08.04.1933
Neðri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (4725)

146. mál, dráttarvextir

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Eins og sjá má á áliti fjhn. á þskj. 344, mælir hún með því, að þetta frv. verði samþ. Fyrir þessu frv. liggur til grundvallar sama ástæða og fyrir lækkun almennra vaxta, sem mikið er talað um nú á þessum tímum. N. þótti rétt, að hámark dráttarvaxta væri því sett nokkru lægra en nú tíðkast hjá einstökum lánsstofnunum, og því felist hún á frv. Ennfremur skal ég geta þess, að einstökum nm. þótti ekki nógu langt gengið í frv., og hefir því komið fram brtt. á þskj. 345 um meiri lækkun á hámarki dráttarvaxta, og hafa hv. nm. að sjálfsögðu óbundin atkv. um þá till. Þá hafa flm. frv. flutt við það brtt. á þskj. 359, um það, að í stað orðanna „Bannað er lánsstofnunum“ komi: Bannað er sjóðum og lánsstofnunum. - Sú er ástæða fyrir þessari brtt., að nokkur vafi hefir þótt á því geta, leikið eftir orðalagi frv., hvort þetta frv. næði til Söfnunarsjóðs eða ekki, og á því þessi brtt. að taka af öll tvímæli í þessu efni, og er það þá skýrt, ef hún verður samþ., að frv. nær til Söfnunarsjóðs og annara sjóða.

Ég held, að um þetta mál sé lítill eða enginn ágreiningur. Það er enginn ágreiningur um það, að lækka skuli dráttarvexti, og þar sem hér er aðeins um hámarksákvæði að ræða, geta lánsstofnanir vitanlega ákveðið lægri dráttarvexti en tiltekið er í frv.