03.04.1933
Neðri deild: 43. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (4669)

115. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég er að svipast um á bekkjunum eftir mönnum til að hlýða á ræðu mína, og eins hvað margir muni vera viðstaddir af flm. þessa frv., því að af því mætti marka áhugann, sem þeir bera fyrir framgangi frv. (JJós: Ég býst ekki við, að þm. geti sannfært okkur). Ég hefi komið auga á átta flm., en þar eru meðtaldir þeir, sem eru hér að hurðarbaki í ráðherraherberginu. Þeir sýndu meðflm. sínum, hv. þm. Dal., þá óvirðingu að flýja úr salnum, er hann hóf ræðu sína, og slíkan hávaða gerðu þeir inni í ráðherraherherginu, að forseti varð að grípa til þeirra ráða að loka þá þar inni, svo að síður truflaðist þm. við flutning sinn. Það virðist koma greinilega fram í háttalagi þm. eins og í ræðum þeirra, að þeir eru sjálfum sér sundurþykkir. Sumir þeirra virðast hafa villzt inn á frv., en yfirleitt hafa þeir hlaupið saman án þess að gera sér grein fyrir, hvað þeir höfðust að, og án þess að nokkur samstillt hugsun lægi á bak við flutning þeirra. Ég mun nú síðar í ræðu minni, sem e. t. v. kann að verða nokkuð löng, koma inn á einstök atriði, sem sýna, hvernig ástatt er um afstöðu einstakra flm. til þessa máls. Ég sagði, að ræða mín yrði e. t. v. nokkuð löng. Því að það væri mikill aðstöðumunur að geta svarað þeim öllum nokkuð svipað, ef hver talaði fyrir munn hinna flm., eða að þurfa að vera að eltast við ummæli þessara manna, sem ganga sitt í hverja áttina, og m. a. s. snúast upp í niðurrif fyrir sjálfum samherjunum. En þau dæmi ætla ég, að hægt sé að benda á.

Menn þurfa nú ekki að furða sig á, þó að þetta mál, sem löggjöf var sett um að undangengnu þjóðaratkvæði, veki nokkrar umr., þegar á að knýja fram afnám þessara l., án þess að nein slík atkvgr. eigi sér stað, og þar með þverbrjóta þá hugsun, sem lá til grundvallar fyrir þessari lagasetningu. Þetta ásamt mörgu öðru, sem ég hefi bent á í þessu frv., það hlaut að vekja harða og fasta mótstöðu.

En svo er annað, sem fram hefir komið, og þ. á m. hvernig hv. 1. flm. þessa máls hefir túlkað það, hvaða gagn mætti af slíkri lagasetningu leiða fyrir þjóðfélagið. Í þeirri túlkun bættust enn við margar og nýjar ástæður til þess, að andmæli gegn þessu máli snerust inn á víðara og víðara svið. Og eftir því sem fleiri hafa talað í þessu máli, þá hafa, eins og ég áður sagði, skoðanirnar orðið sundurleitari og sundurleitari, þó að þar taki nú fyrst steininn úr hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Dal. Því að ég verð að segja, að hafi hann verið jafnforhertur og hinir flm., þá hafa þær umr., sem farið hafa fram af minni hálfu, hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Str., ekki verið alveg áhrifalausar. Hv. þm. var sem sé farinn að ganga inn á okkar meginröksemd, nefnilega, að sjálfsagt sé að bera málið undir þjóðaratkvæði. Við erum þarna farnir að sjá töluverðan árangur, svo að hv. þm. V.-Sk. þarf ekki að tala um, að ræður okkar séu áhrifalausar. Og þetta er einmitt í flokki þeirra manna, sem standa með honum að þessu frv. (LH: Gott, að þingmaðurinn er ánægður!). Já, ég er ánægður. Og það er alls ekki vonlaust um hv. þm. V.-Sk., sem ég þekki í öðrum efnum að því að vera sanngjarnan og athugulan mann, að hann snúist á sveif um það að taka tillit til réttmætra ástæðna, eftir því sem við þreytum þetta mál lengur.

Ég var að því kominn að sýna fram á þann glundroða, sem fram kom í ræðum hv. flm. Þeir sögðu frá tilgangi sínum með því að flytja frv. En þetta rakst allt svo heiftarlega og hastarlega hvað á annað, og sumir gerðu sér mikið far um að rífa niður það, sem hv. 1. flm. hélt fram þegar hann var að reifa málið. Hv. 1. flm. sagði, að með því að fella bannlögin úr gildi, væri allra meina bót fengin í þessu efni. Það syndum spillta eðli, sem fram kemur hjá þjóðinni í drykkjuskap og óreglu, því mundi öllu saman verða snúið frá villu síns vegar. Og hann tók eiginlega svo djúpt í árinni, að þessir syndum spilltu menn yrðu hreint og beint að englum, ef þjóðin gæti fallizt á þá tilhögun, sem þeir vildu hafa. Hann var svo sem ekki að skafa utan úr þessu. Lengra held ég hann hafi nú ekki getað gengið í að sýna mismuninn. Annarsvegar hinar lægstu hugsanir og hvatir og syndum spillt eðli manna, en hinsvegar það, sem næst er hinni æðstu fullkomnun.

Hv. þm. Ak. tók nú árinni ekki alveg svona djúpt. Hann sagðist raunar vona, að af samþ. þessa frv. leiddi einhverja umbót frá því ástandi, sem nú er. Hinsvegar virtist hann ekki trúaður á, að það mundu ske nein undur og stórmerki, þótt frv. yrði samþ. En þeim grundvelli, sem hann hugðist standa á, var kippt undan honum af hv. þm. Str., enda var hann ekkert annað en sandur. Og ég varð ekki þess var, að hv. þm. Ak., þrátt fyrir fulla viðleitni til að rétta hag sinn, yrði þar neitt ágengt.

En hv. þm. G.-K., sem áðan var víst inni í ráðherraherbergi, er máske farinn úr húsinu. (ÓTh: Nei, hann er hérna). Jæja, ég heyri rödd hans, og ég vona, að hann heyri mína. Hann dró ekki dul á það, að með þessari breyt. mundi ástandið versna. Að því leyti tók hann beinlínis undir með okkur hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Str. Það myndi rísa ákaflega há og sterk alda, brennivínsöldu getur maður kallað hana, eða whiskyöldu, - eða sambland af slíku, og flæða yfir landið. En í staðinn fyrir það að treysta þá varnarmúra, sem hér eru fyrir, þó að þeir gætu náttúrlega verið sterkari, - í stað þess að sporna á móti öllum þessum landgangi og öllum skemmdum, sem af honum leiddi, þá vildi þessi hv. þm. opna leiðina enn betur, svo sem farið er fram á í þessu frv., og játa alveg skeika að sköpuðu og taka því, sem að höndum bæri. Ekki dró hann dul á, að þessi alda myndi skola með sér miklum og margvíslegum verðmætum úr þjóðfélaginn. En mér skildist hann vilja þá fyrst eftir á meta voðann og tjónið, sem af þessu leiddi, og reyna að viðhafa viðleitni til að bæta úr. Þetta er afstaða hans til málsins, auk nokkurra smærri atriða, sem fram komu og ég síðar í dag eða á morgun mun koma að.

