04.04.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (4662)

115. mál, áfengislög

Tryggvi Þórhallsson:

Það má enginn verða hissa á því, þótt vaktar verði einhverjar umr. um annað eins mál og þetta. Það er viðurkennt hjá flestum þjóðum, að eitthvert mesta viðfangsefni sé að setja sér l. um áfengismál og finna skynsamleg ráð til þess að draga úr áfengisbölinu. Því get ég ekki tekið undir ummæli hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann furðaði sig á umr. um málið og álasaði þeim þm., sem hér hafa talað á móti þessari nýju löggjöf, og fannst þeir hafa talað óviðurkvæmilega. Ég hlustaði á ræður þeirra beggja og verð að segja, þótt hvorugur þeirra sé minn flokksmaður, að ræður þeirra báru vott um mikla alvöru og ákveðinn vilja um að láta sínar vel rökstuddu skoðanir koma fram, um hvað gera þyrfti í málinu. Ég heyrði að vísu betur ræðu hv. þm. Ísaf. um málið, og hann hefir að því leyti sérstöðu við hina dm., að við megum kalla hann sérfræðing á þessu sviði, því að fyrst og fremst verður að skírskota til álits læknastéttarinnar um málið, og hans ræða var þannig, að hann kom með óyggjandi tölur úr opinberum skýrslum um, hvernig það spor hefði reynzt öðrum þjóðum, sem hér á nú að stiga. Í þeirri ræðu og í ræðu hv. þm. Borgf. var að öllu leyti haldið sér við það efni, sem hér er til umr., og talað um það af fyllstu alvöru að öllu leyti. (JAJ: Miðað við Kanada). Það er ekki ástæðulaust að miða við Kanada og fá tölur þaðan. Þeir hafa haft bann og afnumið það. Það má enginn furða sig á því, þótt fram fari alvarlegar umr. um málið, ekki sízt þegar þannig ber undir, að teknir eru tímar eins og nú standa yfir til þess að setja löggjöf um þetta. Ég er að því leyti á ólíkri skoðun og hv. 1. þm. Skagf., að ég áliti það vansa fyrir þessa samkundu, ef látin væri fara fram afgreiðsla slíks máls umræðulítið eða án þess að þm. létu greinilega koma fram sína afstöðu. Slíkt mundi bera vott um mikið skilningsleysi á því, hve þetta frv. er mikill og merkilegur þáttur í löggjöf þjóðarinnar. Það, sem ég harma viðvíkjandi sjálfum mér, er öfugt við það, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Ég harma, að ég hefi haft svo mikið að gera, vegna þess að ég hefi orðið að sitja á öðru þingi og hafa aukastörf með höndum, að ég hefi ekki getað kynnt mér þetta frv. eins rækilega og ég hefði viljað og ekki getað búið mig eins vel undir að tala um málið og gera grein fyrir því sem víðtækast, bæði hvað ég tel áfengislöggjöfina þýðingarmikla og, eftir minni athugun, hve varhugavert muni að stíga þetta spor, sem gert er ráð fyrir með frv. Ég vona samt, ef málið á eftir að koma hér til 2. umr., sem ég vona þó að ekki verði, þá verði ég undirbúinn að gera því betri skil. Það, sem ég vil þá fyrst draga fram, er það, að ég hygg, að seinustu árin og upp úr hinni löngu og rækilegu fræðslu, sem hefir verið flutt í öllum löndum um nauðsyn bindindis og skaðsemi áfengis, þá viðurkenni flestir, a. m. k. í okkar landi, að markmið áfengislöggjafarinnar eigi að vera það að hindra áfengisnautn. Ég geri ekki ráð fyrir, að menn greini á um þetta. Ég hygg, að allir menn, sem ekki láta stjórnast af eigin hagsmunum í þessu sambandi - en það geri ég ekki ráð fyrir, að menn geri hér á Alþingi - viðurkenni, að tilgangur löggjafarinnar eigi að vera sá, að firra þjóðina böli áfengisdrykkjunnar. Ég hygg, að það sé merkasti árangur þeirrar fræðslu, sem átt hefir sér stað undanfarin ár, að ég heyri ekki, að neinn maður í alvöru haldi því fram, að afnema ætti bannlögin til þess að gera mönnum sem greiðastan aðgang að víni, af því að vínið væri svo hollt og gott fyrir þjóðina. Ég hygg, að óhætt sé