02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (4573)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég vil aðeins leyfa mér að skýra frá því, að þar sem stjskrn. hafði ekki haft tækifæri við 2. umr. til þess að taka afstöðu til brtt., sem fram var komin frá hv. 3. landsk. á þskj. 861, þá kom n. nú saman, og tveir nm., hv. 2. landsk. og ég, höldum fram frv. óbreyttu. Einn nm. aftur á móti áskildi sér óbundnar hendur, ef svo sýndist, að greiða atkv. með þessari brtt. nokkuð breyttri, og tveir nm. tóku ekki afstöðu. Þetta hefi ég að segja frá n. hálfu; en frá mínu eigin brjósti vildi ég bæta því við, að ég teldi fara mjög illa á því, ef d. færi nú að gera breyt. á stjskrfrv. Það er búið að gera það kunnugt út um allt land fyrir nokkru síðan, að það hafi orðið samkomulag um að afgr. málið í þeirri mynd, sem það kom í til þessarar hv. d. Ég geri ráð fyrir, að mönnum veitist erfitt að skilja það, vegna hvers málið hafi verið dregið fram á allt að síðustu dögum þingsins, ef meiningin væri nú að fara að fitja upp á nýjum breyt. á frv. Fyrir mitt leyti lít ég svo á, að hið raunverulega fylgi þessa máls í Nd. hafi ekki verið og sé kannske ekki ennþá svo tryggt, að þeir menn, sem hafa komið sér saman um að styðja að framgangi þess, geti verið öldungis öruggir um, að það takist, ef á að fara að gera breyt á frv., svo að það fari aftur til hv. Nd. Það væri a. m. k. hugsanlegt, að sú d. vildi einnig fara að gera nýjar breyt. á frv., og það kynni að vera einhver, sem teldi sig ekki lengur bundinn við það samkomulag, sem einu sinni er búið að gera, þegar búið væri að víkja frá því með atkvgr. hér í hv. d. Ég veit ekki, hvernig forlög þessa máls verða, ef því yrði enn á ný breytt í hv. Nd., þó að þingið að sjálfsögðu yrði látið halda áfram þangað til úr því yrði skorið, hvort málið næði samþykki beggja d. Ég vil þess vegna fyrir mitt leyti leggja sem mesta áherzlu á það, að þessi — ég vil segja mjög óverulega efnisbreyt., sem brtt. hv. 3. landsk. felur í sér, sé ekki látin verða til þess að stofna málinu í neina tvísýnu, og ekki heldur — satt að segja — til þess að vekja það leiðinlega álit í landinu, að þó að allir flokkar þingsins lýsi því yfir, að þeir séu búnir að koma sér saman um eitthvað, þá sé ekki mikið mark á því takandi.