27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (4768)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Jónas Jónsson:

Hv. þm. Hafnf. hefir að vísu haldið alllanga ræðu, en honum hefir þó láðst að segja allmargt, er þó þurfti að segja þessu máli til skýringar, ef það á að sjást í réttu ljósi. Vil ég því leyfa mér að bæta nokkru við frásögn hans nú þegar, en mun þó væntanlega koma nánar að því síðar í sambandi við annað frv., er flutt mun verða og bæta mun betur og nærtækar úr þörfum Hafnfirðinga í þessu efni.

Það mátti skilja það á hv. flm., að ég hefði verið eitthvað slæmur eða erfiður Hafnfirðingum. Ég vil þó minna hv. þm. á það, að ég hefi áður verið hjálplegur Hafnfirðingum með að fá hluta úr Garðalandi til sinna þarfa, bæði til húslóða og skemmtigarða fyrir bæinn. Var áherzla lögð á það, að bærinn notaði það land sem fegurðarauka fyrir bæinn og að byggja stórbyggingar sínar á hamrinum. Það er saga þessa máls, að á Álftanesinu eru tveir hreppar, Garðahreppur og Bessastaðahreppur. Af ýmsum ástæðum, einkum vegna burtflutnings ungs og fullvinnandi fólks þaðan, líkt og víðar hefir átt sér stað, hafa þessir hreppar orðið fámennir og fátækir. Höfuðástæðan til erfiðleika þeirra liggur þó í því, að þegar það fólk, sem þaðan var kynjað, hefir gefizt upp, hafa hrepparnir aftur orðið að taka við því til framfæris. Af því leiðir, að sveitarþyngsli eru gífurleg í þessum hreppum, einkum þó í Garðahreppi, og munu þau hvergi meiri vera á landinu, miðað við mannfjölda. Af algengum ástæðum, og ekki sízt að þessu athuguðu, er það skiljanlegt, að hreppi þeim, sem hér um ræðir, sé ekki sama, hvernig búið er að jarðeignum hans. Er þeim ekkert ljúft, og telja að það auki lítið gjaldþol hreppsins, að Hafnarfjörður nái umráðum yfir landi hreppsins meira en hann þegar hefir fengið. Frá Hafnarfirði hafa þeir fengið bróðurpartinn af sínum sveitarþunga. - Þegar því hinar pólitísku umbúðir eru teknar af þessu máli, þá fer að verða nokkuð mikil spurning, hvort rétt sé, að Hafnarfjörður fái miklu meira af sérstökum hreppi, sem þarf að vera sjálfstæður og þarf til þess, að svo geti verið, á öllu sínu að halda. Spakmælið sígilda „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er“, o. s. frv. getur átt þar við. - Hafnarfjörður hefir þegar fengið það úr Garðalandi, sem vegna landfræðilegrar afstöðu var sjálfsagt, að hann fengi. En nú vill Hafnarfjörður leggja undir sig svæði úr hreppnum til viðbótar, þar sem vel gætu verið sjálfstæð býli. Hv. þm. Hafnf. treysti sér ekki til að minnast á það, að Garðahreppur hefir mótmælt því, að hann væri veiktur með því að leggja meira af Garðalandi til Hafnfirðinga. En það hefir hann gert. Hv. þd. verður því að athuga það vel, að þegar umbúðirnar eru teknar af þessu máli, þá er kjarninn sá, hvort rétt er að veikja erfiðlega staddan hrepp með því að taka frá honum sjálfstæð býli og leggja þau undir nágrannakaupstað. - Þetta vona ég, að hv. þdm. athugi vel.

Áður langt um líður mun ég geta sýnt hv. þd., hvernig Hafnarfjörður, sem nú vill ásælast lönd nágrannahrepps, hefir farið með sín eigin lönd, þau er hann hafði full umráð yfir. Er rétt og skylt að bera þá samninga, sem um þau lönd hafa verið gerðir, saman við samninga þá, sem hér er um deilt. En ekki liggur neitt á að fara út í það nú. En ekki er nema réttmætt að ætlast til þess, að kaupstaðurinn ráðstafi sínum eigin löndum haganlega, áður en hann fer að ásælast lönd nágrannahreppa og þrengja með því kosti þeirra.

Að svo mæltu skal ég leyfa mér að leiðrétta nokkra ónákvæmni í frásögn hv. flm. Er þá fyrst frá því að segja, að þegar ég tók sæti í stjórn, var gamall prestur í Görðum. Óskaði hann eftir því að mega flytja til Hafnarfjarðar, og fékk hann leyfi til þess. Næsti prestur, sem við brauðinu tók, óskaði einnig eftir því að eiga búsetu í Hafnarfirði. Jörðin var því byggð, en það er þó ekki rétt hjá hv. þm., að hún sé öll í fastri ábúð, því að ég mælti svo fyrir í stjórnarráðinu, að 1/3 yrði eftirskilinn handa presti, ef hann vildi nytja landið. En það hefir ekki orðið enn. Virðist því hafa verið óþarfa forsjálni að gera ráð fyrir því, að prestur vildi setjast að í Görðum.

