02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2851 í B-deild Alþingistíðinda. (4580)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Þar sem nú er farið að ræða af alefli brtt. frá einum þremur þm. í þessari deild, sem ég hélt þó, að bundnir hefðu verið við það samkomulag, sem gert var, svo sem allir aðrir, þá vil ég taka það fram, að það er margt í frv., sem ég hefði fremur kosið að hreyta. En ástæðan til þess, að ég flyt engar brtt. um það, sem ég þó gæti óskað að væri breytt, er sú, að ég taldi mig bundinn við að fylgja því fram óbreyttu, sem samkomulag hafði fengizt um. Ég hefði þó sannarlega ástæðu til þess að koma fram með till. til breyt., og það miklu veigameiri efnisbreyt. en þær, sem hér er rætt aðallega um, svo sem um að nema í burt ákvæðið, er fyrirbyggir það, að hlutfallskosningar megi fram fara í tvímenningskjördæmum. Það er ákvæði, sem nálgast það, sem á öðrum sviðum er kallað óhlutvendni. En ég hefi þó eigi gert það, vegna þess, eins og ég áður sagði, að ég tel mig bundinn við það samkomulag, sem var gert. Ég hefi enn ekki gert þær brtt., sem fyrir liggja, sérstaklega að umtalsefni. En fyrst út í þær umr. hefir verið farið, þá vil ég benda á, að það er rétt, sem hv. 2. landsk. sagði, að á þeirri stundu, er semja skal landslista samkv. brtt., er enginn þingflokkur til. Þann lista er ekki hægt að semja fyrr en kunn eru úrslit kosninga í kjördæmum. En eftir þeirri venju, sem hefir ríkt, er á þeirri stundu enginn þm. með umboði, og þá heldur enginn þingflokkur. Í uppástungum þeim, sem fram hafa komið um að binda réttindi til jöfnunarsæta við þingflokka, byggist það á því, að ákvörðun um úthlutun jöfnunarsætanna kemur ekki til framkvæmda fyrr en eftir að talning hefir farið fram um kosningar í kjördæmunum. Og þeir flokkar einir, sem hafa fengið mann kosinn, hafa réttindi til að hafa landslista. Ég hygg, að ekki sé hægt að víkja því þannig við, ef frv. verður samþ. óbreytt, að eftir ákvæðum þess sé hægt að vita, áður en gengið er að kjörborði, hvort eitthvert kjördæmi geti haft landslista í kjöri.

Ég veit heldur ekki, hvað menn kunna nú að segja um það ákvæði, að á landslista skuli „allir frambjóðendur flokksins við óhlutbundnar kosningar eiga sæti sem efstu menn listans“. Ef t. d. Sjálfstfl. hefði 32 menn í kjöri í kjördæmum utan Reykjavíkur, þá veit ég ekki, hvað sá segði um framkvæmd þessa stjskr.ákvæðis gagnvart sér, sem neðstur yrði á listanum, þegar allir eiga að vera efstir. Þetta er að mínu áliti varhugavert ákvæði. Það er ekki eðlilegt að hafa nema 22 menn á lista, þegar kjósa á aðeins 11 þingmenn og 11 varamenn.

Hæstv. forsrh. fór nokkrum orðum um það samband á milli kjósenda og þeirra, sem væru á landslista, sem skapaðist með ákvæðum, sem þó ekki finnast meðal ákvæða frv. eins og það er nú. En ég vil vekja athygli hæstv. forsrh. á því, að þetta samband er ekki frekar skapað með ákvæðum frv. heldur en með núgildandi stjskr.-ákvæðum. Það hefir hingað til ekki þótt tiltækilegt að skapa annað samband á milli kjósenda og frambjóðenda en það, að hann þyrfti að hafa vissa tölu meðmælenda. Þetta er ekki einu sinni ákveðið í núgildandi stjskr. Ég skil ekki í því, að í stjskr. þyrfti neitt að ákveða um meðmælendur. Ég geng út frá því, að kosningalög gætu gert kröfu um slíka meðmælendur, ef nauðsyn þætti bera til, viðvíkjandi því að stilla mönnum á landslista, eins og verið hefir og sjálfsagt mun verða um kjördæmaframbjóðendur.

Þegar búið er að skipa á landslista eins og gert er ráð fyrir í frv., þá eiga allir, sem annars eiga rétt til að greiða þeim lista atkv., einnig að hafa rétt til þess að greiða þeim mönnum á listanum atkv. sitt, sem þeir vilja, og ráða þannig, í hvaða röð þeir kjósa frambjóðendurna. Með þessu er allt samband fengið á milli kjósenda og frambjóðanda: Fyrst ákveðin tala meðmælenda og síðan atkvæðafjöldi, sem kjósendur greiða frambjóðanda. Hitt er náttúrlega ekki unnt að fá, að atkv. þau, sem umfram verða frá kosningum í fólksflestu kjördæmunum, t. d. Reykjavík, og sem þess vegna eiga að koma flokknum til góða við úthlutun uppbótarsæta, verði frekar greidd landslista eftir till. hv. 3. landsk. heldur en eftir ákvæðum frv. Þau eru greidd öðrum mönnum en þeim, sem ná kosningu. — Um skipun sæta á lista eru ákvæði frv. skýr og eðlileg, en ákvæði brtt. hv. 3. landsk. því miður ekki.

Hv. 3. landsk. segist þora að fullyrða, að engin hætta sé á því, að frv. verði fyrir skemmdum í Nd., þótt breyt. yrðu gerðar í þá átt, sem hann fer hér fram á að verði samþ. En mér nægir sú yfirlýsing hans ekki, vegna þess, að ég veit, að hann mundi telja það umbætur á frv., sem ég tel skemmdir, og hefi ég fyllstu ástæðu til að segja það. Ég hygg, að honum mundi ekki finnast skemmd á frv., þótt jöfnunarsætum væri fækkað, en ég mundi telja það skemmd. Og það hefir orðið vart tilhneiginga í hv. Nd. í þá átt, svo að ég veit mig ekki neinar tryggingar hafa fyrir því, að hún sýni ekki um þetta mál samkvæmni við sjálfa sig, ef það kemst til hennar aftur.

Þess vegna vil ég, bæði með tilliti til efnis og frágangs þessara brtt. og þýðingar þeirra fyrir málið í heild, ráða eindregið frá því að samþ. þær.