26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (4553)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er auðséð, að fjölmennir flokkar, sem eiga von á mörgum þingsætum, gætu ekki fallið fyrir þeirri freistingu að setja landslista og hafa svo framboð í einu eða tveimur kjördæmum (JónJ: Þeir geta það.), vegna þess að það er útilokað, að nokkur flokkur geti náð fleiri þingsætum en stjórnarskráin heimilar. Tökum t. d. Sjálfstfl., sem gerir sér von um að fá yfir 20 þm. Fyrir hann getur ekki verið nein freisting að gera sína kosningu að nokkurnveginn einhliða landskjöri, því að hann getur ekki unnið sinn þingsætafjölda með því. En t. d. kommúnistar gætu, ef ekki væri þetta ákvæði um að hafa annanhvern landslistamann í kjöri utan Reykjavíkur, látið sér nægja að hafa framboð þar, sem þeir teldu sér nægilegt til að vinna þingsæti, sem þarf til þess að verða þingflokkur, og hafa svo bara landslista. En þetta er fyrirbyggt með frv. eins og það er nú. Hv. 3. landsk. minntist á, að hinir flokkarnir — Sjálfstfl. og Alþfl. — hefðu miðað sitt framboð við Reykjavík aðallega og haft þá menn í kjöri, sem hefðu mikið fylgi þar, en þetta væri allt öðru máli að gegna um Framsfl. og benti á sjálfan sig sem dæmi. Ég þarf ekki að minna á það, að hv. 3. landsk., sem er bóndi og sómi sinnar stéttar, var 2. maður á landslista Framsfl. við sömu kosningar og Þórarinn á Hjaltabakka, sýslungi hans, sem líka er prýði sinnar stéttar, var 2. maður á lista Sjálfstfl. Og á báðum listunum var efsti maðurinn kaupstaðarbúi, og höfðu þeir alið allan sinn aldur í kaupstað og hvorugur stundað búskap meira en hinn. Við hinar kosningarnar var efsti maðurinn hv. 5. landsk., sem hér má sjá og er rótgróinn Reykvíkingur, sem hefir alið hér aldur sinn frá því hann tók til starfa í lífinu. Það benda ýmsar ástæður til þess, að það er erfitt að ganga alveg framhjá kaupstöðunum við þessar kosningar, jafnvel fyrir þann flokk, sem leitar nú einna helzt eftir atkvæðum hjá bændastéttinni. Um slíkt er ekkert að fást. En það stendur fast, að sú hætta hefir ekki komið fyrir, að þeir menn væru settir á landslista, sem ekki nytu trausts kjósenda í landinu, og þá fyrst og fremst kjósenda, sem styðja þessa flokka. Það er því ástæðulaust að vera að gera sér grillur um, að þetta muni breytast, þótt landslistatilhöguninni sé haldið.