að segja, að allir, sem alvarlega um þetta tala, vilji segja, að áfengislöggjöfin miðist við, að drukkið sé sem minnst og að þjóðarheildin hafi sem minnst ógagn af áfenginu. Það verður aftur á hinu sviðinu, sem leiðirnar skilja, hvaða leið sé bezt að fara til þess að ná því marki, að áfengið geri minnst tjón. Sumir segja, að það eigi að vera algert bann, sumir að hálfu leyti bann og sumir svo og svo miklar takmarkanir og svo loks aðrir, sem vilja leggja á háa tolla o. s. frv. En ég hygg, að a. m. k. í þetta skipti hafi ekki komið fram önnur rödd en sú, er miði að því að hindra ofdrykkju og draga úr áfengisflóðinu. Ég þóttist heyra, að aðalflm., sem einn hefir talað af hálfu flytjenda málsins hér, hefir ekki viljað láta skína í það, að hann flytti þetta frv. vegna þess, að það væri æskilegt að hafa sem greiðastan aðgang að víninu, heldur hélt hann því fram, að þessi löggjöf mundi hafa í för með sér minni drykkjuskap, a. m. k. yrði minna bruggað og minni hætta á, að unga kynslóðin í landinu léti leiðast út í að drekka, og jókst það, sem mér fannst vera aukaatriði hjá honum, og hjá öllum hugsandi mönnum á að vera aukaatriði, að meiri tekjur fengjust í ríkissjóð. Ég sé ekki, að hv. þm. hafi neitt við þennan skilning minn á ræðu hans að athuga, og má því gera ráð fyrir, að hann telji í alvöru, að hann sé að stuðla að minnkun drykkjuskapar og bruggunar og svo að auki auknum tekjum fyrir ríkissjóð (LH: Og minnkun lögbrota). Já, það skulum við segja, og að þeir telji sig vera að keppa eftir að fá fullkomna áfengislöggjöf. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að eins og tíðarandinn er orðinn hér og skilningur manna almennt á því, hve áfengið vinnur mikið tjón, og vil halda því fram, að það sé óforsvaranlegt að ræða áfengismálið á öðrum grundvelli en að löggjöfin eigi að minnka sem mest tjón drykkjuskaparins. Málið horfir þá þannig við fyrir mér, að þegar ég á að taka ákvörðun um, hvernig mitt atkv. fellur, þá á ég að leggja það undir dóm minnar skynsemi og láta minn úrskurð verða út frá þeirri reynslu, sem ég hefi hér heima og erlendis, hvort það sé rétt, að þetta mark náist betur með þeirri áfengisiöggjöf, sem hv. flm. stinga upp á, eða með þeirri löggjöf, sem við eigum nú við að búa, með þeim umbótum, sem á henni mætti gera. Þess vegna horfir þetta svo einfalt við fyrir mínum sjónum. Ég tek upp þau atriði, sem hv. 1. flm. hefir komið með í sinni ræðu, og læt sumpart skynsemina og sumpart reynsluna skera úr um þetta. Þá spyr ég í fyrsta lagi: Er það rétt fullyrðing, sem hv. aðalflm. hefir varpað fram, að drykkjuskapurinn muni minnka í landinu og vínbruggunin þverra, ef dregið er úr innflutningshömlunum á þennan hátt, sem hv. flm. leggja til, að bannlögin verði afnumin? Við getum ekki látið innlenda reynslu skera úr um þetta nema að litlu leyti. En þó getum við sagt með sanni, að það, sem dregið var úr innflutningshömlunum með Spánarvínaundanþágunni, hefir aukið drykkjuskapinn í landinu frá því, sem var á þeim árum, er bannlögin voru órofin. Við höfum ekki reynslu um það fyrirkomulag, sem hv. flm. bera fram með þessu frv., en hin eldri reynsla bendir til þess, að því meira, sem dregið er úr innflutningshömlunum, því meiri drykkjuskapur verður í landinu. Og hin erlenda reynsla í þessum efnum, sem hv. þm. Ísaf. hefir kynnt sér svo ríkulega og lýst hér í hv. þd., frá því landi, Kanada, sem fyrst slakaði á bannl., sú reynsla bendir ótvírætt á, að eftir fyrstu tilslökun á bannlögunum jókst drykkjuskapurinn lítið, en svo fór hann hraðvaxandi ár frá ári um 10 ára bil, því meir sem slakað var á banninu. Og sýndi hv. þm. þennan gífurlega mismun með skýrum tölum.

