23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (4653)

115. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er margt í fari þeirra manna, sem lagt hafa krafta sína í það, að reyna að rífa niður bannlögin, að brjóta á bak aftur þá varnarráðstöfun, sem þjóðin hefir verið að leita að í þeim tilgangi að sporna við ofdrykkjunni. Það er margt í fari þeirra manna, sem vekur athygli alþjóðar, og ég verð að segja það, að það, sem sérstaklega hefir borið á og vakið athygli upp á síðkastið, er frekjan, sú óskaplega frekja, sem kemur fram í því hjá þessum mönnum að ætla sér þá dul að afnema bannlögin án þess að bera það undir þjóðina. Við vitum það, að áður en bannlögin voru samþ. á Alþingi, voru þau borin undir atkv. þjóðarinnar af þeirri sjálfsögðu venju, sem gildir um slíkt löggjafarmál sem þetta. Það þótti vera hinn nauðsynlegasti og sjálfsagðasti grundvöllur undir það, hvort ætti að setja slíka löggjöf sem þessa, að bera það undir þjóðina, sem átti að standa undir þessari framkvæmd.

Nú er þetta í annað sinn, sem fram kemur frv. á Alþ. um það að afnema þessa löggjöf. Í bæði skiptin er gengið í berhögg við þá sjálfsögðu skyldu, sem hvílir á herðum hvers manns, sem vill hreyfa hönd eða fót til þess að afnema lögin, að það verði fyrst borið undir þjóðina, áður en tekin er ákvörðun um það á Alþingi. Þetta er svo sjálfsagður hlutur, að það hlýtur eins og ég sagði áðan að vekja athygli og eftirtekt, það er svo gengið í berhögg við þessa sjálfsögðu skyldu gagnvart þjóðinni. Þegar minnzt er á þetta við þá menn, sem enga ró hafa í sínum beinum fyrr en þeir eru búnir að brjóta niður þessi lög, þá er þetta vana viðkvæðið: Það er ekkert bann lengur í þessu landi. Þess vegna er ekki ástæða til að bera það undir þjóðina. Og þegar þeir samþ. undanþáguna gagnvart Spánverjum, þá var engin ástæða til að gera þetta. Það má vitanlega í því sambandi benda á það, að sú frávikning, sem var að vísu geysileg skerðing á bannlögunum, byggðist á því, að það var gengið svo ríkt eftir fljótri afgreiðslu þess máls, m. ö. o. Spánverjar settu okkur tvo kosti, annaðhvort yrði þetta að ganga fyrir sig á skömmum tíma, eða að íslenzkur saltfiskur yrði tollaður svo á Spáni, að ógerningur væri að selja hann þangað, og þar með var útgerðin lögð í rúst. Þess vegna var enginn tími til að inna af hendi þessa skyldu. En þingið var sér þess fullkomlega meðvitandi, að það gerði með þessu það, sem því alls ekki sæmdi. Því var á næsta þingi borin fram þáltill. í sameinuðu þingi, þess efnis, að Alþ. lýsti því yfir, að þrátt fyrir það, að það hefði verið neytt til að verða við kröfu Spánverja, þá stæði það samt sem áður á bannlagagrundvelli. Þessi þáltill. var samþ. með 29 samhlj. atkv. Alþ. gerði því fullkomlega hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni, þó það hefði orðið að brjóta þessa skyldu, og friðþægði fyrir það gagnvart þjóðinni með þessari yfirlýsingu.

Ég verð þess vegna að segja það, að mér þykir með þessu ekki einungis þjóðinni sýnd lítilsvirðing, - heldur er þinginu líka sýnd lítilsvirðing með því að hreyfa þessu máli á þennan hátt. Það má sjálfsagt um málið deila, en áður en þessi skylda er af hendi innt ætti alls ekki að leyfa, að málið sé tekið fyrir eða rætt fyrr en búið er að gera þetta. Það eina í þessu máli, sem hægt er að samríma við það, sem búið er að slá föstu í þessu efni, og við það, sem á undan er gengið, er að taka málið fyrir á þeim grundvelli, hvort eigi að bera það undir þjóðina eða ekki. Ef það kæmi fram í þeirri mynd mundi það fá öðruvísi undirtektir, og það væri það eina, sem þinginu sæmdi.

