03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2859 í B-deild Alþingistíðinda. (4591)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það hafa orðið allmiklar umr. um þetta mál og brtt. þær, sem fram hafa komið. Af samtölum milli þingmanna hefir það komið í ljós, að ýmsir telja það tæplega í samræmi við það samkomulag, sem áður hafði orðið, að nein af þeim brtt., sem fyrir liggja, verði samþ. Þó er mér ekki kunnugt um, hver verða úrslit þeirra tillagna. Í þeim eru atriði, sem ég tel mikils virði, en af samtölum við marga þm. hefi ég ástæðu til að ætla, að till. eins og ég nú vil bera fram skrifl., muni ekki mæta andúð þeirra flokka, sem hafa áður talað saman um þetta mál.

till., sem ég ætla að leyfa mér að bera fram, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„C-lið 1. gr. skal orða svo:

Allt að 11 þingmenn til jöfnunar millj þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Heimilt er þingflokki að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar í þeim kjördæmum, þar sem sá flokkur hefir ekki viðurkenndan frambjóðanda í kjöri. Skal að minnsta kosti annaðhvert sæti 10 efstu manna á landslista skipað frambjóðendum flokksins í kjördæmum utan Reykjavíkur. Frambjóðendur á landslista þess flokks, sem hefir landslista í kjöri og nær jöfnunarþingsætum, taka þau þingsæti eftir þeirri röð, sem þeir af þeim, er eigi hafa náð kosningu í kjördæmi, eru í á listanum að lokinni kosningu, eftir venjulegum reglum hlutfallskosninga, með de Hondts aðferð. Að öðru leyti fer um skipun jöfnunarþingsæta eftir kosningalögum. Jafnmargir varamenn skulu kosnir jöfnunarþingsætum samtímis og á sama hátt“.

Þær breyt., sem felast í þessari till. frá því, sem nú er í frv., eru þær, að í fyrri hluta þessarar till. eru nefndir „þingflokkar“ í staðinn fyrir í frv. eru nefndir „flokkar“, en það táknar það eitt, að þeir flokkar einir hafi rétt til að hafa landslista, sem koma að þingmanni í kjördæmi. Önnur breytingin er sú, að þar, sem flokkar hafa frambjóðendur, má ekki kjósa landslista flokksins. Landslista flokksins má aðeins kjósa í þeim kjördæmum, þar sem enginn viðurkenndur frambjóðandi er í kjöri fyrir viðkomandi flokk. Að öðru leyti eru ákvæðin óbreytt, hvernig á landslista skuli skipað, að þar skuli vera a. m. k. annarhver maður af frambjóðendum flokksins.

Ég ber þessa till. fram af því, að ég hefi ástæðu til að ætla, að það verði öllu meiri ánægja með afgreiðslu málsins, ef hún verður samþ. en ella. Um Nd. er mér það kunnugt, að þessi brtt. verður frv. ekki að fótakefli.