góðu.

Í þessari brtt., sem er að nokkru leyti soðin upp úr brtt. jafnaðarmanna, þar sem var farið fram á, að Reykvíkingum væru veitt öll uppbótarsætin og þeim fengnir í hendur 17 þm., er eitt af því, sem talið var óeðlilegt við þá kröfu, sem kom fram í stjórnarskrármálinu fyrir þingið 1931 og í undirbúningi þess máls. Það var einmitt það atriði, að það væri fengið of mikið vald í hendur Reykvíkingum. Ef til vill heldur hv. þm. Str., að hann sé svo ljós í hugsun og skýr í framsetningu, að ekki þurfi neitt að hrófla við því, sem hann gerir, en jafnvel þó ég beri gott traust til hans, þá tel ég hann ekki óskeikulan í þessu efni. Ég get ekki botnað í því, hvers vegna þetta snið er valið til þess að semja þessa brtt. Hvers vegna ekki að taka annaðhvort það skipulag, sem sjálfstæðismenn vilja, eða hitt, sem jafnaðarmenn vilja, eða þá upphaflega frv.? Ég þykist sjá, að þessari brtt. sé tryggt nægilegt fylgi og það muni ganga í gegnum þessa hv. d. Hv. þm. Str. sagði, að ef einhver vansmíð kynni að verða á frv., þá gæti hv. Ed. bætt úr því. En því ekki þá að láta frv. fara óbreytt til hv. Ed. og láta hana gera breytingarnar? Nei, þeir treysta því, að þessi vitleysa haldist einmitt í Ed., og þess vegna er svona mikið kapp lagt á að koma þessari breyt. hér inn að öllum óviðbúnum. Ég skil ekki þennan áhuga hjá hv. þm. G.-K. Hann heldur því fram, að það, sem ég sagði, sé órökstutt. Hann hefir ekki hrakið eitt einasta atriði. Svo er það haft á móti stjfrv., að uppbótarsætin gætu lent á fámennustu kjördæmin, en það er alls ekki fyrirbyggt með þessu. Eftir stjfrv. þurftu menn þó að hafa mikið fylgi til þess að komast að, en nú þarf rétt það fylgi, að menn geti boðið sig fram. Hv. þm. segir, að hægt sé að koma þessu fyrir í kosningalögum. En það var þá alveg eins hægt með frv. að koma því fyrir í kosningalögum, að fámenn kjördæmi fengju ekki uppbótarsæti.

Nú fellur hver af öðrum á kné fyrir Reykjavíkurvaldinu og færir því fórnir. Áður var annað hljóð í strokknum. Og svo vill hv. þm. Str. ekki, að menn fái að hrófla við þessu, að menn fái tækifæri til að átta sig á málinu. Hann er hræddur um, að hann verði rekinn á stampinn og vill heldur taka á sig skömmina seinna og bera alla æfi en að flokksbræður hans hlypu nú undir bagga og breyttu þessu til hins betra.

Svo vil ég þakka hv. d., hversu sanngjarnlega tekið var undir ósk mína um að fresta umr. og taka málið út af dagskrá, eða þó a. m. k. að gefa örstutt fundarhlé.

Annars hefði ég haft gaman af að þreyta hv. d. á því að rekja sögu málsins frá upphafi, og hefði þá dagurinn ekki enzt. Það hefði verið maklegt svar við því offorsi að knýja fram þær breyt., sem hér eru á ferðinni.