02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (4574)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að hvenær sem samningar eða samkomulag er gert um afgreiðslu þingmála, þá séu það aðalatriðin, sem samningarnir eru gerðir um, en þar að auki eru aukaatriði, sem einum getur sýnzt annað um en hinum. Nú vill svo til, að þegar samkomulag hafði verið fengið í stjskrn. Nd., kom það í ljós, að þrátt fyrir það, þó að nefndarmenn allra flokka væru sammála um afgreiðslu málsins, þá kom mjög snörp andstaða gegn einstökum atriðum í þeim breyt., sem n. vildi gera á frv. Málið gekk samt fram í Nd. eins og n. hafði lagt til, en þessi sami ágreiningur hefir nú komið fram í Ed., og hann kemur fram í brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 861. Við 2. umr. þessa máls, þegar þessi brtt. kom fram, fór ég fram á það við flm. hennar, að hann tæki hana aftur til 3. umr., til þess að athuga hana nánar. Mér virtist strax við fyrstu athugun, að þar væri í raun og veru ekki um neina verulega efnisbreyt. að ræða — ekki neinar þær breyt. á frv., sem gætu valdið því, að það gæti tafið eða hindrað framgang málsins. Hv. 3. landsk. hefir nú gert grein fyrir þessari breyt., sem hann vill gera á ákvæðum frv. En þar sem nú er nokkuð um liðið síðan hann gerði það, þá vil ég leyfa mér með fáum orðum að gera grein fyrir, í hverju breytingarnar eru fólgnar.

Breytingarnar eru við c-lið 1. gr. frv. eins og það kom frá Nd., og eru á þá leið, að breytt verður 2. til 4. málsl. þessa stafliðs. Þeir málsliðir hljóða svo í frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði þá kjósendur atkvæði annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista. Frambjóðendur þess flokks, sem landslista hefir í kjöri og nær jöfnunarþingsæti, taka sæti eftir þeirri röð, sem þeir eru í á listanum að lokinni kosningu. Skal a. m. k. annaðhvert sæti tíu efstu manna á landslista skipað frambjóðendum flokksins í kjördæmum utan Rvíkur“.

En samkv. till. hv. 3. landsk. eiga þessir málsliðir greinarinnar að hljóða svo: „Heimilt er þingflokki að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar í þeim kjördæmum, sem hann hefir ekki frambjóðendur.

Á landslista skulu allir frambjóðendur flokksins við óhlutbundnar kosningar eiga sæti sem efstu menn listans.

Þingflokkar hljóta jöfnunarþingsæti í hlutfalli við samanlagða atkvæðatölu þeirra við kjördæmakosningar og á landslista. Frambjóðendur við óhlutbundnar kosningar, sem ekki hafa náð kosningu í sínu kjördæmi, taka fyrstir jöfnunarþingsæti, í samræmi við venjulegar reglur hlutfallskosninga“.

