03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (4605)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Magnússon:

Ég vil segja örfá orð, áður en atkv. verða greidd. Ég verð að segja það, að ég hefi aldrei heyrt meiri deilu um jafnlítið efni. Og það er undarlegt, að deila, sem er jafnótímabær og þessi, skuli hafa getað orðið svona löng og hörð, því það er mitt álit, að öll þau atriði, sem um er deilt, eigi ekki heima í stjórnarskrá, heldur í kosningalögum.

Fyrsta ágreiningsefnið er um heimild flokka til að hafa landslista í kjöri. Í frv. er flokkum gefin þessi heimild. Nú er um það deilt, hvort þetta skuli vera þingflokkur eða landsmálaflokkur. Ég fyrir mitt leyti hallast nú að því, að landsmálaflokkur sé sanngjarnara. En ég ætla þó ekki að rökstyðja þá skoðun mína í þetta sinn. En það er sýnilegt, að þetta ákvæði frv. verður að skýra nánar í kosningal., því vitanlega er ekki meiningin, að þetta ákvæði nái til allra „flokka“. Þeir flokkar, sem þessi heimild nær til, verða vitanlega að hafa landsmálastarf á stefnuskrá sinni. En nánari skilgreining á þessu verður að bíða kosningalaga.

Þá er næsta atriðið, sem um er deilt, það, hvort flokkar megi hafa landslista og frambjóðendur í sama kjördæmi, eða aðeins annaðhvort. Eftir frv. er frjálst að hafa hvorttveggja, en í öllum brtt. er sú heimild burt numin og ekki nema annaðhvort leyft. En um þetta atriði gildir alveg það sama og um hitt, að í kosningal. má kveða á um það eftir vild.

Hið þriðja, sem um er deilt, er það, hvort allir frambjóðendur þess flokks, sem hefir landslista í kjöri, skuli teknir á hann, eða því sé hagað eins og nú er ákveðið í frv. Mér finnst nú þetta ákvæði frv. hálfálappalegt og hefði helzt kosið að breyta því. En um þetta gildir þó alveg sama og hitt. Þetta má auðvitað ákveða nánar í kosningal. Í frv. er ráðgert, að „að minnsta kosti“ annaðhvert sæti 10 efstu manna á landslista skuli skipað frambjóðendum í kjördæmum utan Reykjavíkur. Það er því ekkert til fyrirstöðu, að í kosningalögum verði ákveðið, að svo og svo mörg efstu sætin séu skipuð frambjóðendum. Einnig sú deila er því ótímabær.

Ég þykist þá hafa leitt rök að því, að öll sú deila, sem um þessi atriði hefir staðið, sé ótímabær. Um þetta verður efalaust einhver ágreiningur, þegar kosningal. verða samin. En sú deila er óþörf nú. Þó ég líti nú svo á, að einstaka atriði mætti fara betur í frv., þá mun ég samt greiða atkv. gegn öllum brtt. Geri ég það af þeirri ástæðu, að samningar hafa þegar verið gerðir um þetta mál, eins og margsinnis hefir komið fram í umr. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég fal fulltrúa okkar sjálfstæðismanna fullt umboð til að gera þann samning og hefi því yfir engu að kvarta. Og þar sem greinilegt er, að breytingar á frv. munu leiða til þess, að ýmsir þm. telji sig óbundna við það samkomulag, sem gert var og allir flokkar gáfu samþykki sitt, og muni nota sér slíkar breyt. sem átyllu til að setja sig í andstöðu gegn frv., þá vil ég ekki eiga neitt á hættu með breytingum á frv. og greiði því atkv. á móti öllum brtt.