Ég vil benda á það, að á seinustu tímum hefir mjög verið alið á því af ýmsum mönnum á þessu landi að draga úr þeirri virðingu, sem þjóðin ber fyrir Alþ. Alþ. á að sjálfsögðu á ýmsan hátt sök á því, að svo mjög hefir úr þessu dregið eins og raun ber vitni um. Ég held satt að segja, að þau mál standi nú svo, að virðing Alþ. þoli það ekki, að brotið sé svo í bág við þá sjálfsögðu skyldu við þjóðina í þessu máli, að farið verði að taka ákvörðun um það, áður en atkvæða hennar er leitað. Þegar málið er skoðað frá þessari hlið, er það líka þess vert að það sé athugað þegar hér á að rétta upp hendina um þetta mál, annaðhvort til synjunar eða samþykkis.

Hv. flm. minntist á allmörg atriði í þessu máli, en það kom ekkert fram hjá honum annað en það, sem alltaf er verið að flíka með í blöðum, af þeim mönnum, sem virðast hafa þá ástríðu að vera alltaf að níða niður þessa löggjöf. Og það er farið að ganga svo langt, að menn leggjast svo lágt í þessu máli, að ef þeir heyra um það einhversstaðar utan af landsbyggðinni, að brotin sé hurð, þá er það bannlögunum að kenna, og ef þeir heyra, að skvett sé úr þvagpotti, þá er það bannlögunum að kenna. Svo langt hafa þessir menn smogið inn undir þennan óþverra.

Hv. flm. talaði mikið um heimabruggið og sagði, að það væri skilgetið afkvæmi bannlaganna (JAJ: Ég sagði það ekki). (ÓTh: Ég tek það þá upp). Þá sný ég máli mínu til hv. þm. G.-K., úr því að hann er þessi kjarkmaður, sem hans var von og vísa. Hvernig skyldi standa á því, að svona er komið með heimabruggið, þegar það er alkunnugt, að fæðingarstaður þess og bernskustöðvar eru einmitt í þeim löndum, þar sem er alfrjáls sala á vínum, eins og t. d. í Danmörku. Þó að það kunni að vera mikið bruggað hér, þá er það ekki komið í þann algleyming eða á það þroskastig og í Danmörku, þar sem öll vínsala er frjáls, því að þar eru bruggararnir búnir að mynda með sér félagsskap og farnir að gefa út blað. Ég held, að það vanti nokkuð á það, að bruggið sé búið að renna það þroskaskeið hvað þetta snertir eins og úti í Danmörku. Það er alkunnugt, að þetta er á engan hátt sprottið út af bannlögunum, heldur er það aðflutt, sennilega frá Danmörku eða öðrum nærliggjandi löndum, sem eru langt á undan okkur í þessu efni.

Hv. þm. talaði mikið um, hvernig bannmálunum væri háttað í Bandaríkjunum. Hann þekkir alstaðar til út um öll lönd og verður alstaðar við að koma. En ég er enginn maður til að gagnrýna þetta, en þeir, sem geta gagnrýnt það, geta tætt það í sundur tætlu fyrir tætlu.

Það er nú svona með þetta heimabrugg. Það er framleitt hér sem annarsstaðar af þeirri einföldu ástæðu, að í því má á ódýran hátt svala þorsta sínum og njóta þeirrar ánægju, sem er nú í því fólgin að drekka sig fullan. Nei, í hvötinni til að brugga er enginn leyndardómur fólginn annar en sá að fullnægja þessum algenga breyskleika. Það er heldur ekki bruggað, af því að ekki sé hægt að fá önnur vín, heldur af því, að með því er hægt að fullnægja drykkjufýsninni með ódýrara og hægara móti.