Það var auðheyrt á því, sem hv. flm. sagði, að hann hefði helzt kosið, að heimajörðin í Görðum yrði einnig innlimuð Hafnarfirði. Ég hefði máske getað fylgt því, ef það hefði legið fyrir, að Garðahreppur yrði allur innlimaður Hafnarfirði, bæði til þyngsla og ávinnings. Þetta hygg ég, að sumir þeir menn álíti að geti komið til mála, sem þó eru algerlega mótfallnir allri skerðingu á löndum hreppsins á þann hátt, að þau séu lögð til annara hreppa eða kauptúna. Áður hafði Garðatorfan átt saman óskipt land. Bændur þar vildu, að landinu væri skipt og merki sett. Var því Pálmi Einarsson ráðunautur fenginn til þessa verks. Er nú löndum skipt í sundur, og una menn því vel. En auk þess, að á heimajörðinni í Görðum má hafa tvö býli, ef prestur vill búa þar, þá var gert ráð fyrir, að býlum gæti fjölgað, og mæling framkvæmd með það fyrir augum. En auk þess, sem ætlazt var til, að sjálfstæðum býlum gæti fjölgað og ræktun aukizt, var og séð fyrir því, að Hafnfirðingar gætu fengið þarna land til kartöfluræktar, en það hafa þeir ekki þegið. Hv. flm. hlýtur að vita um það, að Hafnfirðingar hafa átt kost bæði á þessu landi og öðrum; sem þeir gátu fengið keypt. En því hafa þeir ekki viljað líta við. Og um þau lönd, sem hér um ræðir, fara þeir fyrst að biðja, þegar þeir vita, að aðrir hafa lagt fölur á þau. Það lítur því helzt svo út, að það sé ekki þróttur til framkvæmda, heldur viss tegund afbrýðissemi, sem hvetur þá til að leggja kapp á að ná í þessar landspildur. Þetta álit styrkist líka við það, að ekki er seilzt til lands, sem forstjóri Mjólkurfélagsins á þarna og líkt er ástatt um, - en það er líka flokksbróðir hv. flm., sem það land á. Ég sé því ekki ástæðu til að taka landið frekar af einum en öðrum, er lönd eiga þarna. Ef bæjarstj. Hafnarfjarðar vill gera mikið, þá liggur næst fyrir hana að taka jarðir af 12-14 bændum þarna.

Þá hefir hv. þm. Hafnf. vísvitandi reynt að telja hv. deild trú um það, að ekki hafi verið byggt á neinni rannsókn, þá er landi þessu var skipt í nýbýli. En það vill nú svo vel til, að í stjórnarráðinu munu liggja plögg frá manni þeim, er mældi landið, þar sem hann leggur til, hvernig því skuli skipt, og það get ég fullyrt, að ekki var einn ferþuml. af því látinn öðruvísi.

Sá, sem landið mældi, var Pálmi Einarsson ráðunautur, og ég fyrir mitt leyti trúi honum miklu betur en Þorleifi lögregluþjóni í Hafnarfirði og hv. þm. Hafnf. En hann fullyrti við mig, að land það, sem Hafnarfjarðarkaupstað var boðið af hinu umrædda Garðakirkjulandi, væri bezt fallið til kartöfluræktar af því landi, sem úthlutað var, og hann fullyrti ennfremur, að land þetta væri meira en líkindi voru til, að Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti að nota til kartöfluræktar í náinni framtíð.

