20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (4633)

112. mál, fasteignamat

Jón Auðunn Jónsson:

Það er sjálfsagt satt, sem hæstv. fjmrh. hélt fram, að það er ekki gott að skerða mikið tekjur ríkisins, en í mörgum tilfellum er þetta skattgjald óhæfilega hátt, vegna þess að matið er algerlega skakkt á mörgum húsum og jarðeignum.

Ég lít hér í fasteignamatsbókina. Það er verið að selja jörð fyrir vestan; hún er metin hér á 12600 kr. Það hefir verið reynt að selja hana fyrir 8500 kr., en ekki tekizt, og nú á að selja hana fyrir 7 þús. kr. Fyrir nálega allar jarðir í þeim 2 hreppum, sem ég hefi farið lauslega yfir, að tveimur undanteknum, mundi ekki vera hægt að fá það verð, sem þær eru metnar á í fasteignamatinu. Þetta er mikill skattur á stórum eignum. Við skulum taka t. d. eina jarðeign fyrir vestan, Æðey. Fasteignaskatturinn er 274,50 kr. Það er tilfinnanlegt fyrir bóndann að þurfa að svara þessu út, jafnvel þó að hann hafi talsvert miklar tekjur, af því hvað jörðin er góð, en hans jarðeign eins og annara hefir fallið í verði og hann græðir áreiðanlega ekki á búskapnum nú, eins og komið er.

Ég veit það líka, að það er farið svo nærri söluverði húsa t. d. í Ísafjarðarkaupstað, að þau seljast ekki fyrir mun hærra og mörg jafnvel fyrir lægra en matsverð. Það er kannske í Rvík og Hafnarfirði, sem vegna aðstöðunnar má gera ráð fyrir, að hús seljist fyrir eitthvað meira en matsverð, en ég hygg, að ef menn athuguðu fasteignamatið á sveitabýlum, þá sé það yfirleitt of hátt. Tökum t. d. eina jörð; helmingur hennar var seldur á síðastl. vori fyrir 2800 kr., en fasteignamatið var 8200 kr. Þetta sýnir, að það var allt of hátt. Náttúrlega kæmi í sama stað niður, þó að fært væri niður eitthvað af skattinum, ef n. þætti það að einhverju leyti heppilegra, það kæmi í sama stað fyrir aðilana. Ég vona, að þetta frv. fái að ganga til n., og þá kreppunefndar.