19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (4693)

134. mál, jarðræktalög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal undirstrika það með hv. þm. Borgf., að samstarfið á milli Búnaðarfél. og Alþingis hefir verið mjög gott undanfarin ár, og álít ég, að trausts og samúðar hafi gætt á báða bóga. Ég vil einnig undirstrika það, að ég óska einskis framar en að þetta góða samkomulag megi haldast sem lengst. En eitt af því nauðsynlega til þess að þetta takist, er einmitt að koma fram þessari breyt. Það er engu tapað, þó að íhlutunarrétturinn, sem stjórnin hefir haft á pappírnum, verði afnuminn, en þingið látið halda sínu valdi til fjárveitinga. Það er engin ástæða að halda við þessu ákvæði, þó að 3-4 búnaðarþingsmenn hafi ekki greitt atkv. með áskoruninni í þetta skipti, og ég get fullyrt, að það er enginn innan Búnaðarfél., sem ekki vill þessa breyt. Það, að þeir greiddu ekki atkv. með áskoruninni, kemur aðeins til af því, að þeir óttuðust andstöðu í þinginu. Þetta er margítrekuð beiðni frá Búnaðarfél., og eitt atriði til þess að viðhalda góðu samstarfi er að fallast á þetta núna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vísa málinu til n., þar sem það er margrætt og margíhugað, en hinsvegar mun ég ekki gera það að neinu kappsmáli, bara ef þá er fremur trygging fyrir því, að það komist í gegn.