30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (4564)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Torfason):

Maður heyrir það nú, að báðir hinir flokkarnir halda sér fast við töluna 49, svo fögur sem hún nú er. (BSn: 7 x 7 er heilög tala!). Ég kem nú að því bráðlega, hversu heilög hún er! Þversumman af 49 er talan 13. Hefir það lengi verið talin lítil happatala, en þó sérstaklega í þversummu, og ég býst frekar við því, að þeir Hitlingar, sem nýsprottnir eru upp hér, líti svo á, að 49 sé ekki sú tala, er endilega þyrfti að koma í þetta frv. Þeim mundi sjálfsagt falla talan 48 betur. Það eru fernar tylftir og er því þjóðleg og skemmtileg tala fyrir okkur Íslendinga, og þversumman af þeirri tölu er ein tylft. Þó má vera, að einhverjir séu skotnir í tölunni 49 vegna sögu eftir eitt af okkar forngildu skáldum, er byrjar svo: „Sjö sinnum sjö eru fjörutíu og níu, sagði Hallur í Skollafit. Varaðu þig, maður, á að syndga!“ Ætti þessi saga helzt að halda uppi helgi tölunnar hér á landi. Ég veit ekki, hvort hv. þm. eru skotnir í tölunni 46. Það er þó falleg tala. Og þversumman af 46 er 10. Það er líka falleg tala. Og lagaboðorðin, sem gefin voru og öllum er skylt að halda, voru líka 10. Og sú tala er áminning til þm. um að hafa jafnan lögmálið í huga sér og forðast að brjóta boðorð þess.

2. landsk. þm. hefi ég ekki mörgu að svara. Hann taldi það helzt máli sínu til stuðnings, að óánægja mundi verða hjá minni flokkunum, ef tölu þm. væri fækkað. Ég hefi nú bent til þess í mínum till., að þm. yrði fjölgað hér í Rvík, og hefi ég engrar óánægju orðið var út af því, enda hafa þeir hingað til þótzt hafa of fáa þm. Mér er líka til efs, þótt Reykvíkingar séu góðir menn, að þeir vilji mikið berjast fyrir réttlætinu, ef þeir fá enga hlutdeild í því sjálfir. Öðru þarf ég ekki að svara þeim hv. þm.

Þá vil ég svara hv. 1. landsk. nokkrum orðum. Hann fann að því, að ég vitnaði í það skipulag, sem Frakkar gerðu hjá sér 1871. Frakkar eru nú frjálslyndir menn og hafa meiri reynslu um stjórnarfyrirkomulag en nokkur önnur þjóð. Og þeir hafa haldið í það. Af ýmsum ástæðum vildu þeir þó fara að breyta þessu fyrir nokkrum árum. En öldungaráð þingsins þar drap það með hörðum höndum og rak þá stjórn frá, er bar það fram. Halda þeir nú enn í dag fast við þetta fyrirkomulag. Frakkar eru skynsamir menn, sem halda fast í það fyrirkomulag, sem þeir telja þjóðinni hagfellt. Kvenfólkið hefir þar enn eigi kosningarrétt. Og það er blátt áfram af því, að kvenfólkið í Frakklandi er langsamlega í höndum kaþólsku klerkanna, en það er ekki talið þjóðinni hollt, að áhrif þeirra aukist þar í landi.

Þá vildi hv. 1. landsk. rengja það, er ég sagði frá Þýzkalandi. En eigi að síður er það þó rétt. Það, sem ég tók upp, á sér stað í ríkinu Anholt. Ef jafn kosningarréttur ætti sér stað í Þýzkalandi, þá mundu Prússar ráða öllu. Hin ríkin ekki neinu. — Það lítur út fyrir, að hv. 1. landsk. hafi ekki lesið jafnnákvæmlega um þetta efni og ég hefi gert.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að Framsfl. væri bundinn við töluna 49 —eða 48, eins og ég vil skýra það. Það getur vel verið, að eitthvert samkomulag hafi orðið um þetta milli ráðamanna flokkanna, en mér er þó óhætt að segja, að í Framsfl. samþ. hver og einn þetta með sínum skilningi. Og ég hygg, að stór meiri hl. hafi samþ. þetta með þeim skilningi, er ég hefi lýst. Það stendur líka, að þingsæti skuli vera í sem fyllstu samræmi við kjósendatölur flokkanna eftir almennar kosningar. Þetta sýnir frekar, að minn skilningur er réttur. Ef hv. 1. landsk. ætti að geta tekið sér þetta ákvæði til inntekta, þá hefði þurft að standa „fullu“ samræmi. En svo er ekki. Þetta ber líka að skilja í samræmi við orðin allt að. Það er skilgreint fyrr, hitt kemur á eftir. Þetta ákvæði ber að skilja innan þess ramma, sem ákveðinn verður. Ennfremur má minna á það, að hér er um nauðasamninga að ræða. Eins og menn vita, ber að skoða samninga á ýmsa lund, eftir því hvers eðlis þeir eru. Gjafasamninga t. d. öðruvísi en kaupsamninga. Og í nauðasamningi ber ekki að skoða, að annað og meira felist en það, sem sá, er til samningsins var neyddur, vildi útþrykkilega af hendi láta.

Ég hefi nú gert grein fyrir þessu máli, og tel ég mínar skoðanir réttari en hv. 1. landsk. og miklu hollari fyrir þjóðskipulagið í framtíðinni. Ég hefi haldið mér við frv. í því, sem ég hefi sagt. Ég sé enga ástæðu til að vaða elginn um alla heima og geyma né fara út í eldri atburði. — Því var baunað á mig, að ég hefði áður sagt, að Reykjavík ætti að fá 1 þm. Ég stend við það. Og í grg. minni við brtt. mátti sjá með athugun, að ég er ekki neitt fjarri þeirri skoðun enn í dag. En orð mín má vitanlega ekki taka út úr því samhengi, er þau stóðu í. En þá átti heldur ekkert annað kjördæmi að fá meira en 1 þm. Að þessu er vikið í nál. mínu. Ég skal ekkert liggja á því, að ég tel betra, að hvert kjördæmi hafi 1 þm. og taki sem uppbótarsæti það, sem sparast af þingsætum með því. En út í þá sálma fer ég ekki, heldur mun ég halda mér við frv. sjálft og brtt. mínar. Þær eru engin yfirlýsing um, að ég sé ánægður með frv., þótt þær yrðu samþ. Þær eru aðeins tilraun til að sníða af því helztu ágallana.

Ég hefi ekki minnzt á brtt. við 4. gr., um að breyta „fjárráður“, sem er ófagurt orð, í „fjár síns ráðandi“. Í næstu mgr. stendur „fjár síns ráðandi“. Í gömlu stjskr. er þetta eins á báðum stöðunum, en bögubósi sá, er komið hefir með þessa breyt., hefir ekki gætt þess, að hafa þetta eins á báðum stöðum. Ég býst við að þetta verði lagað, svo framarlega sem málið fer til Nd.

Ég vil ljúka máli mínu á því, að ég álít ekki eins og hv. 1. landsk., að tala uppbótarsæta sé ónóg í frv., heldur sé hún ofnóg.