10.03.1933
Neðri deild: 21. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (4609)

83. mál, landamerki Borgarhrepps í Mýrasýslu

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. er flutt fyrir beiðni hreppsn. Borgarhrepps, og ástæðan til þess er sú, að það er þræta um afréttarlönd milli sveitanna Borgarhrepps og Stafholtstungnahrepps, þannig að nokkuð mikill hluti af afréttarlandi Borgarhrepps liggur innan lögsagnarumdæmis Stafholtstungnahrepps, en Borgarhreppur vill fá þessu breytt þannig, að þeir fái sín eigin afréttarlönd inn fyrir lögsagnarumdæmi þeirra sjálfra. En inn á milli Borgarhrepps og afréttarlands hreppsins liggur ofurlítil tunga, sem Stafholtstungnahreppi tilheyrir, og eftir því sem mér virðist, þá liggur það næst, ef um sölu á því landi væri að ræða, að Borgarhreppur fengi landið, til þess að rétta og lagfæra landamerkin milli þessara hreppa. Ég skal geta þess, að því hefir verið haldið nokkuð fast fram af hendi Stafholtstungnahrepps, að þeir vilja hvorki missa þessa litlu skák, sem þeir eiga, né missa afréttarland Borgarhrepps út úr sínu lögsagnarumdæmi. Ég skal geta þess, að mér hafa borizt umsagnir um málið, bæði frá Stafholtstungnahreppi og Norðurárdal, og ég býst við, að hlutverk n. verði aðallega það, að fá nokkurskonar sameiginlega niðurstöðu þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og ráða málinu til lykta á þeim grundvelli.

Ég mun leggja í hendur n. öll gögn, sem ég hefi, og treysti henni til að ráða þannig fram úr málinu, að öllum aðilum verði fyrir beztu og allir megi vel við una. Í því trausti legg ég málið fyrir þingið og óska þess, að því verði vísað til allshn.