Hér er breytingin sú, að í staðinn fyrir, að í frv. segir: „Heimilt er flokki að hafa landslista í kjöri“, segir í brtt.: Heimilt er þingflokki að hafa landslista í kjöri“. Þetta má telja, ef til vill, nokkra efnisbreyt., vegna þess að þeir nýir flokkar, sem kynnu að koma fram við kosningar, hafa samkv. þessu ekki rétt til að hafa landslista í kjöri. En í raun og veru er þetta í samræmi við það ákvæði frv., að þingflokkar einir geti fengið jöfnunarsæti, svo að efnisbreytingin verður ekki veruleg. Hinsvegar getur þetta ekki að mínu viti á nokkurn hátt raskað því samkomulagi, sem varð á milli flokkanna í Nd., vegna þess að efnisbreytingin skerðir ekki á nokkurn hátt þeirra aðstöðu við kosningu, því að þeir hafa sem þingflokkar alveg sama rétt, þó að þessi breyt. sé gerð. Hinsvegar vil ég benda á það, að frá sjónarmiði sjálfstæðismanna — og raunar jafnaðarmanna líka — er einn höfuðókostur á frv. eins og það liggur fyrir og samkomulag náðist um. Hann er sá, að uppbótarsætin eru takmörkuð, og þar af leiðir það, að með stofnun nýrra flokka er hægt að gera þessi uppbótarsæti svo og svo lítilfjörleg. Ef nýir flokkar myndast og fá síðar rétt til uppbótarsæta sem þingflokkar, verður það til þess að uppbótarsætin dreifast, og flokkarnir, sem eiga að njóta uppbótarsætanna, verða miklu verr úti, jafnvel svo, að uppbótarsætin geti verið þeim einskis virði. Þetta er margendurtekið sem aðfinnsla af hálfu sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna, og er ekki þörf á að útlista það nánar, hve mikilvægir gallar okkur þykir vera á þessu bráðabirgðafyrirkomulagi, sem þó hefir orðið samkomulag um. Ég sé þess vegna ekki betur en við megum fagna hverri breyt., sem fer í þá átt, að meiri líkur séu fyrir, að uppbótarsætin komi flokkunum betur að notum. Ég get ekki betur séð en að allir landsmenn geti rúmazt í þeim flokkum, sem nú eiga sæti á Alþingi. Ég held, að flokkarnir séu nógu margir og að ekki sé ástæða til að ýta undir fjölgun þeirra.

Það er margyfirlýst af hálfu sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna, að þeir telji, að hér sé ekki um neina úrslitalausn á stjórnarskrármálinu að ræða, heldur verði að halda áfram að keppa að því marki að fá fullkomið jafnrétti milli flokka og kjósenda í landinu. Þess vegna tel ég í raun og veru, að þessi breyt. hv. 3. landsk. sé tvímælalaust til bóta, það sem hún nær, að því leyti, sem hún tryggir frekar, að sú uppbót, sem gert er ráð fyrir í frv., komi flokkunum betur að notum heldur en annars gæti orðið.

Þá er önnur breyt. hv. 3. landsk. sú, að í stað þess, að í frv. eins og það kom frá Nd. er svo ákveðið, að á landslista skuli annaðhvert sæti skipað frambjóðendum í kjördæmi, en hv. 3. landsk. vill breyta því þannig, að á landslista skuli allir frambjóðendur flokksins við óhlutbundnar kosningar eiga sæti sem efstu menn listans. Þetta, að svo er ákveðið, að allir frambjóðendur flokksins skuli taka sæti á landslista, í stað þess að í frv. er svo ákveðið, að annaðhvert sæti skuli skipað þannig, virðist mér ekki geta haft neina praktiska þýðingu, því að í framkvæmdinni mun það verða svo, að flokkarnir setja á landslista þá menn, sem verða í framboði úti um land, í kjördæmi, þar sem þeir hafa litlar líkur til þess að fá þingmann við kosningu. Þetta er eðlileg ráðstöfun, enda var því haldið fram í deilum um þetta atriði við 2. umr. þessa máls, að þetta atriði mundi ekki hafa verulega þýðingu af þessari ástæðu. Þess vegna get ég ekki gert neitt úr þessari breyt., eða ekki séð, að hún geti valdið því á nokkurn hátt, að menn geti ekki eins sætt sig við frv., þó að þessi breyt. verði gerð. Hinsvegar skal ég lýsa því yfir, að ég tel æskilegra, að breytingin yrði þannig, að á landslistanum yrðu allir aðalframbjóðendur flokksins við kosningar. Eins og það er í brtt. hv. 3. landsk., þá er það bundið við frambjóðendur við óhlutbundnar kosningar, þ. e. a. s. frambjóðendur í kjördæmum utan Reykjavíkur. En ég tel óheppilegt að gera þennan greinarmun og tel réttara, að þar komi allir aðalframbjóðendur flokksins til greina. En hitt er eðlilegt, að varaframbjóðendur komi ekki til greina á landslista. Mér láðist í sambandi við fyrri málsgr. þessarar till. að geta þess, að í henni felst sú breyt., að í stað þess, sem er í frv., að flokkar mega hafa landslista og jafnframt frambjóðanda í hverju einstöku kjördæmi, þá er brtt. hv. 3. landsk. á þá leið, að þetta skuli heimilt í þeim kjördæmum, sem flokkurinn hefir ekki sérstaka frambjóðendur í. Þetta virðist mér ekki skipta miklu máli; það má jafnvel um það deila, hvort það sé ekki einmitt óheppilegt að heimila að hafa bæði frambjóðendur og landslista í kjördæmi. Það mun fremur vera til þess að rugla kosningu. Og þar að auki getur það ráðið úrslitum kosninga, þannig að flokkurinn, sem er í minni hluta, hljóti sæti.

