30.03.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (4666)

115. mál, áfengislög

Guðbrandur Ísberg:

Það er aðeins stutt aths. Hv. þm. Str. var nærgætinn um það, að ég líti svo á, að mikið af því víni, sem talið er á skýrslum í Kanada, færi til Bandaríkjanna. Þessu vildi hv. þm. andmæla og taldi það reginfjarstæðu að láta sér detta í hug, að það, sem gengi í gegnum hendur smyglaranna, kæmi á hagskýrslur. Ég verð að halda því fram, að þetta séu veik rök hjá hv. þm., og ég veit, að honum sjálfum er það ljóst, og þess vegna er auðdregin af því sú ályktun, sem mér þykir leitt að þurfa að bera fram, að hann segir þetta á móti betri vitund.

Hvernig fara smyglararnir í Bandaríkjunum að? Hvar fá þeir vínið? Þeir geta sótt það bæði til Mexíkó og til Kanada, en það er bara miklu auðveldara fyrir þá að smygla því frá Kanada. Þeir kaupa vínið vitanlega í Kanada og þar kemur það á hagskýrslum sem selt til neytenda. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að Bandaríkjamenn geti keypt svo og svo mikið sem þeir vilja af víni í Kanada. Og þá er aðeins eftir að smygla því til Bandaríkjanna. Hv. þm. talaði mikið um það, að áður hefði drykkjuskapur verið mjög mikill hér á landi. Það er vitanlega rétt. En hvað olli svo straumhvörfum hér að því er vínnautn snerti? Ég held, að það hafi verið einkum tvennt. Fyrst það, að menn vöndust smám saman vínum og lærðu flestir að neyta þeirra í hófi, og í annan stað, að allöflug bindindisstarfsemi var hafin hér á landi. Átti bindindisstarfsemin áreiðanlega mikinn þátt í að minnka drykkjuskapinn. Við vorum auk heldur komnir það langt, um það bil er bannið var sett, að almenningsálitið dæmdi það ósvinnu, að láta sjá sig ölvaðan á almannafæri. Þá naut bindindisstarfsemin fullkominnar velvildar og samúðar þjóðarinnar. Ég vil nú spyrja hv. þm. Str. og aðra, sem eru á móti þessu frv., hvort þeir geti nú sagt það sama? Hvort templarar landsins njóti nú óskiptrar velvildar og samúðar þjóðarinnar? Ég held, að það sé mjög langt frá því. Ég er þess fullviss, að mikill meiri hluti þjóðarinnar lítur svo á, að þeirra starfsemi sé sem stendur meira til ógagns en gagns, á meðan þeir standa í veginum fyrir því, að við getum aftur lært að drekka vín eins og síðaðir menn. Vínneytendur spyrja nú templara: Hvers vegna megum við ekki fá sterk vín, eins og við nú getum fengið létt, áfeng vín og landa? Hvers vegna á að neyða menn áfram til að drekka landa, brennsluspritt, glycerínspíritus, hárvatn o. s. frv.

Ég held, að templarar séu komnir í þá aðstöðu fyrir andstöðu sína gegn því, að hið svokallaða vínbann verði afnumið, að þeir séu búnir að tapa velvilja þjóðarinnar. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að þeirrar samúðar, sem templarar áður nutu, geti þeir ekki aflað aftur fyrr en bannlögin eru afnumin. Þá fyrst geta templarar aftur hafið starfsemi sína á réttum grundvelli og unnið af nýju viðurkenningu og traust þjóðarinnar, og þá getum við Íslendingar aftur náð því að verða minnsta vínneyzluþjóð heimsins.