Ég hefi því látið Hafnfirðinga fá það land, sem hentugast var fyrir þá, en Garðahrepp halda því af landi sínu, sem bezt var fallið til nýbýla, í von um, að hann á sínum tíma gæti fengið 4-5 nýbýli, til þess að standa undir byrðum sveitarfélagsins. Bæjarstj. Hafnarfjarðar hefir nú neitað að taka við landi því, er henni var boðið til kartöfluræktar. Hvort Emil Jónsson bæjarstjóri þar hefir meira vit á landi og gæðum þess til ræktunar en Pálmi Einarsson, læt ég ósagt. Hv. flm. hefir því farið hér með fráleitar blekkingar, þar sem hann hefir viljað halda því fram, að ekki hafi verið tekið tillit til tillagna ráðunautsins við skiptingu landsins, þegar því er beinlínis skipt eftir tillögum hans og í samræmi við yfirlýstan vilja hreppsbúa Garðahrepps. Ég vil nú spyrja hv. flm. og óska, að hann svari spurningum mínum vífilengjulaust. Fari nú svo, að Hafnarfjarðarbær fái 3-4 stór erfðafestulönd, til hvers ætlar hann þá að nota þau? Ætlar hann að reka þar búskap með socíalistísku fyrirkomulagi, eins og t. d. bæjarútgerðina, og ætlar hv. þm. að styðja það? Eða ætlar bærinn að leigja löndin, eins og hann hefir leigt sín eigin lönd? Og í þriðja lagi vildi ég spyrja, hefir ekki verið gerð áætlun um það, hversu mikið muni fást af kartöflum úr landi þessu, sem Morgunbl. virti á 100 þús. kr.? Ég þykist nú vita, að þetta liggi laust fyrir hjá hv. þm., því að ekki er ólíklegt, að Emil Jónsson hafi notað sína verkfræðilegu þekkingu til þess að rannsaka málið ýtarlega. Þá væri og fróðlegt að vita um áætlaða mjólkurþörf bæjarins og hve mikið væri áætlað, að hafast mætti upp úr þessu landi. Glöggir útreikningar um þessa hluti hljóta að liggja fyrir; annars myndi mál þetta ekki sótt af slíku kappi sem raun ber vitni um.

Ég hefi áður leiðrétt þann leiðinlega misskilning, að Garðaprestur myndi ekki geta búið í Görðum eins og nú standa sakir. Það stendur honum einmitt opið hvenær sem er. Hitt er annað mál, þó að hann hafi frekar kosið að búa inni í Hafnarfirði. Þá mun ég ekki fara mikið út í bréfaskipti þau, sem farið hafa á milli bæjarstj. Hafnarfjarðar, stjórnarráðsins og leigjenda hinna umdeildu landa. En hitt finnst mér undarlegt, að Hafnfirðingar skuli ekki hafa komið auga á þennan mýrarblett áður. Væri því fróðlegt að fá að vita, hvernig í því liggur, og jafnframt hinu, hvers vegna þeir vilji ekki nota land það, er næst þeim liggur.

Þá held ég, að það sé dálítið ógætilegt af hv. flm. að bera erfðafestusamning þann, sem hér er um að ræða, saman við ýmsa aðra slíka samninga og telja hann hagstæðari fyrir viðtakanda, þar sem sannanlegt er, að hann er miklu harðari fyrir viðtakanda en aðrir hliðstæðir samningar, sem t. d. Reykjavíkurbær hefir gert um lönd sín, og að ógleymdum samningum þeim, sem flokksbræður hv. flm. hafa gert um lönd Hafnarfjarðarkaupstaðar. Hér má leigutaki hvorki selja né veðsetja landið, nema leyfi stjórnarráðsins komi til, og er það gert til þess, að ríkið geti tekið landið til sinna nota, ef því sýnist svo. Þar er og tilskilið, hvað greiða þurfi fyrir landið, til þess að ríkið þurfi ekki að greiða verðhækkun, sem á því yrði án tilverknaðar eiganda. En eins og kunnugt er, þá hefir það verið höfuðgallinn á lóðasölu hér í Rvík og jafnvel víðar nú um nokkurt skeið, að stórkostlega miklir fjármunir hafa lent í vösum einstakra manna, aðeins vegna óeðlilegrar verðhækkunar á lóðum og lendum.

Þá var allfróðlegt að heyra röksemdafærslu hv. flm. fyrir því, að hann teldi ekki fært að láta taka eignarnámi lönd þau, er flokksbræður hans eiga þarna við hliðina á landi því, er hann með frv. þessu vill, að heimilað verði að taka eignarnámi. Skein þar alstaðar í gegn hjá hv. þm., að hér er ekki um annað en persónulega eða pólitíska árás að ræða. Hefði verið beðið um öll löndin, er eins stóð á um, gat maður skilið, að frv. þetta hefði verið borið fram vegna þarfa Hafnarfjarðarbæjar, en þegar aðeins er beðið um lönd þau, sem hinir pólitísku andstæðingar þm. eiga, þá horfir málið öðruvísi við.

Ég er alveg samdóma hv. þm. um það, að mál þetta eigi að fara til nefndar og athugast þar. Kemur þá einnig til athugunar aðstaða hreppsins gagnvart bæjarfélagi Hafnarfjarðarkaupstaðar, og sömuleiðis það, hvort bæjarfélaginu eigi að haldast uppi að leigja beztu lönd sín til prívatmanna fyrir óhæfilega lágt gjald, á sama tíma og það er að ásækjast lönd frá Garðahreppi.