09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (4762)

188. mál, almannafriður á helgidögum

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Á Alþingi í fyrra var flutt hér í þessari hv. d. frv. um nokkrar breyt. á helgidagalöggjöfinni, til þess að tryggja betur rétt þeirra manna, sem verst verða úti eftir núgildandi lögum um helgidagahald. En þar sem það féll meðfram vegna slæms undirbúnings, ákvað aðalfundur Prestafélags Íslands á síðasta ári að fela 3 mönnum undirbúning á breytingum á helgidagalöggjöfinni og koma þeim á framfæri á Alþingi.

Eins og grg. ber með sér, er þetta gert í samráði við atvmrh. og stillt svo í hóf, sem fært þótti um nýjar kröfur um þessi efni.

Ákvæði þessa frv. nær einkum til bifreiðastjóra, sem eftir ákvæðum 1. gr. mundu hafa rétt til helgidagahvíldar annanhvern sunnudag, eftir því sem sú gr. er orðuð. Það er ekki einungis, að þessir menn eigi þann sjálfsagða rétt að njóta helgidagalöggjafarinnar, heldur hefir það líka þýðingu sem öryggisráðstöfun fyrir umferðina á vegunum, því að það er enginn vafi á því, eins og verið hefir um störf bifreiðastjóranna, að þeir hafa engar ákveðnar hvíldarstundir frá störfum sínum, að þá eru þeir oft vegna ofþreytu og af vökum alls ekki svo öruggir í störfum sínum eins og nauðsynlegt er í þeim efnum.

Þá hefir það ennfremur verið tekið upp, að það sé ekki hægt að skuldbinda menn til að vinna við veiðiskap eftir kl. l0½ til 1 eftir hádegi á helgidögum. Er einkum átt við sjómenn, sem eru á stórum veiðiskipum, að þeir geti a. m. k. notið hvíldar þennan stutta tíma á helgidögum.

Ég hefi persónulega borið þetta undir nokkra skipstjóra, og þeir hafa ekki talið neitt við það að athuga, enda er það vitað, að margir þeirra veita hásetum sínum slíka hvíld á helgidögum.

Þá hefir ennfremur verið tekið upp í 3. gr., að það sé löghelgað, að fiskimenn séu í höfn á jólum og heima, ef við verður komið, því að það er sú hátíðin, sem sérstaklega er helguð heimilunum, og flestir óska eftir að geta þá dvalið hjá ástvinum sínum. Það hefir undanfarið jafnvel verið gerður að því leikur að láta menn fara úr höfn rétt fyrir jólin, og það er vitað, að jafnvel sjálfa jólanóttina hefir verið stundaður veiðiskapur. Það virðist ekki ástæða til annars um það leyti árs, þegar sjávarútvegur er ekki svo arðvænlegur, en að það verði lögákveðið, að sjómenn séu í höfn eða heima, ef skipstjóri telur, að því verði við komið.

Um leið og ég óska eftir, að hv . d. taki þessum breytingum vel, þá vil ég geta þess, að persónulega hefði ég óskað, að hægt hefði verið að ganga allmiklu lengra en hér hefir verið gert. Hinsvegar, þar sem ég heyrði undirtektir d. í fyrra í þessu efni, þá taldi ég ekki líklegt, að samkomulag næðist fljótlega um önnur atriði en þau, sem tekin hafa verið upp í frv., og ég tel, að í þeim felist sú bót, sem ekki er hægt að slá hendinni á móti, þegar ég tel líklegt, að mikill meiri hl. deildarmanna muni þeim fylgjandi, eftir því sem orð féllu hér um svipað frv. á síðasta þingi.

Leyfi ég mér svo að óska þess, að þetta frv. verði látið ganga til 2. umr. og til allshn., ef ástæða þykir að athuga það í n. Annars, þar sem svo áliðið er þingtímans - og ég óska eftir að það geti gengið fljótt í gegn, og í því eru engin flókin atriði -, þá tel ég ekki ástæðu til að vísa því til n.