Þar sem hv. flm. telja bruggið stærsta ókost bannlaganna, þá væri líklegt, að þeir beindu aðalskeytum sínum að því. En hvað gera þeir? Ef þeim væri alvara með þessa hættu, sem ég fyrir mitt leyti játa, að sé fyrir hendi, þá ættu þeir að fara skynsamlega leið til að uppræta bruggið. En hvaða leið er það? Jú, vínið á að fljóta bókstaflega um allt landið. Útsala á því sem allra víðast og síðast en ekki sízt góð innkaup. Já, hv. aðalflm. er nú svo fróður um þetta allt, að hann veit nákvæmlega, hvað brennivínsflaskan kostar hnöttinn í kring. Og svo á að leggja toll á þetta. (JAJ: Þetta er ekki tollafrv.). Það er nú reyndar hrein hugsunarvilla að tala um toll í frv., því tollur á vínanda er ákveðinn í öðrum gildandi l. - Annars er nú í frv. talað um 100% toll. (JAJ: Allt að 100%). Svoleiðis ákvæði eru nú víðar, að það er ákveðið „allt að“. En ég veit nú ekki betur en þar sé alstaðar sett í hámark. Annars virðist ætla að sverfa strax svo að hv. aðalflm., að hann er kominn á hraðan flótta frá ákvæðum frv. Nei, vínin innfluttu geta aldrei orðið svo ódýr, að þau uppræti bruggið, því ódýrleiki þess er frumorsök þess, að það er búið til. (JAJ: Það er ekki ódýrt!). Er það af því að hv. þm. hafi sjálfur bruggað, að hann þykist vita svo vel, hvað efnið í bruggið kostar?

Það eru engin smáræðis mistök í þessu frv., ef það er flutt til þess að útrýma brugginu. Hér er beinlínis hlaðinn kastali utan um bruggarana í landinu og gata þeirra greidd meira en nokkru sinni fyrr. Við höfum stundum verið að berjast fyrir smávægilegum verndartollum hér á þingi til verndar íslenzkri framleiðslu, svo sem smjöri, eggjum, mjólk, kartöflum o. fl. Þá hafa sumir þeir hv. þm., sem að þessu frv. standa, hrist sig alla og ætlað af göflunum að ganga. En hér kemur frá þessum sömu hv. þm. frv., sem felur í sér verndartoll. Og sá er nú hreint ekki skorinn við neglur sér! Það verður svei mér betri aðstaða hjá bruggurunum þegar frv. þetta er orðið að l. Þetta er svo sem bærileg kreppuráðstöfun fyrir þá bændur, sem brugga. Þeir þurfa áreiðanlega ekki annarar aðstoðar við en þeirrar, sem felst í frv.

