27.02.1933
Neðri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 58 við þetta frv., sem ég ætla að skýra lítilsháttar. Eins og kunnugt er þá eru bifreiðar lækna og ljósmæðra, sem notaðar eru til sjúkravitjana, skattlagðar eins og einkabílar eða lúxusbifreiðar. Ég sé ekki annað en að það væri sanngjarnt að skattleggja þær einungis eins og almennar bifreiðar til mannflutninga, enda er fullkomin nauðsyn orðin á sérstökum bílum fyrir lækna í flestum héruðum landsins. Ég hefi ekki reiknað út, hvað sá mismunur á þungaskatti af þessum bifreiðum yrði mikill fyrir ríkissjóð, ef þessar brtt. mínar yrðu samþ., en það yrði hverfandi lítið, hinsvegar mundi það koma hinum einstöku læknishéruðum til góða.

Ég vil leyfa mér að beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. í þessu sambandi. Í mínu kjördæmi hefir komið fram megn óánægja út af því, að þar hefir ekki fengizt endurgreiddur tollur af benzíni, sem notað var til bátamótora. Var það ekki beinlínis áformað á síðasta þingi að endurgreiða bátaeigendum benzíntollinn, þegar benzínnotkunin færi yfir 750 l. á hverjum bát? Ég veit ekki betur. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort búið sé að gefa út reglugerð um þetta, en ef svo er ekki, þá vænti ég, að hún verði sett sem fyrst, og að bátaeigendum verði endurgreiddur tollurinn. Ýmsir bændur í mínu héraði nota litla trillubáta til flutninga á mjólk og öðrum búsafurðum til kaupstaðanna, og eru þær ferðir að jafnaði tvisvar í viku. Þeim þykir því óeðlilegt að þurfa að greiða vegaskatt af því benzíni, sem þeir nota til bátanna, þar sem þeir nota enga vegi á landi.

Ég hefi svo ekki annað að segja um þetta frv. fyrir mitt leyti, því að þó skoðanir séu nokkuð skiptar um það í okkar flokki, þá sé ég enga möguleika til þess að halda við vegunum, nema lagðir séu á skattar til þess, og þess vegna fylgi ég þessu frv. eins og í fyrra.