30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (4559)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Það er nú ekki mikill munur á till. okkar hv. 2. þm. Árn., en af því að við gerðum í n. hvor sína till., þá fannst okkur rétt, að það kæmi fram, og þá hlýtur mín till. að koma fyrr til atkv., af því að hún gengur lengra en hin. Í þessari till. er haldið sér að því, sem við framsóknarmenn lögðum til á þinginu í fyrra, aðeins sá munur, að þá var gert ráð fyrir, að Reykjavík hefði 8 fulltrúa og ætti þá ekki aðgang að uppbótarsætum. En nú hefi ég lagt til, að Reykjavík hafi 7 fulltrúa og hafi rétt til uppbótarsæta. Breyt. er öll í þessu fólgin, og ef a-liður er felldur, þá eru hinir liðirnir fallnir þar með.

Alveg gagnstætt hv. 1. landsk. lítum við margir framsóknarmenn þannig á, að það sé ekki ástæða til að fjölga þm. meira en upp í 45. Það svaraði nokkurnveginn til fólksfjölgunar, sem orðið hefir síðan 1920, þegar fjölgað var þm. um 2. Með þessari till. mun nokkurn veginn vera séð fyrir jafnrétti milli flokka og stefna, sem eru í landinu. Við, sem stöndum að þessari till., álítum, að af frv. eins og það er samþ. í Nd. verði óþarflega miklar breyt. og það sé ekki aðeins ástæðulaust að ganga svona langt, heldur geti það líka verið hættulegt, að það verði óþarflega miklar byltingar og straumhvörf í þjóðlífinu. Og það sannast, ef frv. er samþ. eins og það er nú, að þá er þungamiðja hins pólitíska valds komin í annan stað en verið hefir frá því að endurreisn Alþingis byrjaði.

Ef þessi till. mín verður felld og till. hv. 2. þm. Árn., þá mun ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. með frv., en ég mun heldur ekki greiða atkv. móti því, af því að mikill meiri hl. framsóknarmanna hefir tekið þá ákvörðun að vera með því, og ég vil ekki greiða atkv. móti því, sem meiri hl. framsóknarmanna hefir gengið inn á.