20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (4634)

112. mál, fasteignamat

Flm. (Magnús Jónsson):

Ég kannast fúslega við það, að hæstv. fjmrh. á náttúrlega úr vöndu að ráða, þegar slíkar kröfur eru uppi eins og nú, og mér dettur ekki í hug, að hægt sé að fara eftir þeim kröfum, þannig, að hægt sé að lækka allar tekjur ríkissjóðs, en hækka gjöld hans. Það er vitaskuld ekki fjarri því, þegar um þetta efni er að ræða, að rétt sé að taka í hvert skipti tillit til þess, hvort hjálpin komi ekki sanngjarnlega niður með því að létta á mönnum byrðinni. Mér finnst, að ekki megi setja upp neina ákveðna reglu um það fyrirfram, heldur verði að líta á það í hvert skipti, hvaða aðferð sé réttust.

Hæstv. ráðh. sagði, að fasteignamatið hefði verið mjög lágt. Það mun vera rétt, að fasteignamatið, sem gilti til 1. apríl 1932, var yfirleitt lágt; a. m. k. hér í Rvík var það töluvert undir því verði, sem hús annars gengu kaupum og sölum.

Ég vil leggja áherzlu á það, að það er ekki aðeins matið sjálft eins og það er, heldur líka breytingin á því, sem veldur mönnum erfiðleikum, því þegar menn hafa ráðizt í fyrirtæki, annaðhvort að reisa hús handa sjálfum sér eða til þess að leigja út, þá er byggt á þessu lága mati um afkomu fyrirtækisins, og þá er margfalt erfiðara fyrir þá að fá eins og á óvart hækkun um ¼- 1/3 af þessu mati og öllum þeim sköttum, sem á því eru byggðir. Þetta veldur miklum erfiðleikum móts við það, að þetta hærra mat hefði verið í gildi frá byrjun. Það er nú svo, að þegar fyrirtæki er byggt upp með tilliti til þess, hvað reksturinn kosti á því, þá er það gefið, að snöggar sveiflur eins og t. d. á bankavöxtum, koma alltaf ákaflega tilfinnanlega við, ef breyt. verður. Fyrirtæki, sem er stofnað upp á það, að bera 7 til 8% vexti, getur verið betur stætt en annað, sem hefir byrjað þegar vextirnir voru 3½- 4% og svo hafa hækkað, þó ekki sé nema upp í 6- 7%. Allar slíkar breyt. eru erfiðar.

Hæstv. fjmrh. sagðist vera á móti þessu frv., en þó sagðist hann ekki vera á móti því, að það væri athugað í n. Ég tek það svo, að hæstv. ráðh. treysti sér ekki að vera á móti því, að frv. verði athugað í n., því það er ekki byrvænlegt um samvinnu um svipuð mál, sem sjálfsagt koma fram á þingi, og það er þess vegna ekki ráðlegt af honum að leggjast á móti því, að það sé athugað í n., ekki kostar það ríkissjóðinn neitt, sem heitir.

Mér fannst hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. S.-M. tala eins og hér væri aðeins um ríkisskatt að ræða, en það er alls ekki. Fasteignaskatturinn til ríkisins er tiltölulega miklu minni, a. m. k. af húsum er hann ekki nema 1½%, en svo eru lagðir aðrir skattar á sömu eignir, t. d. í Rvík, þá eru gjöldin, sem byggð eru á fasteignamatinu, 8‰. Þetta mun hækka að miklum mun, og svo eru gjöldin af lóðum 6‰. Það eru bæjargjöldin, sem eru tilfinnanlegust fyrir húseigendur í þeim kaupstöðum, þar sem há gjöld eru lögð á fasteignir, en það er sumstaðar, sem há gjöld byggjast á fasteignamatinu.

En á hinn bóginn, ef lítill fasteignaskattur er til ríkisins, þá er hér ekki um stóra hættu að ræða fyrir ríkissjóð. En það kemur harðar niður á bæjarfélögunum, sem leggja háa skatta á fasteignir, en ríkissjóð. Það mun vera rétt, að fasteignagjald til hins opinbera sé hærra í sumum öðrum löndum, og hæstv. fjmrh. sagði, að það væri að mun, þar sem kannske fasteignaskatturinn væri megintekjustofninn. (Forsrh.: Til bæjanna). Já, til bæjanna. En þá er líka mikill munur fyrir gjaldendurna að bera háa fasteignaskatta, þegar þeir eru svo að segja lausir við önnur gjöld.

Mér skildist á hv. 1. þm. S.-M., að hann líti svo á, að með þessu frv. væri farið fram á að lækka fasteignamatið áframhaldandi, þannig að lækkunin verði lögleidd til 10 ára. Þetta er ekki, eins og sjá má af því, að sagt er, að núgildandi fasteignamat skuli lækkað til bráðabirgða um 10%. Hvað felst í þessu „til bráðabirgða“? Í því felst það, að meiningin sé að færa þetta í sama horf strax þegar betur árar. Annars væri engin ástæða að setja „til bráðabirgða“, ef þau mega svo gilda þangað til næsta fasteignamat fer fram. Menn vona, að kreppunni létti af fyrir 1942, og meira að segja getur farið svo, að henni létti af fyrr en varir. Það eru þær stórbreytingar að verða víða í heiminum, að maður gæti búizt við, að henni létti a. m. k. til bráðabirgða. Þá er engin ástæða til að gera þessar kreppuráðstafanir. Þessa meiningu hefi ég lagt í orðið „bráðabirgða“.

Þá sagði hv. þm., að einstaklingana munaði lítið um þetta, en ríkissjóð mikið. Þetta er ekki vel samrímanlegt. Það munar einstaklingana meiru en ríkissjóðinn, af því að ríkissjóður tekur ekki nema lítinn hluta af þessum gjöldum, sem byggjast á fasteignamatinu. Má því segja, að ríkissjóð muni það lítið, en einstaklingana mikið.

Hv. þm. N.-Ísf., meðflm. þessa frv., tók það fram í sinni ræðu, að ekki þyrfti endilega að hafa þessa aðferð, heldur aðeins að fella niður að nokkru leyti fasteignaskattinn. Ég held, að það verði nokkrum erfiðleikum bundið að telja upp alla þá skatta, sem byggjast á fasteignamatinu. Miklu einfaldara verður að færa niður matið, sem skattarnir byggjast á.