Þess vegna er ekkert sérlega erfitt að leysa það dæmi, sem hér liggur fyrir. Erlenda reynslan gerir það svo skýlaust, og heilbrigð skynsemi segir manni það sama. Hv. 1. flm. hefir ekki reynt að bera fram neinar tölur eða önnur fullgild rök, er afsanni það, að þetta frv., ef að lögum verður, verði ekki til þess að auka stórkostlega drykkjuskapinn í landinu.

Þá kem ég að annari spurningu, og hún er sú, hvort þetta frv. verði til bóta á þann hátt, að landabruggið minnki eða að lögbrotum fækki hjá þjóðinni. Ég tek þá fyrst það atriði, hvort bruggið muni þverra. Það hefir verið haft eftir einum valdsmanni hér á landi, að ráðlegast væri að hafa sem flesta útsölustaði á landinu fyrir hið bruggaða vín og selja það sem ódýrast, til þess að upphefja þá innlendu vínbruggun! Ég hefi ekki heyrt hv. aðalflm. halda þessu fram. Og mér dettur ekki í hug, að nokkur af hv. flm. sé svo gálaus í þessum efnum að vilja fara þá leið. En hv. flm. virðast ætlast til, að það sé lagður hár tollur á hin innfluttu vín, og að þau verði seld dýrt til þess að gefa tekjur í ríkissjóð. Verði sú leið farin, liggur það í augum uppi, að landabruggunin minnkar ekki. Það leikur enginn vafi á því, hvaða hvöt það er aðallega, sem liggur til grundvallar fyrir brugguninni hér á landi nú, og það er gróðavon bruggaranna. Þeir ætla sér að hafa fé upp úr því. Þess vegna má það vera hverjum manni ljóst, að þegar hátolluð sterk vín eru til sölu í landinu við dýru verði, þá verður gróðavonin hin sama fyrir bruggarana og iðja þeirra blómgast eins og nú eða meir, af því að þá verður áhættan miklu minni fyrir þá. Nú er erfitt fyrir þá að fela landann, og verði þeir uppvísir að bruggun, þá fá þeir háar sektir og fangelsisvist. En þegar sterku drykkirnir koma inn í landið, þá verður erfiðara að sanna, hvað er heimabruggað vín og hvað erlend sprúttblanda. Og þó að hert yrði á refsingum fyrir bruggun, þá mundu bruggararnir gefa það út, að drykkurinn væri spíritusblanda. Niðurstaðan verður því sú, sem ég nú hefi bent á, að í skjóli hinna dýru og sterku drykkja verður ekki minni gróðavon fyrir innlenda bruggara en nú, hvötin til lögbrotanna hin sama, en áhættan miklu minni fyrir þá, sem vilja gerast brotlegir.

Heilbrigð skynsemi sker því alveg hiklaust úr um það, að þessi ástæða hv. flm., að bruggunin muni fara þverrandi í landinu, ef bannið verður upp hafið, er bláber firra.

Þessu næst verð ég að víkja að atriði, sem komið hefir fram hjá ýmsum andbanningum. Þeir segja, að æskan og unga fólkið muni drekka minna af vínum, þegar bannlögin verði upphafin, en að nú drekki það meira, af því að bannið, eða forboðna eplið, auki eftirsókn þess og sé meira freistandi fyrir unglingana. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að þó að þetta frv. verði að lögum, þá verði bannað að selja unglingum innan 20 ára aldurs sterk vín. Í báðum tilfellunum væri því um bann að ræða gagnvart unglingunum. Bæði lögin og foreldrar unglinganna mundu eftir sem áður banna ungum piltum og stúlkum að neyta áfengis. En því meiri og fjölbreyttari vínföng, sem fólkið hefir völ á í landinu, því meiri freisting.