Hv. aðalflm. fjölyrti mjög um það, hvað bruggun væri orðin útbreidd um allar sýslur landsins, að undanteknum tveimur eða þremur, ætla ég hann segði. - Jú, hann veit svo sem um þetta. Það er eins og um skýrslurnar hans frá öllum öðrum löndum. Hann er svo mikið gefinn fyrir að fræða! En ég veit nú reyndar ekki, á hverju hann byggir þessa skýrslu sína um útbreiðslu bruggsins. Ekki hefir hann ferðazt um allt landið og kynnt sér þetta af eigin raun. Ég býst a. m. k. ekki við, að svo sé, og veit því ekki, hversu ábyggilegar skýrslur hann hefir um þetta. A. m. k. dettur mér ekki í hug að trúa þeim og byggi því lítið á fullyrðingum hans. Hvað víða sem hann þykist vita um ástandið og hvað miklar skýrslur sem hann kemur með, þá veit hann þó ekkert meira en hver okkar hinna, sem minna fullyrðum. Þetta atriði hefir ekki verið athugað af neinum nema þeim þá helzt, er herja á þessa spillingu í því skyni að útrýma henni. En við þá menn hefir hv. aðalflm. áreiðanlega ekkert sálufélag. Ég kannast að vísu við, að mikið muni vera bruggað hér á landi, og að hreinn háski sé að þeirri starfsemi. En það eru aðrar leiðir líklegri til að uppræta þennan ófögnuð en sá að hjálpa bruggurunum til að gera framleiðslu þeirra arðvænlega. Og þær leiðir er verið að fara. Einn þáttur þeirra er starfsemi bindindismannanna hér og að fé er veitt til þess að herja á bruggið. (ÓTh: Hver er árangurinn?) Vill ekki hv. þm. bíða dálítið, ég kem að því bráðum! Hæstv. dómsmrh. hefir líka sýnt þessu starfi fullan skilning og mikla velvild. Og þar sem hægt hefir verið að hefja sókn gegn þessum bruggurum hefir hún mikinn árangur borið. Það hefir að vísu ekki heppnazt að ná til allra, en þó til fjölda margra. Og þetta hefir skotið öðrum svo skelk í bringu, að þeir hafa hellt brugginu niður. Jafnvel í heilli sýslu hefir öllu verið hellt niður á einni eða tveimur nóttum. (JAJ: Mikil er trú þín, Pétur!) Það er nú engan talið skaða að lifa í trú. En hér er um staðreynd að ræða. Árangurinn af þessari starfsemi hefir orðið mikill. En svo eru aftur heilar sýslur, þar sem ekkert hefir verið gert. Þar er bruggunin kannske í þróun. En þar þarf einnig að hreinsa til. Og eina ráðið til þess að útrýma brugginu er að halda ötullega áfram á þeirri braut, sem hafin er. Og það er trú þeirra manna, er helzt til þekkja, að það megi takast, með stuðningi þeirrar öldu, sem vakin er um allar sveitir og héruð landsins. Og alstaðar eykst andúð og fyrirlitning á þeim mönnum, sem brugga. Og að hægt sé að halda þessari framkvæmd í skefjum og jafnvel fella hana niður er enginn vafi, svo framarlega sem bruggararnir fá ekki nýjan stuðning. En það fá þeir, ef frv. þetta verður samþ. En verði svo, þá er um leið lagður örðugur þröskuldur á leið þessa máls. Þá mun útrýming bruggsins kosta bæði miklu meiri tíma, fé og fyrirhöfn. Og þá verður að nokkru spillt þeim árangri sem nú er búið að ná. (LH: Er hætt að brugga á Akranesi?). Hv. þm. V.-Sk. greip líka fram í fyrir mér í fyrra. - Nei, það er ekkert bruggað á Akranesi. Og ég skal lofa hv. flm., að það skal verða stungið upp í þá ekki síður en í fyrra. (LH: Ég er þó hvergi hræddur!). Það fór nú samt svo þá, að það var eins og stungið væri upp í þá tappa, - já líklega tappa úr „landa“flösku. (JAJ: Hv. þm. Borgf. þóttist geta svarið það í fyrra, að ekkert væri bruggað á Akranesi eða í Innri-Akraneshreppi. En svo er hann kom heim af þingi ætlaði hann bókstaflega að drukkna í bruggi). Þetta er ekki rétt. Annars hélt ég nú, að syndir hv. þm. í sambandi við þetta frv. væru nógu svartar, þótt hann bætti ekki svardögum við. Þessi slagur, sem sleginn er með frv., er slagur varnarinnar fyrir bruggarana. Þetta hefir nú kannske verið af athugaleysi og því óvart fyrir hv. flm. í fyrra. En það á þó ekki við nú, því ég benti á þessa hlið málsins þá.

