20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (4636)

112. mál, fasteignamat

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ég tel festuna í fasteignamatinu meira virði fyrir skattgreiðendur en litla lækkun í bili, sem svo væri svarað með meiri hækkun á breyttum tímum. En af því að það hefir verið nefnt við mig, þá lýsi ég því yfir, að ég er ekkert að amast við því frekar en með önnur mál, að þetta frv. fái að athugast í n. En ég verð þá að koma með þá till., að það fari til fjhn., því að það er ekki hægt að kalla það kreppumál.

Það er satt, sem hv. aðalflm. sagði, að upphæðin, sem um er að ræða, er ekki mikil. Við skulum segja, að það sé 37 þús. kr. Það er 10% af fasteignaskattinum síðastl. ár. Þessu á svo að dreifa milli allra fasteignaeigenda landsins. Þeir fá mest, sem mest eiga, en hinir minna. Þetta er engin kreppuráðstöfun, sem að gagni kemur. Það er bara misrétti, sem fram kemur, ef fasteignirnar eru lækkaðar um 10%.

Við skulum taka dæmið, sem hv. þm. N.-Ísf. kom með af bóndanum í Æðey. Hann greiðir í fasteignaskatt 274 kr. af jörð, sem er metin á 98 eða 100 þús. kr. Verður þessum manni mikil hjálp að því að þurfa ekki að greiða nema 250 kr.? Ég sé ekki, að þetta sé nein kreppuráðstöfun gagnvart bóndanum í Æðey, sem fengi þó tífalda lækkun á við marga aðra. Nei, það er of smátt til að geta talizt kreppumál. Ég vil því, að þetta fari til fjhn., því að það er meira um að ræða principmál, hvort matinu er breytt beinlínis eftir því, hvernig árar, en kreppumál. En þó að þetta sé ekki stórfé fyrir ríkissjóðinn, sem um er að ræða, þá álít ég, að hann muni meira um það en einstaklingana. Og þar sem hér er líka um að ræða mælikvarða fyrir bæjarfélögin, þá tel ég ekki rétt að lækka tekjur þeirra í þessari grein án þess að bein ósk komi frá þeim.

Ég hygg, að útsvörin þurfi að greiða, og þótt menn hafi haft minna burðarþol, þá er það meira nú í samanburði við stóratvinnufyrirtæki en var fyrir nokkrum árum, og er því ekki rétt að fara fram á þessa lækkun. Svona lækkun er álíka hjálp og að ætla sér að bæta úr þurrki með því að hella nokkrum lítrum vatns yfir nokkur hundruð ferkílómetra. Hvern einstakan munar ekki meira um það.