Af öllum þeim ástæðum, sem hv. 1. flm. bar fram til stuðnings frv., er aðeins ein eftir óhrakin, sú, að með frv. fáist heppileg leið til þess að afla ríkissjóði tekna. Það munu flestir viðurkenna, að ríkissjóður geti fengið mikla peninga á þennan hátt. En ef gengið er nú út frá því, sem ég sagði í upphafi máls míns, að allir þeir, sem eiga sæti á þessari virðulegu löggjafarsamkomu, séu sammála um það, að tilgangur og markmið löggjafarinnar eigi að vera það, að vínneyzlan fari þverrandi og valdi sem minnstu tjóni, þá er það gersamlega óframbærileg ástæða, að það eigi að afnema bannlögin til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Það verður að gera þá kröfu til allra alvörugefinna manna, og þá ekki sízt til löggjafanna, að þeir hafi þá sjálfsögðu afstöðu að stuðla að minnkandi víndrykkju meðal þjóðarinnar. Það er gersamlega fordæmanlegt að ætla að hafa drykkjufýsn almennings sem vaxandi tekjustofn fyrir ríkissjóð, hvort heldur sem litið er á það frá þjóðhagslegu eða heilbrigðislegu sjónarmiði. Það er hlutur, sem engum heilvita manni gefur dottið í hug.

Mér finnst þess vegna, að þetta mál sé ekki nálægt því eins erfitt til úrræða og talið hefir verið af ýmsum. Mér finnst, að allar þær ástæður, sem hv. aðalflm. hefir borið fram til stuðnings frv., séu eintómar firrur og afbakanir, þegar þær eru prófaðar samkv. þeim mælikvarða, sem ég hefi á þær lagt, þær eru allar eins og reykur.

Þá er það mjög haft á oddinum í öðru orðinu hjá hv. flm. frv., að núverandi ástand í vínmálunum hér á landi sé alveg óviðunandi, og þess vegna þurfi nauðsynlega að breyta því. Það er mjög undarlegt af þeim að bera þetta fram annað veifið, í beinni mótsögn við það, sem hv. aðalflm. sagði í framsöguræðu sinni, er hann komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera minnst drukkið á Íslandi. Ég álít, að með þeim ummælum hafi hv. aðalflm. kveðið sjálfur upp dauðadóminn yfir frv. Þegar það er nú bæði sannað með skýrslum af hv. þm. Ísaf. og yfirlýst af hv. aðalflm. frv., að hér á landi sé minna drukkið en í öðrum löndum, en á hinn bóginn er frv. í samræmi við lög þeirra landa, sem hafa meiri vínnautn, þá hefir hv. aðalflm. flutt með þessu höfuðrökin gegn sínu eigin frv. Meira þarf ekki fram að færa gegn því. Þó að ástandið sé ekki gott hér á landi, þá sýna tölurnar, að það er minna drukkið og minna tjón af áfengisnautn hér en hjá öðrum þjóðum. Þrátt fyrir allt fullnægir núverandi áfengislöggjöf okkar betur því hlutverki að sporna við tjóni af vínnautninni heldur en áfengislöggjöfin í löndunum við hliðina á okkur, og margfalt betur en búast má við, að frv. hv. flm. muni gera, þó það yrði að lögum.

Ég vil ekki á neinn hátt halda því fram, að ástandið sé gott hjá okkur. En þó hygg ég, að nú verði vart við ýmsa hluti, sem bendi til þess, að það sé að batna. Allir kannast við þann öldugang, sem á sér stað, í fjármála- og atvinnulífinu, þar skiptast á veltiáratímabil og krepputímar. Svipað er því háttað í þessum efnum. Stundum hafa gengið yfir þjóðina sterkar bindindisöldur, eins og t. d. á árunum frá 1905-1915. Þá voru það góðtemplarafélögin og ungmennafélögin, sem báru þá bylgju uppi. Bindindishreyfingin var þá svo sterk, að við, sem þá vorum unglingar, búum enn að þeim krafti, eins og sjá má á okkur þremur, sem talað höfum á móti þessu frv., hv. þm. Ísaf., hv. þm. Borgf. og mér.