Fjórði flm., hv. þm. Vestm., kærði sig nú kollóttan um allar afleiðingar. Hann sagði, að ég og samherjar mínir í þessu máli færum að dæmi fuglsins, sem stingur höfðinu niður í sandinn, þegar einhvern voða bæri að höndum. En með þessari líkingu um hinn alþekkta fugl virtist mér hann vera að benda á sjálfan sig, þegar hann talaði um, að hann kærði sig kollóttan um afleiðingarnar. Hann þurfti ekki að fara frá sjálfum sér til annara með þessa líkingu, því að hún átti betur við hann en alla aðra, sem nokkuð hafa hér sagt um þetta mál. Hann vildi ekkert hugsa um afleiðingarnar, bara opna allt upp á víða gátt. „Hreinar línur“ kvaðst hann vilja hafa.

Hvað eru þessar „hreinu línur“? Það er vitanlega það, að nema burt allar þær hömlur, sem nú eru lagðar á menn gegn því að svala fýsnum sínum í víndrykkju. En svo ætlar hann að „brynjast fram í bleika elli, bregða skjöld og hasla velli“. Hann ætlar svo að taka að sér hlutverk „dusilmennanna“ í þjóðfélaginu, sem hann nefndi svo. En það eru þeir, sem hafa staðið fyrir bindindishreyfingunni í landinu fyrr og síðar, en það virðulega heiti gaf hann þeim öllum sameiginlega. Þeirra starf ætlar hann nú að taka í sínar hendur og framkvæma mikið, þar sem þessir menn hafa náð litlum árangri, að hans dómi. Þegar hann gaf bindindismönnum þetta heiti, undanskildi hann engan, hvorki núlifandi menn né látna, sem lagt hafa fram vit og krafta og áorkað miklu. (JJós: Þetta er rangt hjá þm.). Mér er gleðiefni, að þm. vill nú við fyrsta tækifæri taka þetta aftur. Það er þó gleðilegur vottur afturhvarfs eftir þetta ógurlega frumhlaup. (JJós: Ég vil ekki taka neitt aftur!). Nú, jæja, þá situr allt í sama farinu.

Ég verð nú að segja það, að það er náttúrlega mikils um vert fyrir þjóð vora, þegar slíkir menn fæðast, þó að mér þyki töluvert á skorta, hvað hv. þm. hefir fundið þessa köllun hjá sér seint. En þó að hann hafi ekki opinberað hug sinn fyrr, þá má svo sem vel vera langt síðan þessi eldlegi áhugi fór að hreyfa sér með honum. Því að það er eins og kunnugt er, að þegar fjöllin gjósa eldi og eimyrju, þá er töluverður aðdragandi að svo stórum viðburðum. Ekki skulum við örvænta, þótt hugarfarsbreytingin komi nokkuð seint í ljós hjá hv. þm., en minnast frásagnar eins flm., hv. 3. þm. Reykv., um frægan mann fornaldarinnar, Pál postula, sem var kominn nokkuð á fullorðinsár, þegar hann sneri frá villu síns vegar og hóf hrausta og öfluga baráttu fyrir guðskristnina í sínu föðurlandi og varð mikils megnugur að vinna því máli gagn.

Eins og ég hefi lýst hér, þá er ekki hægt að segja annað en að það sé ærið mislit gæran á hv. flm. þessa frv. Það, sem einn segir, rífur annar niður jafnóðum. Og það er engu líkara en að þeir hafi hreint og beint villzt inn á þetta frv. Þeir hafa sýnilega mætzt á einum krossgötum, nefnilega því sameiginlega áhugamáli að koma bannlögunum fyrir kattarnef, og þeim tryggingum, sem enn eru eftir og í lögunum felast, sem hamla móti vínnautn. En um árangurinn af þessu, eða um leiðirnar til þess að vinna að endurbótum, um það eru þeir jafnósammála og þeir eru margir, sem talað hafa í þessu máli.

Hv. þm. Str. hefir nú minnzt á mörg einstök atriði í þessum ræðum, svo að ég get sleppt sumu þess vegna. Ég ætla þá að fara öfuga boðleið og byrja á hv. þm. Vestm. Þegar hann var búinn að uppnefna bindindismenn og bindindisstarfsemi í landinu, þá talaði hann um, að bannlögin leiddu af sér bölvun. Hann dró þessa ályktun af því, að hér væri svo mikið drukkið og lögin yfirleitt brotin. En það hefir verið bent á það áður í þessum umr., að þessi „bölvun“, sem þm. talar um, hún kemur fram í því, að hér er minna drukkið en nokkurntíma áður, í fyrsta lagi. Og hún kemur ennfremur fram í því, að þrátt fyrir það los, sem yfirleitt hefir orðið á hugsunum og athöfnum manna síðan heimsstyrjöldina bar að höndum og hefir aukið stórkostlega drykkjuskap annarsstaðar, þar sem allt er frjálst, þá hefir okkur þó einum þjóða á þessu umróta- og byltingatímabili tekizt að hamla svo upp á móti með bannlögunum annarsvegar og bindindisstarfsemi hinsvegar, að drykkjuskapur hefir minnkað frá því, sem áður var, og við höfum getað haldið honum að öllu leyti í skefjum. Og samt segir hv. þm., að bannlögin hafi orðið okkur til bölvunar. Þetta er hin mesta fjarstæða hjá hv. þm. Hann er á refilsstigum staddur með forsendur sínar, enda er niðurstaðan um lausn áfengismálsins þar eftir.

Þá kom hv. þm. með kynlega röksemd, sem átti að kollvarpa gersamlega öllu því, sem við hv. þm. Str. og hv. þm. Ísaf. sögðum um þetta mál. Röksemdin var sú, að við hefðum aldrei bragðað vín og værum við þess vegna gersamlega ódómbærir um þessa hluti. M. ö. o., að þeir einir, sem drukkið hafa vín, gætu komið til mála um að dæma í málinu. Rökrétt frá því er að álykta, að því meir og því verr, sem þeir hafa drukkið, því dómbærari yrðu þeir um vínið. Hér er þá farið að draga menn í dilka um aðstöðu þeirra til þjóðmála, yfirleitt. Það gæti leitt til þess, að bóndi uppi í sveit, sem aldrei hefir á sjó komið, sé algerlega ódómbær um allt, sem sjóinn snertir. Ekki veit ég betur en að hv. 1. þm. Eyf. hafi verið bóndi í sveit, og efast hann þó ekki um hæfileika sína til að vera forsvarsmaður fyrir Siglfirðinga og dæma um þeirra mál, eins og hann væri hold af þeirra holdi og blóð af þeirra blóði. Þetta bendi ég á til að sýna, hve ógurlega miklum villigötum menn lenda á, þegar þeir fara að draga í dilka. Þetta bendir helzt til þess, að hv. þm. Vestm. væri kaþólskrar trúar, sem ég ætla svo sem ekkert að lasta út af fyrir sig. En það er, sem kunnugt er, einn liður í trú þeirra manna, að eftir að maðurinn hefir eytt sínum hérvistarárum, eigi hann að ganga gegnum hreinsunareld, áður en hann sé hæfur fyrir sælubústaðinn. Nú er eins og hv. þm. vilji færa þessa hugmynd um hreinsunareld út á svið veraldarvafstursins, þar sem hann virðist halda fram, að menn verði að ganga gegnum hreinsunareld víndrykkjunnar eða ofdrykkjunnar, þennan líka hreinsunareld, til þess að öðlast þá dómgreind, sem geri þá hæfa til að taka þátt í áfengislöggjöf.

