20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (4632)

112. mál, fasteignamat

Sveinn Ólafsson:

Ég vil taka undir orð hæstv. fjmrh. um það, að hér er í raun og veru ekki um mikilvægan hagnað að ræða fyrir þá einstöku fasteignaeigendur, þó þetta frv. verði að lögum. Það er auðsæilegt, að með því að ósamræmi er töluvert mikið í þessu nýja fasteignamati, þá mundi það sízt jagast, þó að þetta frv. yrði að lögum. Ég hefi tekið eftir því, að t. d. leigujarðir í sveitum eru yfirleitt tiltölulega mjög lágt metnar. Vegna hvers mundi það svo vera? Það sjá allir, að eins og til hagar um matið og greiðslu fasteignaskatts, þá hafa þeir, sem á leigujörðum búa, hvöt til þess að gera það lítið úr kostum og afurðum jarðanna, sem minnst getur verið. Hinsvegar eru hreint ekki fá dæmi til þess, að jarðir, sem þarf að nota til veðsetningar, eru oft tiltölulega mjög hátt metnar og veðhæfi þeirra með því aukið. Ég kannast við það, að það sé frambærileg kreppuráðstöfun að lækka eitthvað fasteignaskattinn, segjum í 1- 2 ár, en að fara á þennan veg að fella tíunda hlutann undan skatti um 10 ára tímabil, finnst mér óþarft og ekki tilgangshæft, eftir því sem fram er komið og fyrir liggur í grg.

Ég vildi aðeins taka þetta fram áður en frv. fer til n. Vil ég fyrir mitt leyti stuðla að því, að það fái annan og betri búning í n., og yrði þessu þá hagað helzt á þann veg, að undan fasteignaskatti yrði felldur einhver hluti fasteignanna, t. d. næstu 2 árin, en ekki farið að eins og hér er ráðgert. Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að hv. n. gjaldi varhuga við miklu umróti matsins.