20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (4638)

112. mál, fasteignamat

Flm. (Magnús Jónsson):

Hv. samþm. minn, 4. þm. Reykv., talaði út frá því sjónarmiði, að hér væri um principmál að ræða. Ég skal vera honum sammála um það, að það sé ekki starf þingsins út af fyrir sig að framkvæma matið. En nú er fyrst á það að líta, með hvaða hætti matið er gert. Það er gert með þeim hætti, eins og hv. þm. Borgf. minntist á í sinni ræðu, að grundvöllurinn undir það og aðalvinnan við það er unnin svo skiptir árum áður en matið kemur til framkvæmda. Og á þessum árum hafa orðið gífurlegar breyt., afurðirnar lækkað og hverskonar erfiðleikar steðjað að, eins og öllum er kunnugt. Í öðru lagi er matið framkvæmt þannig, að landsnefndin tekur sig til og hækkar og lækkar án þess að líta á einstök atriði, um 10%. Hún hækkar allar húseignir í Rvík og í Hafnarfirði um 10% frá því, sem var fyrsta árið, og svo kemur það til framkvæmda úr því. Þetta eru svo miklir slumpareikningar, að ég sé ekki neitt á móti því, að Alþingi geri slumpareikninga líka.

En tilgangur frv. er eingöngu sá, eins og hv. þm. Borgf. benti á, að lækka þennan skatt á mönnum, og mætti það alveg eins með því að færa niður skattstigann um 10%, en þetta er bara auðveldari aðferð, að lækka skattinn á þessum ákveðna gjaldstofni. Það er ekki, þótt Alþingi leiðrétti matið, að það vilji lækka skattana um 10%. Það er miklu auðveldara að segja: Það, sem lagt er til grundvallar, skal lækka um 10% meðan á kreppunni stendur. Hér er ekki um neitt principatriði að ræða öðruvísi en Alþingi er alltaf að fást við, að hækka og lækka skatta.

Hæstv. ráðh. sagði, að þeir fengju með þessu mest, sem mest ættu, en hinir minnst, sem minnst ættu. Þetta er ekki rétt. Það er undarlegur mælikvarði á efnahag manna, ef fara á eftir því, hvað þeir hafa undir höndum af fasteignum. Þó að ég reisi mér hús í Rvík, þá er ég hvorki fátækari né ríkari eftir en áður. Ég hefi aðeins breytt nokkru af eignum mínum í aðra mynd. Mér er það óskiljanlegt, þó ég hafi breytt 200 þús. kr. í stórt íbúðarhús hér í Rvík, hvers vegna það ætti að vera ástæða á móti því, að ég fengi einhverja ívilnun á þessum skatti, ef hann er á annað borð ósanngjarn. Þetta kemur ekki því við, hve mikið eða lítið menn eiga.

Þeir fá aðeins minnst, sem minnstar hafa fasteignir, en mest þeir, sem mestar hafa fasteignir. M. ö. o. þeir, sem hafa brotizt í að verða jarðeigendur og húseigendur, þeir fá þarna ívilnun í skatti, sem vegna mistaka á mati eru komnir í óeðlilega háan skatt. Það er ekki verið að leggja á neinn lítilmagna eða hlynna að neinum, sem mikið hefir. Að deila 37 þús. kr. um allt landið, það er náttúrlega lítið. En þetta er bara ekki nema örlítill hluti af því, sem myndi sparast í ríkisskatti. Annars dettur mér ekki í hug að gera þetta mál að kappsmáli né halda fram, að allt mæli með, en ekkert móti. Ég veit, að þetta fé verður að greiðast hvort sem er. Ég veit, að það, sem húseigendur í Rvík mundu komast léttara af fasteignagjaldi af húsum og lóðum, verða þeir að borga í hækkuðum aukaútsvörum. Hér er um það að ræða, hvort skatturinn sé virkilega farinn að setja menn í hættu, svo að þeir verði að ganga frá eignum sínum. En slík eignatilfærsla er einmitt mjög óhentug á tímum eins og nú. Það er mjög illt, ef meira þarf að koma til nauðungaruppboða en þörf er á á þessum tímum.

Hæstv. forsrh. var með þá smellnu líkingu að dreifa einum lítra vatns á einn ferkm. En ef þessum lítra væri vel deilt niður, þá gæti hann komið að miklu gagni með því að vökva svo sem 20 plöntur þar sem þær yxu, og þar með til að halda lífinu í þeim. Og það er einmitt það, sem verið er að reyna með þessari lækkun á skattinum.