Hv. þm. Vestm. byrjaði og endaði ræðu sína með því að tala um bölvun bindindisins. (JJós: Þetta eru rangfærslur). Ég hélt, að hv. þm. hefði verið farinn að sýna viðleitni til afturhvarfs, en nú get ég engar reiður hent á honum meir. Hann sagði, að áður en bannið kom, hefði brennivínið verið selt við búðarborðið, og það var drukkið og menn grettu sig, sagði þm. Og þetta, að menn grettu sig, áleit hann að hefði verið svo mikil viðvörun fyrir unglingana um að villast ekki inn á þessa braut. En þetta hefir nú ekki reynzt næg viðvörun, því að kynslóð eftir kynslóð var drukkið við búðarborðið, þangað til bindindismennirnir í landinu, þessi „dusilmenni“, sem þm. kallaði svo, ráku ófögnuðinn út úr búðunum með sínu bindindisstarfi og með bannlögunum.

Hv. þm. lýsti því yfir, að sér hefði einhverntíma þótt gott í staupinu, svo að þetta, að menn grettu sig, hefir ekki verið nægileg viðvörun fyrir hann. Hann hefir ekki lagt svo á flótta þó hann sæi menn gretta sig yfir víninu, að hann hafi engin kynni af því haft.

Hinsvegar hefir hv. þm. réttilega lýst því yfir, að hann væri nú orðinn bindindismaður. Sér maður á því, að þrátt fyrir alla þá bölvun, sem hv. þm. telur, að bannlögin hafi leitt yfir þjóðina, hefir hann getað færzt yfir á það þroskastig að losna undan áhrifum vínsins. Þannig mælir allt á móti hinum rammskökku ályktunum hv. þm.

Hv. þm. talaði um, að bannstefnan hefði ruglað bindindisstarfsemina í landinu. Þar er rétt, að þegar bannið kom dró nokkuð úr bindindisstarfseminni í bili. Bindindismenn álitu í upphafi, að þetta takmark, sem þeir höfðu náð með því að koma á banninu, væri það haldgott, að málefninu að skaðlausu mætti draga nokkuð úr bindindisstarfseminni. En menn verða að athuga það, þegar talað er um, hvernig bannlögin hafi reynzt hér á landi, að hér hefir aldrei verið fullkomið bann á innflutningi víns. Á bannlögunum hafa verið frá upphafi stórar gloppur. Læknum landsins var alltaf leyft að hafa vín um hönd, og þeir misnotuðu það leyfi svo mjög sumir hverjir, að það dró mjög úr gildi bannsins. Þar við bættist konsúlabrennivínið. Sendiherrar erlendra ríkja máttu alltaf flytja inn vín óhindrað. Höfðu þeir svo marga mikilsmetna menn í boðum hjá sér og gátu haldið þeim í trúnni og freistað þeirra í þessu efni. Og það gerðu þeir, því vitanlega var vínið flutt inn til þess að veita það og sýna með því höfðingsskap.

Þriðja gloppan á bannlögunum var sú, að iðnaðarmenn gátu einnig fengið spíritus. Öll þess vansmíði á bannlögunum urðu þess valdandi, að ekki verður dæmt um það af ástandinu hér, hvernig algert vínbann hefði verkað. Þegar svo Spánarundanþágan var veitt, varð það bannlögunum og bannstefnunni ennþá meira reiðarslag. Af þessu leiddi það, að þó bindindismenn drægu nokkuð úr hinni miklu starfsemi sinni fyrst eftir að bannið gekk í gildi, þá sáu þeir fljótt, að eins og sakir stóðu var ekki hægt að líta á bannið nema sem mikilsverðan stuðning í baráttunni gegn víninu. Sóttu þeir því von bráðar í sig veðrið og hófu sókn af nýju, sem enn er haldið áfram. Er því alrangt það, sem hv. þm. Dal. sagði hér áðan, að bindindismenn hafi lagt árar í bát þegar bannið komst á, enda færði hann engin rök fyrir þeirri fullyrðingu, fremur en öðru, sem hv. flm. frv. halda hér fram. Hér hefir haldizt í hendur á síðari árum barátta bindindismanna annarsvegar, og sá stuðningur, sem bannlögin hafa veitt starfsemi þeirra hinsvegar, þrátt fyrir það, hvað ófullkomin þau eru og hafa verið. Með þessum tveimur vopnum hefir náðst sá mikilsverði árangur, að okkur hefir tekizt að standa á móti því vínflóði, sem umrót og byltingar síðustu ára í hugsunarhætti og lifnaðarháttum þjóðanna hefir leitt yfir önnur lönd. Það er því hið mesta öfugmæli og argasta rangsleitni gagnvart bindindismönnum í landinu og gagnvart áfengislöggjöf okkar, svo ófullkomin sem hún þó er, að tala um, að þetta hafi leitt bölvun yfir þjóðina. Og þegar hv. þm. er að tala um hræsni hjá þeim mönnum, sem að bindindisstarfseminni í landinu standa, þá er það svo rangt og óverðskuldað sem frekast má verða. Því þó margir þegnar þessa lands, bæði karlar og konur, leggi fram mikilsvert starf í þágu alþjóðar án endurgjalds, þá mun enginn flokkur manna hafa unnið eins óeigingjarnt verk til þjóðþrifa eins og bindindismenn. Þeir hafa sannarlega lagt fram mikið starf og eytt miklum kröftum fyrir hið góða málefni, ekki til þess að hljóta laun fyrir í peningum, heldur til þess að vinna þjóðinni gagn og efla velferð meðborgara sinna. Dómur hv. þm. um þessa menn er því efalaust sá harðasti, ranglátasti og óverðskuldaðasti dómur, sem upp hefir verið kveðinn á landi hér. Það var ekki að ástæðulausu, að hv. þm. minntist á stóradóm í þessu sambandi. Stóridómur hefir hingað til verið illræmdastur dóma á Íslandi. En dóm hv. þm. yfir bindindismönnum landsins, þeim, sem fremstir hafa staðið í baráttunni, er ekki ástæða til að setja í hærri sess heldur en hinn illræmda stóradóm.

Í áframhaldi af því, sem hv. þm. var að tala um þá bölvun, sem ráðstafanirnar gegn vínnautn í landinu hefðu valdið þjóðinni, minntist hann á einhvern ósigur í þessu máli. Ég sé ekki, að hægt sé að finna þeim orðum neinn stað, nema ef kalla á það ósigur, að tekizt hefir betur hér en annarsstaðar að halda drykkjufýsn manna í skefjum. Mér virðist hv. þm. hálfvegis hnjóta um þetta orð, drykkjufýsn. Það má vel vera, að drykkjufýsnin sé alltaf til staðar, a. m. k. sumstaðar, en það hefir þá tekizt að halda því allmikið til baka, að þeirri fýsn væri fullnægt. (JJós: Hv. þm. veit ekkert, um hvað hann er að tala). Já, einmitt! Eru þetta nú orðnar þær einustu einu útgöngudyr, sem hv. þm. hefir, þau einu rök, sem hann hefir til varnar sínum málstað, að þeir, sem ekki hafa sjálfir komizt undir áhrif vínnautnarinnar, séu ekki dómbærir í þessu máli og geti enga þekkingu á því haft. Ég býst nú við, að þær dyr séu það þröngar, að hann eigi erfitt með að bjarga sér út um þær, og sýnir hann það e. t. v. síðar hér í hv. d.

