03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2866 í B-deild Alþingistíðinda. (4602)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Það eru ýmsar spurningar í sambandi við framkomnar brtt., sem þörf væri á að fá svarað, áður en gengið er til atkv. um þær, þar sem talsvert hefir verið um það deilt hér í umr., hvernig skilja bæri einstök atriði. Er það vitanlega stór galli á till., að menn skuli geta greint svo mjög á um það, hvað með þeim sé meint. Ég skal benda lauslega á nokkur atriði.

Það hefir verið á það bent af hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk., að ógreinilegt væri, hvað við væri átt með orðinu þingflokkur, þar sem enginn þm. er til á því tímabili, sem listinn skal ákveðast. Ég vildi gjarnan fá greinilega skýringu á því, hvað meint er með þessu.

Þá er annað, sem þessu er náskylt: Hvernig ber að líta á það, ef þingflokkur skiptir um nafn? Sá flokkur getur hafa átt menn á þingi. En er þá sá flokkur eftir nafnskiptin grundvöllur undir þeim rétti að koma fram með landslista? Æskilegt væri að fá skýringu á þessu atriði. Ég verð að aðhyllast skýringar hv. 1. og hv. 2. landsk. á því, að óviðkunnanlegt sé að tala um þingflokka meðan svo er ástatt, að fyrrv. þm. hafa verið leystir frá sínu umboði og nýir þm. ekki komnir í staðinn. Sá listi, sem þannig væri skipaður, yrði þá nokkurskonar draugalisti.

Þar sem eiginlega enginn þingflokkur er til á þeim sama tíma, sem þetta ákvæði stjórnarskrárinnar kemur til framkvæmda, þá vil ég spyrja hæstv. forsrh., í sambandi við brtt. hans, sem hann að vísu hefir tekið aftur, en hv. 2. þm. Eyf. hefir tekið upp, hvort hann meini með till., að einungis þeir flokkar, er fulltrúa áttu á því þingi, sem síðast starfaði, hafi rétt á að bjóða fram landslista, eða hvort allir þeir flokkar, sem frambjóðendur eiga í kjördæmum, kallast þingflokkar og öðlast þar með rétt til að hafa landslista. Við þessari spurningu væri gott að fá skýrt svar.

Nú eru til hér á landi tveir stjórnmálaflokkar, sem engan fulltrúa eiga á þingi. Annar sá flokkur hefir starfað nokkuð hér á landi. Hinn er nýr. Þótt ég að vísu á engan hátt vilji mæla með þessum flokkum, sem báðir eru öfgaflokkar, þá finnst mér samt eðlilegra, ef þeir hafa menn í kjöri í kjördæmum, að þeir öðlist við það einnig rétt til þess að hafa landslista. Og eins vil ég spyrja, hvort sá listi gefur rétt til, að þessir flokkar komi til greina við úthlutun uppbótarsæta, ef þeir skyldu nú engum koma að í kjördæmi. — Þetta og ýmislegt fleira í brtt. hæstv. forsrh. þyrfti nánari skýringar. Og þó tel ég brtt. hans miklu betri en till. hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. í þeirra till. eru ýmsir óvenjulegir hlutir. Þannig eru t. d. íhaldsmenn skyldir að hafa 38 menn á sínum landslista, ef þeir bjóða fram í öllum kjördæmum og óska að hafa landslista. Þó geta uppbótarþingsætin aldrei orðið fleiri en 11, og lítil líkindi til, að þeir hljóti þau öll. Þetta er andkannalegt. Ákvæði stjórnarskrárfrv. og brtt. hæstv. forsrh. eru þá betri, þó brtt. taki ekki nógu skýrt fram, hvað meint sé með orðinu þingflokkur. Hefði t. d. brtt. verið orðuð svo, að heimilt væri þingflokki, er fulltrúa hefði átt á Alþ. síðasta kjörtímabil, að hafa landslista o. s. frv., þá hefði ekki um neitt verið að villast. Ég segi ekki, að þetta sé betra, en þá hefði þetta ákvæði verið svo skýrt, að um það þurfti ekki að þrátta. En þótt þetta sé nú ekki skýrara, þá mundu þó yfirlýsingar till.manna bæta nokkuð úr. Þær mundu þó a. m. k. skýra, hvað fyrir þeim sjálfum vakir. Gæti að því verið stuðningur síðar, er samin verða kosningalög. Þess vegna óska ég svars.