30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2829 í B-deild Alþingistíðinda. (4562)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Ég ætla að vísa til þess, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls hér í deildinni, að ég mun samþ. frv. óbreytt eins og það kom frá Nd. Við það hefi ég engu að bæta, og er ég sammála meiri hl. stjskrn. um að samþ. frv. óbreytt eins og það nú liggur fyrir, og mun því greiða atkv. á móti öllum brtt.

Hv. 5. landsk. og hv. 2. þm. Árn. koma með till. um að lækka tölu uppbótarsæta, sem mundi eingöngu verða til þess að auka misréttið frá því, sem er í stjskrfrv. Við vorum búnir að ræða þetta í n. og þar búið að taka ákvörðun um þessar till., eins og hv. frsm. meiri hl. skýrði frá.

Hv. 2. þm. Árn. óttaðist það, að ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt eins og það nú liggur fyrir um heimild flokkanna til að fá uppbótarsæti, þá mundi flokkunum fjölga eða fleiri þeirra ná sæti á þingi, sem hann kvað, að mundi valda ruglingi. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm., að því fleiri sem flokkarnir eru, því meiri verður ruglingurinn. En það er misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að með jöfnunarsætunum og jöfnuninni milli flokkanna mundi þessi ruglingur aukast frekar heldur en með núv. ástandi. Það er miklu frekar, að núv. ástand mundi skapa þá flokka, sem vilja gera byltingu, því að þá hafa þeir meira tækifæri til að sýna fram á, hversu ranglátt sé, að meiri hl. þings haldi réttinum fyrir meiri hl. kjósenda í landinu, svo það eru líkur til, að þeir flokkar, sem lengst vilja ganga og vilja beita ofbeldi, mundu frekar fá byr undir seglin, því að þá mætti með nokkrum rétti segja, að þingið vildi ekki unna kjósendunum sjálfsagðs réttar. Þó að sleppt sé þeirri röksemdafærslu hv. þm. og gengið inn á það með honum, að flokkunum fjölgi með því skipulagi á uppbótarsætunum, sem gert er ráð fyrir í frv., þá má benda á dæmi frá útlöndum, að þar geta flokkarnir verið nógu margir, þó að hafðar séu kjördæmakosningar. Ég vil benda hv. þm. á, að í Frakklandi er mjög úrelt kosningafyrirkomulag, flestir þingmenn kosnir í kjördæmum, og þar eru nógu margir flokkarnir þrátt fyrir það. Svo að þetta er ekki nein algild regla, og það er ekki hægt að benda á neitt land, sem með kosningafyrirkomulagi hafi komið í veg fyrir fjölgun flokka.

Hv. 3. landsk. hefir borið fram brtt. um landslistana og fyrirkomulag þeirra. Í fljótu bili virðist þetta ekki mikil breyting, enda hugsa ég, að hv. 3. landsk. hugsi helzt um að fá einhverjar breytingar á stjórnarskrárfrv. hér í d. og honum sé nærri því sama, hver hún er, ef það gæti orðið til þess að tefja málið. (JónJ: Þetta er alrangt). En þessar till. hans eru þannig útlits frá hans hendi, að hann ætlar að tryggja héruðunum úti um land meiri ítök um skipun þingsins. En ég held, að honum sé ómögulegt að útfæra þetta. Það, sem hann ætlar að gera, er að koma í veg fyrir það, að flokksstjórnirnar geti ráðið eingöngu um, hverjir séu á landslista. Það er byggt á því, að eftir frv. á flokksstjórnin að gangast fyrir um valið á landslista fyrir flokkinn. Við skulum segja, að samskonar ákvæði væru í lögunum um framboðsfrest eins og nú, sem er 4 vikur á undan kjördegi, þá er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að landslistinn hafi sama frest, en það er ómögulegt eftir till. hv. 3. landsk., því að samkvæmt þeim falla frambjóðendur flokksins í kjördæmunum „automatiskt“ inn á landslista flokksins, og því verður ekki hægt að búa hann út á venjulegan hátt. (JónJ: Þetta er tómur misskilningur). Nei, það er ekki misskilningur, því að það getur eftir hans till. vel komizt að maður í trássi við flokk og flokksstjórn. Ég hygg, að það, sem vakir fyrir hv. þm., sé eitthvað alveg persónulegt, að það sé einhver þm. í hans flokki, sem sé svo illa þokkaður, að hann búist ekki við, að flokksstjórnin samþ. framboð hans, að hann geti þá troðið sér inn á landslista þvert á móti vilja miðstjórnar flokks síns. En samkv. frv. er flokksstjórnunum gefið umboð til þess að ráða því, hverjir séu settir á landslista, enda er það í fullu samræmi við það, að flokksstjórnir hafa á bak við sig meiri hl. kjósenda flokksins og hafa rétt til þess að fara með málefni flokks, og þá m. a. að ráða því, hverjir eru frambjóðendur flokksins við kosningar til Alþingis. En þetta er af því, að hv. 3. landsk. er í andstöðu við sinn flokk, en hann trúir því ekki, að flokksstjórnir yfirleitt mundu skipa mönnum svo í sæti, að það væri ekki flokkunum fyrir beztu. Það getur verið svo um hans flokksstjórn, en ég hefi ekki ástæðu til að ætla, að flokksstjórnir mundu ekki fara eftir vilja kjósenda í landinu, sem þeim flokki fylgja.

Ég mun því greiða atkv. á móti till. hv. 3. landsk.; þær gera fyrirkomulagið miklu flóknara heldur en er eftir frv. Þar er ákveðið, að flokksstjórnir gangi frá landslistunum, og þeir eiga að koma fram samtímis framboðum í kjördæmum.