30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (4565)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Hv. 2. landsk. var að eigna mér óhreinar hvatir með brtt. mínum og taldi þær jafnvel vera komnar fram af yfirdrepsskap til að drepa málið. Þetta eru ósæmilegar getsakir. Ég hefi áður lýst yfir því, að ég fylgdi málinu, ef ég fengi þessar leiðréttingar, þótt ég teldi frv. hinsvegar engan veginn alfullkomið verk og áliti, eins og hv. 2. þm. Árn. og jafnvel hv. 1. landsk., að þingmannatala væri allt of há.

En þetta mái hefir svo mjög orðið öðrum málum til trafala og tafið þingstörf, að nauðsyn ber til að fá það út úr veröldinni sem fyrst. En ég vil, að sú lausn verði þannig, að ekki séu líkur til, að farið verði að grauta í málinu á nýjan leik eftir stuttan tíma. En mér hefir heyrzt það hljóð vera í sumum blöðum og flokksforingjum, að við slíku megi búast. Ég gæti þannig vel trúað hv. 2. landsk. til að taka upp baráttu fyrir því, að gera allt landið að einu kjördæmi. En ég ætla, að ef mínar brtt. ná fram að ganga, verði bið á þessum breytingum.

Hv. 2. landsk. sagði, að brtt. mín um landslistann væri óframkvæmanleg. Galdurinn er þó ekki annar en sá, að framboð séu ákveðin í kjördæmum áður en landslisti er lagður fram, og virðist ekkert athugavert við það, þótt flokkarnir séu vandir á að draga ekki framboð í kjördæmunum alveg fram á síðasta dag. Og ég get á engan hátt séð, að það sé flókið, að allir frambjóðendur flokks við óhlutbundnar kosningar séu á lista. (JBald: Eftir hvaða röð?). Það á að haga þessu í samræmi við venjulegar reglur hlutfallskosninga. Ég veit ekki betur en að svo sé ákveðið við venjulegt landskjör, að ef maður, sem er neðar á lista, fær fleiri atkv. eftir þeim útreikningi, sem þar er viðhafður, en annar, sem ofar er, þá taki sá maður sætið.

Þá þótti honum undarlegt, að þingflokkar skyldu eiga að hafa yfir landslistanum að segja, en ekki t. d. flokksstjórnirnar. En þetta er ekkert undarlegt, því að þetta miðar að því að draga úr ofurvaldi Rvíkur gagnvart sveitunum, en í Rvík eiga flokksstjórnirnar jafnaðarlega sæti. Mín till. miðar því að því, að vilji kjósenda úti um land fái notið sín.

Hv. 2. landsk. var að tala um, að brtt. væru ekki í samræmi við till. þeirra hv. 5. landsk. og hv. 2. þm. Árn. Þetta skiptir nú litlu í sjálfu sér, því að aðalatriðið fyrir mér er að styðja rétt mál, en þegar betur er að gætt, er ósamræmið ekki svo mikið á milli mín og þeirra. Allar brtt. ganga í þá átt, að draga úr ofurvaldi Rvíkur yfir þeim þingsætum, sem hún raunverulega getur ráðið yfir eftir frv.

Hv. 1. landsk. sagði, að það hefði sýnt sig á brtt. hv. 2. þm. Árn., að Reykvíkingar hefðu haft meira en lítil áhrif á hann í seinni tíð. Ég ætla, að hv. 2. þm. Árn. sé nú fastari fyrir á svellinu en margur annar. En hitt dylst engum, að Reykvíkingar hafa betra tækifæri en nokkrir aðrir til að túlka mál sín hér á þingi. Það þarf ekki að vera neitt ljótt við þetta, né ógnanir öfgaflokka til að hafa áhrif á þingið. Þetta eru forréttindi, sem aðstaðan skapar Reykvíkingum.

Það mun sannast, að ef upp verður tekin sú skipun uppbótarsæta, sem frv. leggur til, að Reykjavík hefir bæði tögl og hagldir, og slíkt gæti leitt til þess, að kjördæmaskipulaginu yrði gerbreytt innan skamms tíma. Ég vil gera mitt ýtrasta til að bjarga því, að svo verði ekki, og tryggja rétt kjósenda úr öllum flokkum úti um byggðir landsins.