Hv. þm. kom ennfremur inn á það, að hann vildi láta gera hreinar línur í þessu máli. Hv. 1. flm. (JAJ) sagði, að það væri hreinasta vitleysa að takmarka innflutning víns með banni, og hv. þm. Vestm. vildi fá hreinar línur í þessu efni. Þetta er eitt af því fáa, sem fellur í faðma hjá hv. flm. þessa máls. Oftast rekst það allt hvað á annað, sem þeir halda fram. Þegar maður nú athugar þessi ummæli hv. flm. annarsvegar, og sum ákvæðin í frv. hinsvegar, þá sér maður, að annaðhvort meina þeir ekkert með því, sem þeir eru að segja, eða þá, að frv., sem þeir flytja, er í algerðu ósamræmi við skoðanir þeirra, Því það er eins og hv. þm. Ísaf. benti á, að þrátt fyrir andstyggð hv. flm. á banninu, þá halda þeir í ýmiskonar bann með frv. Hér í 14. gr. frv. er t. d. bannað að selja þeim mönnum vín, sem ekki hafa náð 21 árs aldri. Þarna halda hv. flm. í brot af banninu og viðurkenna þar með bannstefnuna. Þeir viðurkenna bannið sem gagnlega ráðstöfun á því sviði, þar sem þó er miklu hæpnara, að það komi að gagni, heldur en þegar bannaður er alveg innflutningur á vissum tegundum drykkja. Með þessu eru hv. flm. komnir í algerða mótsögn við sjálfa sig. Bendir það á, að þeir hafi lítið athugað þá leið, sem þeir leggja til, að farin sé í þessu máli. Frv. hefir sjálfsagt verið samið af allt öðrum mönnum, og fengið hv. flm. upp í hendurnar. Þeir hafa komið sér saman um það eitt að ráðast á bannlögin, og nota svo til þess þetta frv.; láta sig engu skipta, þó það sé ekki í samræmi við skoðanir þeirra, skrifa bara nöfn sín undir það og kasta því svo inn í þingið. Þegar þeir fara svo að tala um málið frá eigin brjósti, í stað þess að lesa upp úr frv., þá kemur þeirra innri maður í ljós og þá stangast þetta allt saman hjá þeim.

Hv. þm. Vestm. var að tala um það sem einn af höfuðókostum núgildandi áfengislaga, að nú færi drykkjuskapurinn fram í skúmaskotunum. Menn neyddust til að skríða í felur með vínið og reyndu að halda sér frá alfaravegi á meðan menn væru undir áhrifum þess. Maður skyldi nú halda, að samkv. þessu væri frv. byggt á þeim grundvelli, að svipta ætti af öllum hömlum, svo að menn þyrftu ekki lengur að skríða í felur með þessi „forsvaranlegu“ vín, eins og hv. þm. Ak. komst að orði hér um daginn - ég vík nú að því síðar, í dag eða á morgun. Maður skyldi ætla, eftir hinum frjálslega hugsunarhætti, sem fram kemur hjá hv. flm., að frv. væri þannig úr garði gert, að menn þyrftu ekki lengur að fara út í skúmaskotin til að gleðja sig yfir vínunum, sem hv. þm. G.-K. sagði um daginn, að væru svo ljúffeng og góð, þó af þeim leiddi að vísu mikla bölvun fyrir þjóðina! En hvað segir nú í frv.? Ég kemst ekki hjá að taka upp heilan bálk úr því, til þess að sýna, hvað skoðanir hv. flm. stangast við það, sem Guðmundur Hannesson eða einhver slíkur maður hefir fengið þeim upp í hendurnar. Það er fyrst kaflinn um ölvun, VI. kafli frv. Þar segir: „Hver sá, sem sökum áberandi ölvunar veldur óspektum eða hneykslum á almannafæri, opinberum samkomum eða skipum hér við land, skal sæta ábyrgð samkv. lögum þessum“. Brot gegn þessari gr. varða samkv. refsiákvæðum frv. „sektum frá 25-500 kr., nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum“.

Hvað heldur nú sá hv. þm., sem var að tala um þá bölvun, sem af bannlögunum leiddi vegna þess, að þau neyddu menn til að fara út í skúmaskotin til að drekka, að þeir menn geri, sem hann vill leggja á svona hömlur, sem geta þurft að greiða allt að 500 kr. sekt eða afplána hana með 30 daga fangelsi, ef þeir játa sjá sig drukkna á almannafæri, skv. till. hv. þm. sjálfs. Það er víst ekki verið að reka þá út í skúmaskotin með þessum ákvæðum, sem ekki geta neitað sér um að drekka sig fulla.

Þá kemur 20 gr. Hún er um það, ef embættismenn ríkisins játa nú sjá sig drukkna við embættisfærslu sína. Hv. þm. á sinn mikilsverða þátt í því að gera þeim mögulegt að vera ölvaðir, ef þetta frv. væri samþ. En refsingin við því er hvorki meira né minna en embættismissir, við ítrekuð brot. Þegar maður lítur á hinn frjálslega hugsunargang hv. þm. og hina miklu fyrirlitningu á öllum lagahömlum á þessu sviði, þá virðist þetta muni vera allharkalega að farið frá hans sjónarmiði.

Þá koma lyfsalarnir. Séu þeir ölvaðir við starf sitt, sem vitanlega fer fram svo að segja á almannafæri, eiga þeir ekki síður að fá sína krúnu kembda. Sama er að segja um skipstjóra, vélstjóra, bílstjóra og flugmenn o. s. frv. Yfir öllum þeim, sem starfa í þágu almennings á að vofa sama sverðið, stöðumissir og sektir, ef þeir neyta víns. Þessi hörðu refsiákvæði virðast vera þungamiðja frv., og þó tala hv. flm. með mestu fyrirlitningu um þá löggjöf, sem stefnir að sama marki.

Hv. 1. flm. bar sig mjög aumlega yfir því, að einhver vesalings bannlagabrjótur hefði nú nýlega verið dæmdur til refsingar, sem hann taldi allt of harða. Ég held nú, að þennan mann, sem hv. þm. aumkaði svo mjög, hefði ekki síður verið hægt að dæma nokkuð harkalega eftir 13. gr. þessa frv. Samkv. henni virðist mér, að sektin fyrir samskonar brot og þessi maður var dæmdur fyrir, geti komizt upp í 2000 kr.

Það er ekki að furða, þó hv. þm. Vestm. talaði mikið og drýgindalega um það, að hana vildi draga hreinar línur í þessu máli. Ég gæti bent honum ennþá betur á það með meiri upplestri, hvað hann er algerlega í mótsögn við sjálft frv. í þessu efni.

