03.04.1933
Neðri deild: 43. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (4668)

115. mál, áfengislög

Jónas Þorbergsson:

Það var alveg rétt, sem hv. þm. Str. tók fram í ræðu sinni, að ekki væri sæmilegt að ræða þetta mál á Alþingi frá öðru sjónarmiði en því, að hverjum hætti væri unnt að sigrast á því æfagamla vandamáli, sem meðferð áfengis hefir verið og er enn í dag. Og í þeim fáu orðum, sem ég ætla að tala hér í dag, mun ég leitast við að ræða málið einmitt út frá þessu sjónarmiði. Þegar um það hefir verið að ræða, hversu útrýma skyldi ofnautn og ósæmilegri meðferð áfengis hér á landi, hafa komið fram tvær stefnur og markað sér svið í sögu okkar. Önnur er sú, að auka bindindisstarfsemi og beita áhrifum þeim, er með uppeldi og frjálsum félagsskap fæst, til þess að innræta æskulýð landsins óbeit á ósæmilegri meðferð áfengis, leiða honum fyrir sjónir skaðsemi þá, er fylgir því, að áfengis sé neytt úr hófi fram, og styðja að algerðu bindindi æskulýðs í landinu. Hinsvegar er sú stefna, að taka þvert fyrir alla áfengisnautn með innflutningsbanni og gífurlegum refsiákvæðum. Um þessar tvær stefnur hefir ávallt staðið styr mikill milli þeirra manna, er hafa haft afskipti af málinu og sótt eða varið þetta tvennskonar viðhorf á opinberum vettvangi. Þegar litið er til baka um þróun þessarar baráttu gegn áfenginu hér á landi, er ástæða til að staðnæmast við tímabilið fyrir og um aldamótin. Þá reis upp hér á landi öflug bindindishreyfing til baráttu gegn þeirri óhóflegu og ósæmilegu brennivínsöld, þegar telja mátti, að landið allt flóði í dönsku kornbrennivíni. Þessi bindindishreyfing var með þrennum hætti. Er þar fyrst að telja góðtemplararegluna, sem átti forgöngu um málið og vann þar höfuðstarf. Út frá henni uxu síðan bindindisfélögin í sveitunum. Á þeim árum fóru um landið sendiboðar þessarar herferðar gegn áfenginu og predikuðu fyrir lýðnum og með miklum árangri. Risu þá upp stúkur og bindindisfélög um allt land. Þessi hreyfing orkaði mjög miklu um að skapa almenningsálit, sem var kröftugt og andvígt allri áfengisnautn. Þetta almenningsálit orkaði því, að ungmennafélög landsins gengu undir þetta sama merki og urðu þriðja greinin á þessum sama stofni. Ungmennafélögin urðu skömmu eftir aldamótin öflug hreyfing, sem hlaut mikið fylgi og vinsældir. Auk uppeldismála, íþrótta og annara þjóðþrifamála tóku þau upp á stefnuskrá sína baráttuna fyrir bindindi. Aðferðin, er hinir starfandi meðlimir félaganna álitu heppilegasta, var að beita áhrifum sínum til þess að ala upp ungt fólk með hugarfari, er skapaði í hugarfari þess fasta og öfluga mótstöðu gegn áfengisbölinu. Á þessu tímabili vannst geysimikið á í uppeldisáttina í þessu máli, sem miðaði til þess að skapa sterkan siðferðislegan mótstöðuþrótt gegn ómenningu óhóflegrar meðferðar áfengis. En á þessu tímabili, er baráttan stóð sem hæst, var sem templara skorti þolinmæði til þess að bíða fulls árangurs, og hvöttu þeim í staðinn til, að róttækari ráða væri leitað og komið yrði á algerðu áfengisbanni. Þeir fengu sínu framgengt - bannið var leitt í lög. Þegar er því var lokið, urðu snögg umskipti. Stúkunum féllust algerlega hendur í skaut. Enda munu þær hafa litið svo á, og með miklum rétti, að er vörn væri sett við innflutningi víns í landið, væri þar með fótunum kippt undan allri bindindisstarfsemi og hún gersamlega óþörf. Bindindisfélög til sveita þurrkuðust alveg út, stúkan og starf hennar færðist saman svo mjög, að hún hefir aldrei náð sér síðan. (PHalld: Veit þm. ekki gerla, að þetta er ósatt?). Hv. þm. getur svarað á eftir, ef hann þykist hafa rök að mæla gegn því, er ég hefi sagt. - En með því að taka upp algert bann var horfið frá þeirri stefnu, er áður ríkti með svo góðum árangri, nefnilega að innræta mönnum með uppeldi andstyggð á ósæmilegri meðferð víns. Mitt álit er, að áfengismálin séu fyrst og fremst uppeldismál, og þar næst löggjafarmál. Eins og nú er komið, get ég ekki talið annað ráð réttara en að varpa fyrir borð því slitri, sem eftir er af áfengislögunum, og hefja í þess stað nýja sókn á hendur notkun áfengis og sérstaklega baráttu gegn ofnautn þess. Mundi ég ekki horfa í það, þótt stórfé þyrfti að verja til þess að koma þessari sókn á réttan kjöl aftur, bæði til sveita og í kaupstöðum. Af þessum orsökum er það, að ég gerðist meðflm. þessa frv. Því að augljóst er, að við getum ekki haldið uppi fullu banni og gætt þess, þegar annarsvegar er haldið uppi vínsölu í landinu af sjálfri ríkisstj., en hinsvegar magnast heimabruggun um land allt og fer óðfluga í vöxt, svo að ekki mun að óbreyttu verða langt þess að bíða, að það verði gersamlega óviðráðanlegt. Þess vegna hygg ég, að réttara væri að breyta til um bardagaaðferð og að með uppeldi verði hafin sókn af nýju í þessu máli.

Ekki er mér það sérstakt kappsmál, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi. En það er fyllilega tímabært að ræða málið og athuga, hverjar leiðir séu færastar í málinu. Ég lít ennfremur svo á, að rétt væri og skynsamlegt, að þjóðaratkvæði gengi um áfengismálið. Ég teldi óheppilegt að þröngva þjóðinni með þingsamþykkt einni í máli, þar sem áður hefir gengið þjóðaratkvæði.

Ég skal ekki að þessu sinni orðlengja frekar um þetta. E. t. v. gefst mér ástæða síðar til þess að fara um málið fleiri orðum. En ég hefi nú gert grein fyrir afstöðu minni til málsins, og eins því, hverja stefnu ég muni aðhyllast, að tekin verði upp til þess að ráða vandamálum þessum til lykta.