29.03.1933
Neðri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (4681)

132. mál, bæjarútgerð Reykjavíkur

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Allir verða varir við það, að kreppan hefir lamað Reykjavík með þeim ofurþunga, er ráða má af skráningu atvinnulausra manna hér í bæ. Samkv. þessum skýrslum eru mörg hundruð manna atvinnulausir, og það sem meira er, að margir eru þeir, sem ekki hafa játið setja sig á skrár þessar, vegna þess að þeim hefir fundizt örvænt um, að slíkt mundi að nokkru leyti greiða úr vandræðum þeirra. Einkum verður þetta skiljanlegt, er vitað er, að útilokaðir voru allmargir menn frá bæjarvinnunni, allir einhleypir menn. Og samt sýndu skráningarnar, að í bænum voru frá 7 upp í 12 hundruð manns atvinnulausir.

Síðastl. sumar var atvinnuleysi æðimikið einmitt um þann tíma, er helzt hafa verið skilyrðin fyrir að bjarga sér hér á landi. Ekki varð mönnum að vonum sú atvinna, er fengizt hefði við byggingarvinnu, og litlar líkur eru til þess, að brátt lifni verulega yfir þeim. Ekki bætir það heldur úr skák, að opinber vinna er stórkostl. dregin saman og þar með bætt við atvinnuleysingjahópinn. Af þessu sjáum við, að bráðnauðsynlegt er að hafa atvinnubótavinnu allt árið um kring. Bæjarstj. lét hana falla niður, er vertið byrjaði, út frá því sjónarmiði, að eðlilegt virtist, að þar fengist nóg atvinna til handa öllum bæjarmönnum. En þrátt fyrir það, að vertíð hafi byrjað svo snemma og sé meiri en áður, kom þetta ekki að haldi, því að sami fjöldinn gengur atvinnulaus eftir sem áður í bænum. Þetta má alls ekki halda áfram í þessu horfi. Atvinnu þarf að útvega. Atvinnubótavinna er nauðsynleg, þótt hún gefi ekki af sér mikinn arð, til þess að koma atvinnunni á réttan kjöl aftur. Útgerðina þarf að auka. Hún hefir minnkað allt of mikið, og einstakir menn og félög virðast ekki auka hana mikið, enda er venjulega svo um einkaútgerð og félaga, að togurum er haldið úti, er vel árar, en seglin eru saman dregin, er illa stendur á. Þess vegna þarf hið opinbera að koma til hjálpar, því að ekki er víst um framgang einkaútgerðar togara um þessar mundir. Meiri hl. fólksins óskar eftir bæjartogaraútgerð, enda virðist slíkt alveg sjálfsögð aðferð til þess, að notaður verði sá vinnukraftur, sem bærinn á völ á, og ennfremur til þess, að þessi vinnukraftur haldist í bænum óskertur til langframa.

Nú eru tvær till. um þessi efni. Önnur er að taka togara á leigu, en ekki tel ég hana mjög heppilega, því að nokkrum erfiðleikum mun slíkt vera bundið. Hitt er að athuga og rannsaka öll skilyrði fyrir því, að bærinn komi sér upp 5-10 góðum togurum, búnum öllum nýtízkutækjum, og enn athuga, hvort notaðar skuli í þessu sambandi gufuvélar eða dieselvélar. Notkun dieselvéla er nú óðum að færast í vöxt meðal erlendra þjóða, en ennþá er samt rannsóknaratriði, hvort þær reynist betur.

Ef nú bærinn kaupir 5-10 nýja togara, svarar það til um 1-2 millj. kr. vinnukaupsgreiðslu yfir árið. Eftir venjulegum tekjum verkamanna nú er auðvelt að sjá, hve stórkostlega þetta mun bæta aðstöðuna. En hvar á að taka féð? Að vísu er ekki ómögulegt, að bæjarsjóður geti tekið lán út á hin nýju skip, er hann kaupir, en greiðlegar myndi slíkt ganga með ábyrgð ríkissjóðs að baki. Og því er í frv. gert ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist lántöku, allt að 23 millj. kr. Tala togaranna er óákveðin, vegna þess að óvíst er um, hver lánskjör mundu fást. Í frv. er ætlazt til ríkissjóðsábyrgðar á 2/3 hluta kaupverðs togaranna, en það, sem á vantar, myndu skipasmíðastöðvarnar láta í té, ef á þyrfti að halda.

Ég tek það fram, að ég kem ekki auga á neina áhættu fyrir ríkissjóð í þessu máli, og hinsvegar er engum blöðum um það að fletta, að ríkissjóði er jafnskylt að létta undir bagga með Reykjavíkurbæ eins og öðrum héruðum landsins. Það er reyndar nokkuð til í því, að í Reykjavík sé mest um háar tekjur, og auður sé þar mestur saman kominn, en þess er hinsvegar að gæta, að ef skipin ganga svo úr sér, að útgerð leggst niður að öllu, þá verður ekki velmegun Reykjavíkur lengi að fjara út, ef ekki verða séð bjargráð við slíkri ógæfu í tæka tíð. Vænti ég þess fastlega, að óvild sú, sem svo oft hefir skinið í gegn hér á þingi í garð Reykjavíkurbæjar, fái að hvíla sig í þessu máli, sem ég hefi þegar tekið fram, að getur vel tekið á sig svip atvinnutryggingar. Vil ég svo að loknu máli mínu bera fram þá ósk, að frv. verði vísað til kreppunefndar.