Það má auðvitað öllum ljóst vera, að ég er ekki með þessu að tala á móti þeim takmörkunum, sem í frv. felast. Þær eru sjálfsagðar, þó að þær þurfi að vera meiri. Ég vildi bara benda hv. þm. á það, hvað mikið ósamræmi er milli þess, sem hv. flm. segja í ræðum sínum, og frv. Það er náttúrlega talsvert mikilsvert atriði í þessu máli, til viðbótar við allt annað, sem mælir á móti framgangi frv., að sýna fram á, hvað sú leið, sem hér er lagt til, að farin sé í áfengismálunum, er lítið hugsuð, og hvað hún er ósamræmanleg við skoðanir þeirra manna, sem að frv. standa.

Ef það er rótgróin skoðun hv. þm. Vestm. og annara flm. frv., sem undir það hafa tekið með honum, að ekkert sé að marka dóma þeirra manna í þessu máli, sem ekki hafa verið drykkjumenn, þá eru þeir þó í samræmi við sjálfa sig að því leyti, að með þessu frv. vilja þeir opna leið fyrir sem flesta til þess að drekka vín og verða þar með dómbærir á þetta mál. Ég hefi áður lýst afstöðu minni til þeirrar skoðunar, að menn eigi að sækja dómsöryggi og heilbrigðar skoðanir á löggjafarmálefni inn á leiðir vínnautnar og óreglu. Það er a. m. k. á ákaflega takmörkuðu sviði, sem hægt er að taka undir hana, enda er hún í ósamræmi við framkomu þessara hv. þm., því þeir hafa hér kveðið upp dóma um starfsemi, sem þeir aldrei hafa verið þátttakendur í, og hluti, sem þeir ekki þekkja, engu síður en hinir, sem ekki þekkja nautn áfengis af eigin raun.

Hv. þm. G.-K. minntist á, að sér þætti ekkert skemmtilegt að ræða um þetta mál, og viðurkennir hann þannig, að hann hefir hér ekki brotið upp á umræðuefni, sem honum er sérstaklega hugstætt eða ánægjulegt. Hann sagði, að við þremenningarnir. hv. þm. Str., hv. þm. Ísaf. og ég, töluðum hér nánast sagt eins og fylliraftar. Ég verð að benda á, að þarna er þegar komin viðurkenning fyrir því, að ekki er mikið upp úr því leggjandi, að við séum ódómbærir í þessu máli, af því að við höfum ekki bragðað vín, eins og hv. þm. Vestm., en við höfðum þó þann keim af þessum mönnum, sem hafa aflað sér fullkominnar undirstöðu til þess að geta dæmt um málið með því að drekka vín, að við töluðum eins og fylliraftar.

Hv. þm. G.-K. kannaðist vel við það, að þótt það væri „notalegt“ að drekka vín, þá fylgdi því þó mikil bölvun, og með því gaf hann okkur viðurkenningu fyrir því, að okkar barátta móti ofdrykkjunni væri þó góð og virðingarverð. Það var ákaflega ólíkur dómur, sem hv. þm. G.-K. felldi yfir bindindismenn og starfsemi þeirra, eða sá, sem hv. þm. Vestm. felldi yfir þeim, þar sem hann telur, að starfsemi þeirra byggist á hræsni og yfirdrepskap. (JJós: Það voru ekki mín orð). Það var skrítið. Svo oft nefndi hann hræsni og yfirdrepskap í sambandi við þessa menn, að ekki var hægt að skilja annað en að hann ætti við þá. En kannske hv. þm. vilji taka það aftur?

Hv. þm. G.-K. kannaðist fullkomlega við það, sem var alger mótsetning við það, sem hv. 1. flm. (JAJ) hafði haldið fram, að af þessu mundi leiða aukinn drykkjuskap, a. m. k. fyrst um sinn. Þar gaf hv. þm. hv. flm. stærri löðrung en ég með því, sem ég hafði sagt til andmæla í þessu máli, bæði af því, að það var svo skýrt og skorinort hjá hv. þm., og af því, að þessi áminning var miklu sterkari frá hans hendi en minni, þar sem hann er hans samherji að öðru leyti í málinu og þar sem hann hafði falið honum umboð til þess að flytja þessa frumræðu. Það má því draga niðurstöðu þessa hv. þm. saman í tvær setningar, þannig: illt var það, en verra verður það. Hinsvegar veit ég, að hv. þm. gengur e. t. v. með óljósa hugmynd um það, að þetta batni allt saman aftur. En bótin liggur þá í því, að hafin verði aftur á ný sú bindindisstarfsemi, sem við nú búum við. Hv. þm. þótti líka ósamræmi í því, eins og það líka er, að hafa til sölu létt vín, sem hann sagði, að menn lærðu að drekka á. En hv. þm. veit vel, hvernig það er til komið, að þessi Spánarvín eru flutt inn. Þjóðin átti um það að velja að missa fiskmarkaðinn eða leyfa innflutning á víni. En ég vil benda á það, að sumum hv. þm. þótti þó ekki í fyrra vera lögð nægileg gildra fyrir menn til þess að læra að drekka með þessum Spánarvínum og vildu láta brugga létt öl í landinu, og var vitanlega fyrirsjáanlegt, að afleiðingarnar yrðu þær, að fleiri færu að drekka og yrðu ofdrykkjunni að bráð.

Hv. þm. G.-K. sagði, að jafnmargir „sjússar“ mundu vera drukknir hér og sódavatnsflöskurnar, sem seldar væru á þessu landi. Ég er nú harla fáfróður um þessa hluti, en ég þóttist nú samt komast að meiningunni um það, hvað „sjússar“ væri. (ÓTh: Það er whisky og sódavatn saman). Mér finnst hv. þm. tala með of mikilli léttúð um þetta mál. Þó maður geti hlegið að einstökum atriðum, sem koma fram, þá er þó málið í heild sinni svo mikið alvörumál, að það veltur ekki lítið á um örlög þjóðarinnar, hvort hægt er að halda drykkjuskapnum í skefjum. En hitt er vitanlegt, að tilbúningur sódavatns byggist á því að hafa það sem þorstadrykk, auk þess sem það er flutt út úr landinu. Og til lækninga, skýtur hér einn læknir að mér. Þó þetta sé lítilfjörlegt atriði, þá má þó benda á það sem dæmi þess, að farið er að fara með málið út fyrir þau takmörk, sem rétt er að hafa, þegar verið er að ræða um slíkt mál sem þetta.

