24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (4541)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Ég stend upp aðeins út af ummælum hv. 2. þm. Reykv., að ég hefði á laugardaginn lýst yfir fylgi við landslistafyrirkomulagið, og hann hefði treyst því, en svo hefði það brugðizt. Hann hefir engar sannanir fyrir því, og báðir sjálfstæðismennirnir í nefndinni lýstu því yfir, að þeir vildu samþ. þetta, svo að það var hægt að búast við því, að einhverjir hefðu fylgt þeim, úr því atkvæðagreiðslur eru látnar fara eftir utanþings-samkomulagi. (ÓTh: Skyldi það nú líka fara að koma fyrir?). Brtt. 789 stafl. 3. er mikið til skemmda frá því, sem var á laugardaginn, og hefi ég gaman af að sjá, hvort jafnaðarmenn ætla að drepa sína eigin till., ef ég tek hana upp, og samþ. fremur skemmdarákvæði. Mér þykir nokkuð einkennileg sú aðferð, sem hv. deild hefir viðhaft, þar sem einn nm. hefir lýst því yfir, að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að vera á fundi, og í öðru lagi er brtt. borin fram í byrjun þingfundar, en samt er neitað um tveggja stunda fundarhlé. Ég tel þetta gerræði, sem deildin hefir gert sig seka um. Ég hefi aldrei vitað til þess, að áður hafi verið fyrirstaða á frestun um nokkra stund, eins og hér á sér stað, og sérstaklega þegar tekið er tillit til, að svo virðist, sem örlög Karthagoborgar séu fyrirfram ákveðin. Því má þá ekki bíða dálitla stund, gefa tveggja stunda hlé, svo að menn geti áttað sig á, um hvað þeir greiða atkvæði?