Síðasta málsgr. brtt. hv. 3. landsk. er þannig, „að þingflokkar hljóta jöfnunarsæti í hlutfalli við samanlagða atkvæðatölu þeirra“. Þetta er sama ákvæði og mér skilst vera í frv., og niðurlagið er líka shlj. efninu í frv., því að þar er ákveðið, að „frambjóðendur við óhlutbundnar kosningar taki fyrst sæti á landslista“. Þetta leiðir af sjálfu sér, ef þeir eru efstu menn á landslista, þá taka þeir auðvitað fyrstir sæti sem uppbótarþingmenn af þeim, sem á listunum eru, í samræmi við reglur um hlutfallskosningu. Það er ekki neinn munur á hví ákvæði í frv. og þessu í brtt., annar en sá, að í frv. er sagt, að allir frambjóðendur eigi að vera í kjöri á landslista, en þeir ná kosningu vitanlega eftir sömu reglu í báðum tilfellunum. En ég teldi réttara að orða síðari málsl. þannig: „Frambjóðendur á landslista taka jöfnunarsæti í samræmi við reglur um hlutfallskosningu“. Það er miklu einfaldara og veldur síður misskilningi. Ég veit ekki, hvort það kann að hafa vakað fyrir mönnum, að þetta orðalag gæti valdið því, að það mætti gera breytingar á landslista, þannig að tilflutningur á lista hefði ekki áhrif á niðurstöðu kosninga. En eins og það er orðað í brtt., þá er það ekkert vafamál, að slíkur tilflutningur gildir jafnt, hvort orðalagið sem haft er á þessu. Ég hefi því ekki getað séð, að í þeim breyt., sem felast í brtt. hv. 3. landsk., séu nein þau atriði, sem geta gert það að verkum, að líkur séu til, að hleypi málinu í strand. Hinsvegar geri ég ráð fyrir að bera fram skrifl. brtt., sem ég vænti, að hv. d. leyfi að koma til atkv. Ég nefndi þetta brtt., en ég hefi þetta sennilega sem varatill. við brtt. hv. 3. landsk., ef hún nær ekki samþykki, og kemur þá fyrst til atkv., ef brtt. hv. 3. landsk. fellur. Þessi brtt. er á þá leið, að þeir málsliðir, sem þar um ræðir, orðist þannig:

„Heimilt er þingflokki að hafa landslista í kjöri í þeim kjördæmum, sem hann hefir ekki frambjóðendur í.

Á landslista skulu eiga sæti allir aðalframbjóðendur flokksins sem efstu menn listans.

Þingflokkar hljóta jöfnunarsæti í hlutfalli við samanlagða atkvæðatölu þeirra við kjördæmakosningar og á landslista. Frambjóðendur á landslista taka jöfnunarþingsæti í samræmi við venjulegar reglur hlutfallskosninga“.

Ég hefi svo ekki meira að segja að svo stöddu, en mun hlusta á það, sem menn hafa við þessar till. að athuga, og meta þau rök, sem fram verða borin, og áskil mér rétt til að svara þeim.