Hv. þm. G.-K. og hv. þm. N.-Ísf., 1. flm. þessa máls, töluðu allmikið um smyglun. Hv. flm. var ekkert að draga við sig fullyrðingar um það, að með samþykkt frv. myndi smyglun hverfa og öll slík hætta myndi ekki lengur vera fyrir hendi. Hann vildi halda því fram, að menn hefðu í rauninni verið neyddir til þess að smygla, af því að þeim hefði verið fyrirmunað að ná í þessi vín. Það er náttúrlega hægt að segja, að það geti stjórnazt af nauðsyn, ef menn gerast fjölþrifnir um einhverja hluti. Mönnum er ekki einungis með l., heldur einnig í boðorðum kristinna manna bannað að stela. En það getur verið af nauðsyn, sem menn grípa til þess að stela, en mér er ekki kunnugt um það, að þessi hv. þm. eða aðrir hafi viljað breyta þessari löggjöf í það horf, að ef einhver slík nauðsyn lægi á bak við gripdeildir, þá varðaði það ekki hegningu. En það er talið svo mikils um vert að sporna á móti slíku, að hverjar sem orsakirnar eru, þá beri að hegna fyrir það, til þess að taka fyrir, að slíkt endurtaki sig. Þess vegna er það engin undantekning um þessa löggjöf, að það sé nokkur ástæða til þess að breyta löggjöfinni, þó einhverjir kunni að álíta, að nauðsyn sé að ná í slík vín. Það er síður en svo. Hv. þm. hélt því fram, að þegar þessi nauðsyn sé ekki lengur fyrir hendi, þá muni taka fyrir alla smyglun, og úr því að farið er tala um nauðsyn, þá getur fleira komið til greina en þetta. Það gæti hugsazt t. d. að taka, að þessir menn, þegar heimilt er að flytja þessi vín inn í landið, gætu fullnægt þessari nauðsyn með því að fá vín, sem seld verða eftir því, sem hér er ætlazt til, með ákaflega háu verði, 20 kr. whiskyflaskan, og þá gæti hugsazt, að einhverjir fyndu til nauðsynjar á því að afla sér þess á sem ódýrastan hátt. Sú nauðsyn er alltaf til staðar að afla sér hluta á sem ódýrastan hátt. Nú ætla ég, að það verði mikill munur á útsöluverði þessa víns og innkaupsverðinu. Ætli það verði ekki einhverjir, sem reyna að fullnægja þessari nauðsyn sinni, að geta fengið sem ódýrast vín. Og það er enginn vafi á því, að hér mun verða smyglað eftir sem áður, þrátt fyrir þessa löggjöf. Ég held, að þeir menn, sem þannig hafa syndgað upp á náðina og brotið bannlögin með því að smygla inn víni, muni gera það áfram. Og þó það sé hægt að skrifa ýmsar syndir hjá útvarpinu, þá er ekki hægt að skrifa þær allar þar.

Ég hefi nú held ég komið inn á flest atriði hjá hv. þm. Ak., að því leyti sem hv. þm. Str. hefir ekki gert það, því hann kippti rækilega undan honum allri þeirri fótfestu, sem hann hafði, svo það er í rauninni ekki nema eitt eða tvö atriði í ræðu hans, sem ég finn ástæðu til að minnast á. Það kom fram hjá honum sama meinlokan og hjá hv. þm. G.-K. um þessa þörf til þess að fullnægja fýsnum sínum, sem smyglunin stjórnaðist af. Reynslan annarsstaðar bendir til þess, þar sem bannið hefir verið afnumið, eins og t. d. í Noregi, að þessi þörf, sem áður var talin byggjast á því að ná í vínið, byggist nú á því að fá það sem ódýrast. Svo þarna verður fyrir hendi nákvæmlega sama hættan og fyrir því, að smyglað verði inn í landið eins og er nú, með því ástandi, sem er hjá okkur. Á síðustu árum hefir það komizt upp í Noregi, að gerðar hafa verið tilraunir til þess að flytja inn heila skipsfarma af víni, en þessari starfsemi er að nokkru leyti hnekkt. Hvað mikið hefir orðið ágengt, veit maður ekki. Og svo halda menn því fram, að með þessum breyt., sem í frv. felast, verði algerlega tekið fyrir smyglun. Nei. Það þarf eftir sem áður að hafa þann mannafla og það fjármagn, sem nú er beint varið í þessu skyni. Það þarf engu síður að leggja það af mörkum, þó þessi löggjöf, sem hér er um að ræða, gangi í gildi, heldur en með því ástandi, sem nú er. - Hv. þm. G.-K. og sömuleiðis hv. þm. N.-Ísf. voru eitthvað að tala um það, að almenningsálitið myndi stimpla þá menn, sem smygluðu inn víni. Það hefir náttúrlega nokkra stoð í almenningsálitinu. En ég skil ekki, úr því að hv. þm. vilja kannast við, að almenningsálitið sé og verði nokkurs virði gagnvart smyglurum, hvernig á því stendur, að þeir geta þá ekki séð neina stoð í almenningsálitinu gagnvart heimabrugginu. Það er alkunnugt og vitað, að almenningsálitið er að rísa upp með miklum krafti gegn heimabrugginu og jafnframt því, sem það er að gerast með þjóðinni, þá er af hálfu hins opinbera lagt fram meira fé og meiri kraftar til þess að herja á heimabruggið en áður. En það er eina hugsanlega leiðin til þess að kveða heimabruggið niður, að hefja slíka sókn á þessa starfsmenn, og það er þegar farið að sýna sig, að þessi sókn á mikla stoð. En þetta er ólíkt því, sem hv. flm. þessa frv. ætla að fara að, því þeir ætla hreint og beint með sölu þessa innflutta víns að hlaða á tvennan hátt múrveggi kringum bruggarana og bæta þeirra aðstöðu, því í skjóli þessarar löggjafar geta bruggarar framleitt sitt brugg með góðum árangri. Og hinsvegar má öllum vera ljóst, hver munur á því er að hafa upp á bruggurum, þegar miðað er við ástandið, sem nú er, þar sem óheimilt er að hafa á boðstólum slíka sterka drykki, heldur en verður eftir að farið er að flytja brennivín og aðra drykki inn í landið, sem alstaðar má hafa á boðstólum. Það hljóta allir að sjá, hver aðstöðumunur það verður, að hafa hemil á bruggurum og gera upp á milli um það, hvað er heimabruggað og hvað innflutt vín. Þessi löggjöf verður því til að bæta aðstöðu þessara manna, einmitt á sama tíma, sem risin er upp sterk og öflug sókn á hendur þeim, sem gefur góðar vonir um, að einmitt með þessari aðferð sé hægt að kveða þennan ósóma niður. En þegar allt flýtur hér út í brennivíni, þá er nærri því loku fyrir það skotið, að það verði nokkurntíma hægt að ráða niðurlögum þessara herra.

Hv. þm. Ak. var eitthvað að efa það, að bindindismenn hefðu nú óskiptan hug þjóðarinnar að baki sér, en þeir hefðu haft hann áður en bannið kom. Þetta er náttúrlega alveg rangt, að þeir hafi haft óskiptan stuðning þjóðarinnar að baki sér áður fyrr, því þá hefðu þeir vitanlega ekki þurft að heyja slíka baráttu, sem oft var örðug fyrir það, hve þessi starfsemi vakti harðvítuga mótspyrnu oft og tíðum. Ég veit ekki, hvar hv. þm. hefir verið á þessu tímabili, ef hann hefir ekki orðið var við það. Slík barátta gegn ofdrykkjunni mætir ekkert frekar andstöðu nú en hér áður fyrr. Og það er algerlega rangt, að bindindismenn hafi aðra aðstöðu nú hjá þjóðinni heldur en þeir höfðu áður, og þess vegna alveg órökstuddur og óréttmætur sá dómur, að þjóðin sé ekki nú eins og áður líkleg til þess að vera á verði í þessum málum og taka þátt í þessari baráttu.