En á síðari hluta stríðsáranna og eftir stríðið kemur slappleikatími, þá fer það að þykja fínt að drekka vín, og bindindishreyfingin dofnar meðal unga fólksins. En ég vil gera ráð fyrir, að nú sé að hefjast svipuð alda í landinu eins og upp úr síðustu aldamótum. Í ungmennafél. og þó einkum í skólunum hafa verið stofnuð öflug bindindisfélög, ekki einungis hér í Rvík, heldur líka úti um land. Þessi bindindisfélagsskapur í menntaskólanum gefur út fjörugt blað og hefir staðið að hvatningarræðum í útvarpið um bindindisstarfsemina meðal æskulýðsins í landinu. Og er mikill munur á þessum anda eða þeim, sem var ríkjandi í menntaskólanum á námsárum mínum, því að þá var þar þung alda á móti bindindi. - Ég hygg því, að það sé óhætt að segja með fullum rökum, að nú sé að hefjast ný og öflug bindindisalda meðal yngri manna, og er líklegt, að hún hafi mikil áhrif á almenningsálitið, eigi aðeins hjá unga fólkinu, heldur nái hún líka til eldri kynslóðarinnar. Á þennan hátt er æskan að rétta löggjöfunum og eldri mönnunum örfandi hönd í þessu máli. Ég er ekki í vafa um, að þetta muni bæta mest úr núverandi ástandi. Vínbruggunin fer smámsaman minnkandi í landinu, hún mun vera talsvert minni nú en í fyrra. Ég varð þess áskynja á ferðalagi um kjördæmi mitt síðastl. sumar. (JAJ: Ég skal sanna hv. þm., að það er mikið bruggað í kjördæmi hans). Þá er það borgaraleg skylda hv. þm. að kæra til lögreglustjóra og sanna þennan framburð sinn. (JAJ: Ég skal gefa hv. þm. upp nöfn á bruggurum í Strandasýslu). Ef hv. þm. ætlar að nefna nöfn þessu til sönnunar, þá á hann að snúa sér með þau til lögreglustjóra, en meðan hann gerir það ekki, þá lýsi ég hann ósannindamann að þessum áburði sínum á hendur minna kjósenda. Mér er vel kunnugt um, að það er að rísa upp alda meðal bænda í landinu um að hrista af bændastéttinni því ámæli, sem hún hefir hlotið af því, að ýmsir hafa borið það út, að mest væri bruggað í sveitunum. Í gær kom fram á búnaðarþinginu áskorun til bænda um land allt, að láta það ekki ásannast, að bruggunin eigi nokkursstaðar griðland í sveitunum. Ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf., að þessar stórlega ýktu fréttir, sem sagðar eru af vínbrugguninni í sveitunum, eru að mestu leyti agitation, sem haldið er uppi af þeim mönnum, sem vilja auka vínflóðið í landinu og telja mönnum trú um, að það sé ómögulegt að útrýma brugguninni, nema flutt verði inn sterk vín!

Í þessu sambandi má minna á söguna, sem sögð hefir verið úr Skagafirði, þegar þar var verið að leita að einum bruggaranum. Og er komið var á einn bæinn, þá var sagt, að hann mundi líklega vera á hinum, og svona gekk það koll af kolli, að alltaf átti það að vera lengra frá, sem bruggunin færi fram. - Það er líka vitað, að í mörgum tilfellum hefir framkvæmdarvaldið tekið mjög myndarlega á afbrotum á þessu sviði, og mikið unnið á um útrýmingu á brugginu. Enda er nú miklu meiri áhætta að fást við bruggun en áður, vegna almenningsálitsins. (JAJ: Samanber Höskuld!) Já, alveg rétt, einmitt samanber Höskuld. Því að nú situr hann í steininum, en um þetta leyti í fyrravetur voru bruggunartæki hans í fullum gangi.

Í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, á eingöngu að líta á það, hver skuli vera aðaltilgangur áfengislöggjafarinnar. Og þær breyt., sem á henni kunna að verða gerðar, eiga að miðast við það eitt, að þeim höfuðtilgangi verði náð. En hitt má ekki henda Alþingi á þessum alvarlegu tímum, að samþykkja breytingu á áfengislöggjöfinni einungis til þess að fullnægja löngun ýmissa manna í landinu eftir sterkum drykkjum.