Það hefir að vísu verið bent á eina leið í þessu sambandi, sem mundi gera bruggurunum erfitt fyrir, ef hún væri farin. Maður, sem talsvert er þekktur hér í þinginu í sambandi þó við annað mál, lögreglustjórinn í Rangárvallasýslu, hefir að því er ég hygg, gefið það ráð að selja brennivínið ákaflega ódýrt og hafa útsölu á því í hverjum hreppi á landinu, hjá hreppstjóra eða oddvita, ég veit nú ekki fyrir víst, hjá hvorum þeirra það á að vera. Þetta er vitanlega ákaflega skynsamleg leið til að draga úr bruggun. Annað mál er það, hvort þetta mundi draga úr drykkjuskapnum. En ef aðeins væri hugsað að flytja inn sterk vín til að útrýma bruggi, þá væri fullkomin skynsemi í þessari till. sýslumannsins. En eins og ég hefi sýnt, þá fara till. hv. flm. í þveröfuga átt. Í þeim finnst því engin skynsamleg hugsun til lausnar á þessu máli.

Hv. aðalflm. las upp - eins og hann er vanur - margar tölur og frá ýmsum löndum. M. a. las hann upp álit, sem einhver n. í Englandi hefði nýlega gefið út.

Var hún um notkun víns í Englandi, og ástæður taldar upp fyrir því, að neyzla víns hefði farið minnkandi þar í landi. Þó ég sé nú að vísu ekki sterktrúaður á skýrslur þær, sem hv. þm. er að lesa okkur svona yfirleitt um þetta mál, þá er þó rétt að athuga, hverjar þær ástæður eru, sem talið er, að dregið hafi mest úr vínnautn Englendinga. En þær eru: íþróttir, ódýr farkostur, bætt húsakynni og takmörkun á útsölustöðum vína. Það er nú rétt að líta á það, hvaða lærdóma hv. flm. dregur út úr þessari skýrslu, sem hann þó áleit þess verða, að vera lesin hér upp. Og árangur þeirra lærdóma ætti vitanlega að vera að finna í frv. En hvernig lítur þar nú út? Eru þar nokkrar till. um að auka íþróttir? Enginn held ég verði var við það. Eru þar fundin ráð til að afla mönnum ódýrs farkostar, þeim til andlegrar hressingar og skemmtunar? Fjarri fer því. Þar er um enga hressingu eða skemmtun að ræða - nema fyllirí! Eru till. um bætt húsakynni? Ekki held ég, að neinar slíkar till. finnist í frv. - Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir auknu húsnæði handa þeim drykkjuskaparvesalingum, er þetta vínflóð mundi framleiða og setja yrði inn vegna lögbrota. En þá er eftir „takmörkun vínsölustaða“ af því, er hv. þm. nefndi og takmarkað hefir vínnotkun í Englandi. Það er eina atriðið, sem vikið er að í frv. - En hvernig er nú með það? Eru þær till. sniðnar eftir reynslu Englendinga og miða þær að því að minnka drykkjuskapinn, en það telur hv. flm. vera takmark frv? Á að fækka útsölustöðunum? Nei, það er nú þvert á móti! Það á að selja vín í öllum kaupstöðunum, ef meiri hl. bæjarstjórnar í hverjum stað samþ. Ekki er það líklegt til að draga úr útsölustöðunum. En svo er líka heimilt að bæta nýjum útsölustöðum við. Og það er nú ekki naumar tiltekið en það, að setja má útsölur alstaðar í kauptúnum, þar sem 300 íbúar eru eða fleiri, en það er nú víst í flestum kauptúnum hér á landi. Nú er þetta þó ekki leyft nema í kaupstöðunum, og mun þó ekki vera útsala í þeim öllum, en öðrum mjög takmarkað. Nú má heita, að þetta eigi engum takmörkunum að vera bundið. Hinn eini möguleiki til að vísa þessum beizka kaleik frá sér, er sá, að meiri hl. bæjarstjórnar eða íbúa kauptúns neiti að taka við honum. Með því eina móti er hægt að komast undan vínflóðinu, þar til þá að betur verður hert að þessu af löggjafarinnar hálfu, sem búast má við, að verði gert, unz engum verður undankomu auðið. Nei, það er algert ósamræmi í því, sem hinn víðfróði flm. segir, að hinir vísu Englendingar hafi látið í ljósi í skýrslum sínum og því, sem hv. flm. koma með í þessu frv. Gersamlegt ósamræmi! Þótt ekkert sé tekið nema möguleikinn til að fjölga útsölustöðunum, þá sjá allir ósamræmið í því. Og höfuðrök Englendinga fyrir minnkandi drykkjuskap eru þau, að útsölustöðum hefir fækkað þar. (JAJ: Hvað heldur hv. þm., að útsölustaðirnir séu margir þar?) Ég hefi nú ekkert lesið um það. Hv. flm. þykist víst vita það sem annað. En ég fyrir mitt leyti tel mig engu nær að vita hið rétta um það, þó hv. flm. segi eitthvað um það.