Ég minntist áðan lítilsháttar á ástæðuna fyrir því, að hv. þm. Ak. hefir gerzt flm. þessa frv. Ástæðan er sú, að ef frv. væri samþ., þá gætu menn fengið „forsvaranleg vín“, eins og hann orðaði það. Ég veit nú ekki vel, hvað hann á við með þessu orði „forsvaranlegt“. Hann vill e. t. v. ekki álíta Spánarvínin forsvaranleg. Ef hann t. d. álítur þau vín forsvaranleg, sem menn geta orðið drukknir af, þá eru Spánarvínin áreiðanlega forsvaranleg, því að eins og hann veit, þá geta menn orðið blindfullir af þeim. En þó að maður brjóti nú ekki heilann um það, hvað hv. þm. hefir átt hér við, þá er rétt að færa þetta orð „forsvaranlegt“ út á dálítið víðara svið. Vil ég þá fyrst spyrja hann að, hvort hann álítur forsvaranlegt, eins og nú stendur á hjá þessari þjóð, að opna allar gáttir fyrir takmarkalausu vínflóði. Álítur hann ástandið í þjóðfélagi okkar þannig, að ofan á alla aðra erfiðleika sé forsvaranlegt að opna slíkar flóðgáttir, án þess að nokkur fyrirstaða eða hömlur séu settar við því, að menn geti svalað drykkjufýsn sinni og eytt þar með fjármunum sínum og lífsþrótti, sem þjóðfélagið má nú sízt vera án á þessum erfiðleikatímum. (GK: Þessar gáttir eru nú opnar). Hv. þm. lítur þá svo á sína stöðu sem lögreglustjóra, að þessar gáttir séu opnar og þá auðvitað í hans umdæmi sem annarsstaðar. Þessi yfirlýsing hans er með öllu ósamrímanleg við það, að hann geti haldið áfram starfi sínu sem lögreglustjóri, því að með þessum orðum gefur hann þá yfirlýsingu, að hann uppfylli alls ekki embættisskyldur sínar. Hann má vara sig á því, sem hann er að segja hér. Hann hefir nú hlaupið í gönur með því að gerast flm. þessa frv. og verður nú að verja miklum tíma til að afsaka sig og segja, að hann meini ekki þetta og ekki hitt, en hann verður að gæta að sér að hlaupa ekki svo á sig, að hann gangi algerlega í berhögg við embættisskyldur sínar. En hvað sem öllu þessu líður, þá vænti ég þess, að við nánari athugun komist hv. þm., sem er nú að mörgu leyti athugull maður, að raun um það, að við megum ekki fórna á altari Bacchusar þeim kröftum, sem verður að heimta af hverjum manni til lausnar á vandamálum þjóðfélagsins.

Ég held, að það hafi þá ekki verið fleira í ræðu hv. þm., sem ég finn ástæðu til að minnast á að þessu sinni, þar sem hv. þm. Str. hefir tekið þessa ræðu til rækilegrar athugunar og bent hv. þm. á þá veilu og höllu aðstöðu, sem hann hefir í þessu máli.

Ég hefði náttúrlega þurft að verja nokkru meiri tíma til að svara hv. 1. flm. þessa frv. heldur en öðrum hv. þm., því að hann hefir lagt hér meira af mörkum en aðrir flm., en ég hefi nú þegar að nokkru leyti svarað honum í þeim samanburði, sem ég hefi gert á framburði hans og annara flm., og sýnt fram á, hve greinilega þeir stangast á í þessu máli, og að nokkru leyti hefi ég svarað honum með því að svara því í ræðum hv. meðflm. hans, sem er samhljóða hans skoðun. Ég get því stytt svar mitt til hans allmikið frá því, sem annars hefði verið.

Það kom greinilega í ljós í ræðu hv. þm. Dal., að hv. flm. ern algerlega ósamþykkir innbyrðis um það, hvort þjóðaratkvæði eigi að fara fram um þetta mál. Hv. 1. flm. mótmælti því harðlega, að þjóðaratkvæði skyldi fara fram, en hv. þm. Dal. vildi ganga inn á það og sagðist mjög vel geta sætt sig við þá afgreiðslu þessa máls.

Ég get ekki komizt algerlega hjá því að minnast á þau rök, sem hv. þm. N.-Ísf. bar fram fyrir því, að hann vildi ekki þjóðaratkvæði. Aðalrökin vora þau, að bruggarar landsins og ég held smyglarar líka mundu falla á sveif með bindindis- og bannmönnum. Ég hafði satt að segja ekki búizt við því, að hv. 1. flm. mundi seilast svo um hurð til lokunnar í rökvillum sínum í þessu máli, eins og hann gerði um þetta atriði. Ég vil bara skjóta þessu undir dóm heilbrigðrar skynsemi: Hvorum eru bruggarar og smyglarar líklegri til að fylgja, þeim mönnum, sem leggja fram alla sína orku til að berja þá niður og eru þegar vel á veg komnir til að eyðileggja þessa starfsemi þeirra, eða þeim, sem vilja tryggja sem bezt þeirra afkomu í nútíð og framtíð, eins og ég hefi lýst, að þeir eru að gera með þessu frv. sínu. Þeir eru þá nokkuð öðruvísi gerðir en aðrir menn, ef þeir ráðast svo greinilega á sína eigin hagsmuni, að þeir færu að berjast á móti því, að þessi skjaldborg verði slegin um þá, sem þessir 11 flm. þessa frv. vilja nú gera. Þetta er svo mikil reginfjarstæða, að það nær engri átt að draga það inn í þessar umr. Þeir mundu áreiðanlega snúast í lið með hv. þm. N.-Ísf. og félögum hans, sem vilja nú með þessari lagasetningu taka frá bruggurum og smyglurum þann beizka kaleik, sem nú hefir átt að rétta þeim með því að eyðileggja þessa starfsemi. þeirra. Hv. þm. N.-Ísf. getur því óhræddur skotið þessu máli undir þjóðaratkvæði. Hann má vera viss um, að hann fær atkvæði hvers einasta bruggara með því, að bannið verði afnumið.

Hv. 1. flm. var eitthvað að tala um það, að blað bindindismanna væri að smjatta á ósómanum út af atviki, sem kom fyrir nýlega og sýnir glögglega, hvert stefnir í þessum málum, þar sem tekinn var sá maður, sem bindindisvinum var mestur þyrnir í augum, og starfsemi hans eyðilögð. Ég vil aðeins benda á, að í ummælum þessa blaðs fólst ekkert nema leiðrétting á mjög óviðeigandi frásögn, sem birtist í einu dagblaði um þessa viðburði. Öll frásögn þessa dagblaðs var óviðeigandi og blaðinu sízt til sóma.

Hv. 1. flm. minntist á það í ræðu sinni, að enginn heiðvirður borgari vildi svíkja land sitt með því að smygla inn vini. Þetta er alveg satt, og það á við um öll þau l., sem banna að gera það, sem órétt er, að þeirra þarf ekki við vegna heiðvirðra borgara, heldur þeirra, sem hafa löngun til að gera það, sem vítavert er.

Hv. þm. var að kvarta yfir, að ég hefði verið nokkuð nærgöngull við sig í minni fyrri ræðu, og ég hefði tekið nokkuð harkalega á þessu máli. Hann sagði einnig, að ég hefði leikið þar fíflið. Ég skal ekki reyna að raska skoðun hv. þm. á þessu, en þegar hann sagði, að ég hefði leikið fíflið í þessu máli, þá datt mér bara í hug, að e. t. v. hefðu þessir hv. flm., þegar þeir gerðu hv. þm. N.-Ísf. að 1. flm., litið svo á, að fíflinu skyldi á foraðið etja, en ég skal ekki fara lengra út í það.

Annars vil ég benda á það, hvað ýmsir hv. flm. hafa talað ólíkt hv. 1. flm. Þeir hafa þannig ekki viljað fela honum alla sína forsjá og hafa því bætt allmiklu við frá eigin brjósti, en aðeins látið hann ríða á vaðið. Ég verð að virða þessum hv. flm., það til vorkunnar, þó að þeir vilji heldur skirrast við að ganga fremstir í slíku máli sem þessu og verða fyrstir til að tala fyrir því, en kjósi heldur að fara í þá slóð, sem hv. 1. flm. hefir nú troðið með þessari fyrstu göngu sinni.

Hv. þm. talaði um, að það væri hreint og beint heimska að vilja torvelda innflutning á víni. Ég hefi bent á það áður, að með því að halda áfram rökréttri afleiðingu af þeirri heimsku, þá sé það líka heimska að banna að selja vín þeim mönnum, sem ekki hafa náð tvítugsaldri. (LH: Hv. þm. getur borið fram brtt., ef hann vill.) Já, það væri nú meiri náðin! Þeir líta þó ekki svo stórt á þessa lagasmíði sína, að hún sé svo fullkomin, að brtt. megi alls ekki komast að. (LH: Hefir nú hv. þm. breytt um skoðun?) Nei, ég var bara að tala út frá sjónarmiði þessara hv. flm. og nudda þeim þannig lítið eitt upp úr sínum eigin lút, sem mér virðist, að þá sé nú farið að svíða allmikið undan.

Hv. 1. flm. minntist í sambandi við þetta mál á atvik, sem gerðist hér á þingi fyrir nokkru, en er algerlega óskylt þessu máli. Ég kannaðist undir eins við, hvað það var, sem hv. þm. átti hér við. Svoleiðis var, að fyrir nokkru var deilt allmikið hér á þingi um löggjöf um refaeldi hér á landi. Var þar sérstaklega eitt atriði, sem okkur kom ekki saman um, og hv. d. sýndi með atkvgr. sinni, að hún áleit, að ég hefði á réttu máli að standa, en hv. þm. N.-Ísf. hefði rangt fyrir sér, enda reyndist það líka svo. Hv. þm. sagði, að með því að samþ. till. mínar væri kippt grundvellinum undan allri refarækt landsins. Ég benti honum á bróður hans, sem nýlega hefði haldið fyrirlestra um þetta mál, og öðruvísi hefði sungið í honum. En ég vil benda á, að það tók fyrir sölu lifandi refa til útlanda vegna þess, að í Noregi var mikill vöxtur í refarækt, og til þess að geta fjölgað refunum nógu mikið, keyptu þeir mikið af refum hér á landi. En verðið á þessari vöru lækkaði síðar mjög mikið, og tók þá fyrir allan útflutning á þessum dýrum, svo að sala á lifandi dýrum varð þá eingöngu að byggjast á sölu innanlands, en hún hvarf líka sökum þess, hve verðið lækkaði mikið. En það, sem gerði mig mest undrandi yfir því, að hv. þm. N.-Ísf. skyldi fitja upp á þessu, var það, að hann var með till. sínum að berjast fyrir hagsmunum tveggja sérstakra refabúa hér á landi, og því undarlegra var, að hann skyldi minnast á þetta, sem fyrir öðru refabúinu stóð maður honum nákominn. Hv. þm. hefði átt að láta sér nægja þá útreið, sem hann fékk hér um árið í þessu máli og þess vegna ekki átt að fara að vekja upp þetta mál, sem hann barðist fyrir vegna hagsmuna eins manns, sem var honum nákominn. (JAJ: Ég skal reka þetta allt saman ofan í hv. þm.). Hv. þm. getur það ekki. Hann hefir sett á sig svartan blett í þessu máli, og sá blettur verður alltaf svartari og svartari, eftir því sem hann minnist oftar á þetta mál. (Forseti (JörB): Ég vil biðja hv. þm. að halda sér við það mál, sem nú er til umr.). Hæstv. forseti verður að skrifa þetta á reikning hv. 1. flm., því að það var hann, sem innleiddi hér þessar refaumr., sem hann sjálfs sín vegna hefði ekki átt að gera. Hann er í sambandi við þetta frv. kominn út á nógu mikla refilsstigu, þó að hann fari ekki að blanda refaræðum inn í málið. (LH: Er nú allt búið?). Hv. þm. V.-Sk. hefir nú verið að tvístíga hér í kringum mig og kvartað yfir því, hvað ég væri langorður, en svo ef ég geri andartakshlé, þá hefir hann enga ró í sínum beinum og þolir ekki við af hræðslu yfir, að ég fari að hætta. Nei, ég get sagt hv. þm., að ég er ekki alveg búinn enn. Það var enn eitt atriði í ræðu hv. 1. flm., sem ég þurfti að koma að. Hann sagði, að nú væru mjög heppilegir tímar til að leysa upp bannið. Og af hverju? Af því að nú væri svo þröngt í búi hjá þjóðinni og hún hefði svo lítið fé handa á milli, að líklegt væri, að menn keyptu minna vín heldur en ef þeir hefðu mikla peninga handa á milli. Ég vil nú biðja menn að athuga það, að uppistaðan og fyrirvafið í þeim vef, sem hv. þm. var að vefa í tveimur sínum fyrri ræðum, var það, að ofdrykkju mætti útrýma með því að afnema bannlögin, og síðan segir hann þetta, að það verði bara getuleysið til að kaupa vínið, sem muni hamla mönnum frá ofdrykkjunni, ef bannlögin verða afnumin. Menn sjá því, að hér er um algerða mótsögn að ræða. Annaðhvort hefir hann verið að mæla á móti betri vitund, þegar hann var að útmála á allan hátt, að afnám bannlaganna minnkaði drykkjuskap í landinu, eða þá að ummæli mín og hv. þm. Str. og hv. þm. Ísaf. hafa vakið hann til það mikillar umhugsunar um þetta mál, að hann gefur nú þessa játningu og strikar þá um leið út allar þær fullyrðingar, sem hann hefir áður haft í frammi um þetta, og um leið er þá allur sá grundvöllur runninn undan honum.

Ég hefði þó dálítið að segja enn út af ræðu hv. þm., en verð að enda með því að benda á þetta ósamræmi og það öngþveiti, sem hann er kominn í með röksemdir sínar, þar sem hann stendur á sandi og gersamlega að falli kominn.

Ég sé nú, að kl. er orðin 4, og enda þótt ég hefði mörgu við að bæta, þá hætti ég að sinni, en vona, að hæstv. forseti leyfi mér að gera aths. við ræður hv. flm. síðar.