Nú - (ÓTh: Nú er úti veður vont). Já, það er sannarlega verið að stofna til foráttuveðurs með flutningi þessa frv. - Já, reglulegs manndrápsveðurs Ég get tekið undir það með þeim hv. þm., er fram í tók.

Nú, hv. flm. var að tala um það, að meira áfengis væri neytt nú en gert var fyrir bann og að verr væri drukkið. Það er nú ekki mjög langt til baka að líta til þess tíma. Þeir, sem eru nokkuð til ára komnir, muna hann vel. Er mér það í bernskuminni, er ég kom hingað til Rvíkur, hvað ég sá fyrir framan „svínastíuna“, er svo var kölluð og var vínveitingakrá fyrir almenning, á Hótel Ísland. Ég verð að segja það, að ég hefi hvergi síðan bannið kom séð þá sjón, er komist neitt í samjöfnuð við það, sem ég sá þar. Það getur verið, að þarna hafi mátt sjá allra hryllilegustu myndir ofdrykkjunnar. En ég er þess þó fullviss, að víðar var til þessu líkt. Og ef sú fullyrðing hv. flm. er rétt, að víða sé pottur brotinn nú, þá ætti þó enginn að vilja styðja að því, að ástandið verði verra, eins og frv. þetta ótvírætt miðar að.

Það er ekki hægt að mæla því í gegn, að mikill árangur hefir þegar orðið að þeirri bindindishreyfingu og bindindisstarfsemi, sem vaknað hefir með auknum krafti hin síðustu ár. Og þótt ég geti játað, að mikið vanti á, að þær óskir og vonir, er menn gerðu sér með bannlögunum, hafi rætzt, þá gefur þó framhald byrjaðrar og aukinnar bindindisstarfsemi miklar vonir í þessu efni.

Í sambandi við þetta ætla ég að vitna í opinbera skýrslu um neyzlu vínanda á mann. Ætti þessi mikli skýrslufræðingur, hv. flm., að vilja taka tillit til þess, er skýrslurnar segja. En eftir þeim var á árunum kringum 1908 neytt af vínanda á mann 1,3 lítra. En 1928 voru þetta ekki nema 0,3 lítrar á mann. Og þó bruggi og öðru ólöglegu sé bætt við, þá er munurinn svo mikill, að ekki nær nokkurri átt, að neyzlan komist nú neitt í námunda við það, sem var fyrir bann. (Forseti (JörB): Ég vil benda hv. ræðumanni á það, að fundartíminn er nú búinn. Ef þm. á mikið eftir af ræðu sinni, má hann geyma frh. hennar þar til málið verður tekið fyrir næst). - (JAJ: Hann er rétt búinn!). Hv. flm. þykist vitanlega vera búinn að fá nóg. En ég get gjarnan hrellt hann miklu meira, og er því bezt að fresta framhaldi ræðunnar. [Frh.].